Rithöfundurinn Pedro Gunnlaugur hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin í fyrra fyrir skáldsögu sína, Lungu.
Rithöfundurinn Pedro Gunnlaugur hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin í fyrra fyrir skáldsögu sína, Lungu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pedro Gunnlaugur Garcia fæddist 6. nóvember 1983 í Lissabon. Móðir hans, Gunnhildur Gunnlaugsdóttir, er frá Ólafsfirði en hún kynntist föðurnum, Henrique Garcia, á ferðalagi sínu um Portúgal

Pedro Gunnlaugur Garcia fæddist 6. nóvember 1983 í Lissabon. Móðir hans, Gunnhildur Gunnlaugsdóttir, er frá Ólafsfirði en hún kynntist föðurnum, Henrique Garcia, á ferðalagi sínu um Portúgal. Þau giftust seinna á Íslandi, í Háteigskirkju, og bjuggu síðan í Parede, skammt utan við Lissabon.

Henrique er þekktur portúgalskur frétta- og fjölmiðlamaður sem starfaði lengst af fyrir ríkismiðilinn RTP. Auk Pedros eignuðust þau soninn Henrik Geir Garcia, sem starfar í dag sem læknir en hann hefur einnig skrifað skáldsöguna Læknir verður til.

Bræðurnir fluttu á unga aldri ásamt móður sinni til Íslands eftir skilnað foreldranna. „Ég var, held ég, fjögurra ára, og það er svolítið skondið að íslenskan sem ég ólst upp við í Portúgal var með norðlenskum framburði. Þannig að þegar ég flutti til Íslands talaði ég með norðlenskum framburði, en hann hefur síðan rjátlast af mér með tímanum.“

Pedro hóf skólagöngu sína í Álftamýrarskóla og árið 2004 lauk hann stúdentsprófi úr fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík. Hann flutti síðan til Portúgals og bjó þar til skamms tíma til að ná betri tökum á portúgalskri tungu. Eftir það vann hann í nokkur ár í ýmsum verslunar- og þjónustustörfum, þar á meðal þrjú ár í IKEA. Hann sneri aftur til náms eftir hrun og lauk við BA-gráðu í félagsfræði og síðan MA-gráðu í hagnýtri menningarmiðlun, hvort tveggja við Háskóla Íslands.

Á þessum árum lék Pedro á rafmagnsgítar með hávaðarokkshljómsveitinni Saytan, sem vann það sér helst til frægðar að koma einu sinni fram á Iceland Airwaves-hátíðinni, árið 2013.

Lokaverkefni Pedros til MA-prófs fólst að hluta til í ritun leikrits sem var byggt á heimsókn Jörundar hundadagakonungs til Viðeyjar og við þau skrif vaknaði áhugi Pedros fyrir því að skrifa skáldsögu. Árið 2017 hlaut hann nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir handrit að skáldsögu sem hann vann að samhliða vinnu sinni sem stuðningsfulltrúi í Háaleitisskóla, nú Hvassaleitisskóli. Sama ár eignaðist hann son sinn, Rafael Dýra Garcia.

Skáldsagan Málleysingjarnir kom út árið 2019 hjá Bjarti og vakti talsverða athygli fyrir metnaðarfull efnistök og stíl. Næsta skáldsaga Pedros nefndist Lungu, litrík kynslóðasaga með töfraraunsæisívafi sem teygði anga sína vítt og breitt um tuttugustu öldina og langt inn í fjarlæga framtíð. Fyrir hana hlaut Pedro Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2022 og hefur skáldsagan síðan verið seld til fimm landa; Þýskalands, Frakklands, Póllands, Brasilíu og Portúgals.

„Verðlaunin komu mér að óvörum og hafa stækkað lesendahóp minn til mikilla muna. Svo gleður mig auðvitað sérstaklega að þau opnuðu dyrnar erlendis og nú er verið að þýða bókina á nokkur tungumál. Þessi verðlaun hafa því breytt mjög miklu fyrir mig, starfslega séð. En svo er engin lygi að það er komin miklu meiri pressa á mann að næsta bók verði jafngóð. Ég hætti t.d. við bók sem ég var byrjaður á, mér fannst það sem var komið ekki nógu gott.

Núna er ég rétt að skríða af stað með nýtt efni og er bæði að reyna að muna að hafa gaman af þessu sjálfur en líka að maður megi ekki svíkja lesendur.“

Fyrr á árinu kom út þýðing Pedros á skáldsögunni Jerúsalem eftir portúgalska höfundinn Gonçalo M. Tavares, sem var gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2023. Bókin hlaut afbragðsviðtökur lesenda og gagnrýnenda. Þá birtist einnig þýðing hans á ensku skáldsögunni Mæðrunum á streymisveitunni Storytel, en að auki hefur Pedro þýtt ritgerð og ljóð eftir skáldkonuna Francescu Cricelli. Um þessar mundir vinnur Pedro að sinni þriðju skáldsögu en hann hefur vinnuaðstöðu í Gröndalshúsi í Grjótaþorpinu.

„Það sem ég hef mest gaman af að gera í frístundum mínum er að spila á hljóðfæri, helst gítar, en það hef ég bara fyrir mig. Sá eini sem verður fyrir barðinu á þeim óhljóðum er sonur minn, sem kvartar sáran yfir að þurfa að hlusta á það.“

Pedro hélt upp fertugsafmælið sitt um helgina ásamt vini sínum, þýðandanum Luciano Dutra, sem á 50 ára afmæli í dag, og var boðið upp á mat með portúgölsk-brasilísku ívafi og lifandi tónlist.

Fjölskylda

Sambýliskona Pedros er Sunnefa Gunnarsdóttir, f. 26.5. 1993, arkitekt. Þau eru búsett í Norðurmýri í Reykjavík. Foreldrar Sunnefu eru hjónin Gunnar Jóhannes Árnason, f. 27.11. 1959, listheimspekingur og sérfræðingur hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu, og Vilborg Soffía Karlsdóttir, f. 2.12. 1962, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi. Þau eru búsett í Grafarvogi.

Sonur Pedros með fyrrverandi maka, Drífu Guðmundsdóttur, f. 11.2. 1983, kennara, er Rafael Dýri Garcia, f. 11.9. 2017.

Bróðir Pedros er Henrik Geir Garcia, f. 29.1. 1985, læknir og rithöfundur, búsettur í Mosfellsbæ.

Foreldrar Pedros eru Henrique Nelson Benfeito Garcia, f. 7.2. 1948, fjölmiðlamaður, hættur störfum, búsettur í Lissabon, og Gunnhildur Gunnlaugsdóttir, f. 20.1. 1954, leikskólastarfsmaður, hætt störfum, búsett í Reykjavík.