— Morgunblaðið/Eggert
Landris við Svartsengi á Reykjanesskaga heldur áfram á sama hraða og áður, á meðan kvika safnast undir niðri. Þar er virkjun sem útvegar heitt vatn fyrir alla íbúa Suðurnesja, um 31 þúsund manns, auk hluta rafmagns og neysluvatns

Landris við Svartsengi á Reykjanesskaga heldur áfram á sama hraða og áður, á meðan kvika safnast undir niðri. Þar er virkjun sem útvegar heitt vatn fyrir alla íbúa Suðurnesja, um 31 þúsund manns, auk hluta rafmagns og neysluvatns.

Verið er að undirbúa flutning tveggja varaaflstöðva til Grindavíkur, ef náttúruhamfarir skyldu valda heitavatnsleysi á svæðinu. „Stefnt er að því að flytja þær fljótlega eftir helgi,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets, en þetta er gert að beiðni dreifiveitunnar HS Veitna.

„Við erum með alls kyns viðbúnað og undirbúning, allt eftir því hvað kemur til með að gerast. Við höfum unnið með almannavörnum og fleirum við að skoða ýmsar sviðsmyndir,“ segir Guðmundur Ingi enn fremur.

Óviðráðanlegar aðstæður

Ef heitt vatn hættir að berast um leiðslur Suðurnesja gætu leiðslurnar orðið fyrir skemmdum, þar á meðal vatnslagnir í íbúðarhúsum. Í svari HS Veitna við fyrirspurn Morgunblaðsins segir að í tilviki náttúruhamfara sé ljóst að um sé að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður sem fyrirtækið hafi ekki stjórn á. HS Veitur beri því ekki ábyrgð á tjóni húseigenda við þær aðstæður.

„Löggjafinn hefur hins vegar brugðist við slíkum aðstæðum með sérstökum lögum um náttúruhamfaratryggingar. HS Veitur geta ekki kveðið upp úr um það hversu langt þær tryggingar ná í tilvikum sem þessum,“ segir í svarinu.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar hvetur bæjarbúa til að gera ráðstafanir. „Fólki er ráðlagt að undirbúa sig sjálft með því að komast yfir rafmagnsofna eða gashitara og slíkt,“ segir Kjartan og bætir því við að hitarar sem þessir geti hjálpað til ef hitaveitan dettur út.

Mikil verðmæti á svæðinu

Fólk þurfi að hugsa: „Hvað get ég gert til að tryggja mig? Það sem er alveg ljóst er að við ættum að geta fengið kalt vatn og rafmagn en okkur mun skorta heitt vatn, sem er stóra málið þegar það er að koma vetur.“

Mikil verðmæti eru fólgin í húsakosti og búnaði næst óróasvæðinu. Þar er Bláa lónið, eitt verðmætasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, sem rekur tvö hótel og Michelin-veitingastað. Þar störfuðu í fyrra nærri 600 manns. Tjón á mannvirkjum næst óróasvæðinu gæti numið tugum milljarða, verði eldgos raunin.