Þórhallur Kristinsson fæddist í Keflavík 16. október 1962. Hann lést á sjúkrahúsi í Torrevieja á Spáni 24. janúar 2023.

Þórhallur var sonur hjónanna Guðrúnar Rósborgar Jónsdóttur, f. 6.1. 1942, d. 10.2. 2009, og Kristins Hauks Þórhallssonar, f. 3.10. 1938, d. 7.10. 2023. Þórhallur var annar í röð fjögurra barna þeirra hjóna en þau eru Valdís Inga, f. 1960, hennar maður er Bjarni Ólason, f. 1960, Guðmundur Heiðar, f. 1966, hans kona er Jenny Kristinsson, f. 1972, og Ásrún Helga, f. 1974, hennar maður er Reynir Ólafur Þráinsson, f. 1969.

Þórhallur giftist Torie Kristinsson 6.1. 2023, þau bjuggu í La Marina á Spáni. Fyrrverandi eiginkona Þórhalls er Jóhanna Carlson, f. 10.2. 1962. Börn Þórhalls eru: 1) Jóna Guðný, f. 3.11. 1984, móðir hennar er Vilfríður Þorsteinsdóttir, f. 23.8. 1964, dætur Jónu Guðnýjar eru a) Agnes, f. 18.2. 2005, og b) Ásdís Freyja, f. 1.9. 200.9 2) Tinna Zizka Smrcka, f. 28.9. 1989, móðir hennar er Petra Ziska Smrcka, f. 4.3. 1967, sambýlismaður Tinnu er Kasper Lund Hansen, f. 23.12. 1980, þeirra dætur eru a) Zilva, f. 18.7. 2018, og b) Evie, f. 23.12. 2022. 3) Karen Carlson, f. 1.7. 1993, sambýliskona hennar er Guðrún Jóhannesdóttir, f. 3.9. 1991. Sonur Guðrúnar er Dagur. Þórhallur ól einnig upp Fannar son Jóhönnu, f. 1.4. 1988, sambýliskona hans er Maria Alejandra Crespo Cabrera, f. 23.5. 1991.

Þórhallur ólst upp í Grindavík en bjó síðan víða, í Keflavík, Njarðvík, Færeyjum, Danmörku, Svíþjóð, Hafnarfirði og nú síðast á Spáni. Hann starfaði sem smiður, rak veitingasölu og pylsuvagn.

Þórhallur verður jarðsunginn ásamt Kristni föður sínum frá Grindavíkurkirkju í dag, 6. nóvember 2023, klukkan 14.

Elsku pabbi, þú ert farinn langt fyrir aldur fram. Ég man þegar ég vissi af veikindum þínum, þá hugsaði ég um bréfið sem þú skrifaðir mér þegar þú bjóst í Danmörku, ég var fimm ára. Amma Gunna geymdi þetta bréf alltaf fyrir mig og gaf mér það þegar ég var unglingur. Neðst í bréfinu stóð: Með ást og söknuði, pabbi. Þegar þú kvaddir fór ég og lét flúra á mig þessa setningu.

Ég man eftir því þegar ég varð mamma og gerði þig að afa. Þú hringdir alltaf reglulega og spurðir:

„Er ekki að fara koma afahelgi Jóna mín?“ Þá vildir þú fá stelpurnar í dekur, þú varst svo mikill afi, það sást langar leiðir. Þú varst góður kokkur líka og þótti þér gaman að bjóða okkur í mat og mátti ég ekki skipta mér af hvað voru margir íspinnar í eftirrétt, því þetta var afahús og þar býr afi til reglur en ekki mamma.

Elsku pabbi, ég er búin að bíða eftir þessari erfiðu stundu að klára að kveðja þig síðan í janúar, það er loksins komið að því að kveðja, þú ferð í friði.

Með ást og söknuði.

Þín dóttir,

Jóna Guðný.

Í dag fylgjum við bróður okkar og föður til grafar, samrýndir feðgar fylgjast að síðasta spölinn. Elsku Halli bróðir okkar lést fyrr á þessu ári eftir erfið og snörp veikindi sem hann þó tók af miklu æðruleysi. Erfitt var að vera fjarri í öðru landi og geta ekki stutt og hjálpað, sérstaklega var erfitt fyrir pabba okkar, sem var orðinn gamall og lasburða, að geta ekki hitt son sinn.

Við reyndum af fremsta megni að bæta fjarlægðina upp með netspjalli og símtölum og Gummi gat farið í nokkrar heimsóknir sem var ómetanlegt fyrir þá báða. Halli lét ekki bilbug á sér finna og virkaði kátur með sinn svarta húmor og hann smitaði til okkar trú á að þetta færi vel að lokum. Við systkinin erum þakklát fyrir skemmtilega stríðnispúkann sem iðulega létti lund okkar þegar við heyrðumst í síma, sendum myndir á netinu eða það sem var allra best; hittumst.

Halli var ákaflega greiðvikinn og laghentur og við fjölskyldan nutum góðs af því. Hvert og eitt okkar geymir með sér góðar og dýrmætar minningar, grátum eða hlæjum þegar við rifjum þær upp.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.

Og hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.

Svo, vinur kæri, vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín gæta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Ástvinum öllum biðjum við Guðs blessunar, megi allt það góða sem hann var okkur verða ykkur styrkur í sorg og söknuði.

Valdís, Guðmundur og Ásrún.

Elsku afi Halli.

Okkar allra mesti grínisti og betri vin er erfitt að finna. Uppáhaldshelgarnar okkar voru afa Halla helgar í dekri þar sem rennibrautarferðir, ótakmarkað ísát og nammiland var fremst í flokki. Það var alltaf stutt í grín og glens með þér og ekki til meiri stríðnispúki en þú. Það var enginn jafn stoltur af okkur eins og þú og við verðum alltaf stoltar að geta kallað þig afa okkar. Húmor og væntumþykja eru orð sem við tileinkum þér elsku afi. Við söknum þín og við verðum alltaf þínar prinsessur.

Þínar afastelpur,

Agnes og Ásdís.

Elsku Halli frændi, eftir snörp og erfið veikindi þín er nú komið að kveðjustund. Það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um þig og ég er þér þakklát fyrir svo margt. Hér eru nokkrir punktar sem mig langar að rifja upp.

Takk… * fyrir að vera skemmtilegur, fyndinn, stríðinn, hlýr og umhyggjusamur frændi. * fyrir að vera svo góður bróðir fyrir mömmu mína (henni þótti svo vænt um þig og ykkar góða nána samband). * fyrir alla aðstoðina og módelstörfin þegar ég var að læra klipparann (áttir klárlega heima í þeim bransa svona myndarlegur eins og þú varst) * fyrir skemmtilegan tíma í Svíþjóð þegar ég t.d. fékk að hjálpa þér að afgreiða í sjoppunni um borð, mikið sem það var spennandi og pulsurnar voru svo góðar (held ég hafi verið 12 ára). * fyrir öll sígóspjöllin (þegar talað var um allt og ekkert). * fyrir að koma í brúðkaupið mitt og samgleðjast með okkur. * fyrir að láta þig varða og sýna áhuga á því sem við og krakkarnir vorum að fást við.

Þetta líf getur sannarlega verið ósanngjarnt og ég verð svo sorgmædd þegar ég hugsa um hvernig hlutskipti fólks er misjafnt. Þú varst samt svo duglegur, sterkur og sýndir mikið æðruleysi, en fjandans krabbinn tók yfir að lokum. Ég elska þig, elsku frændi, góða ferð í Sumarlandið.

Þín litla frænka,

Rósa Kristín.