Kolbrún Bergþórsdóttir
Ein besta sjónvarpsþáttaröð sem sést hefur í langan tíma er The Long Shadow sem sýnd var nýlega á bresku ITV-sjónvarpsstöðinni. Þættirnir eru sjö og þar er fylgst með fimm ára leit lögreglunnar að Peter Sutcliffe sem myrti þrettán konur á árunum 1975-1980.
Þættirnir eru gríðarlega góðir, það má lýsa þeim sem frábærum. Ekki er sýnt frá morðunum, áherslan er á fórnarlömbin og fjölskyldur þeirra og hina miklu leit sem fer í alls kyns áttir.
Hinn dásamlegi Toby Jones er þarna í hlutverki lögreglumanns sem leitaði morðingjans og hann skín í hlutverki sínu sem vel gerður og hjartahlýr einstaklingur. Þar er hann ólíkur mörgum öðrum lögreglumönnum myndarinnar sem eru óþolandi karlrembur og líta jafnvel svo á að fórnarlömbin hefðu getað sjálfum sér um kennt, en allnokkrar konur sem myrtar voru stunduðu vændi.
Þetta eru magnaðir þættir og gríðarlega vel leiknir. Vel er hugað að öllum smáatriðum og lítil atvik festast í minni, eins og þegar lögreglukona ræðir í síma við konu sem hefur sloppið undan raðmorðingjanum.
Það er engin tímaeyðsla þarna á ferð. RÚV ætti að næla sér í sýningarréttinn því áhorfið svíkur engan.