400 Jóhann Berg hefur leikið í Hollandi og á Englandi á ferlinum.
400 Jóhann Berg hefur leikið í Hollandi og á Englandi á ferlinum. — AFP/Darren Staples
Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsmaður í knattspyrnu náði stórum áfanga á laugardaginn þegar hann lék með Burnley gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni. Þetta var hans 400. deildaleikur á ferlinum frá því hann lék fyrsta deildaleikinn í…

Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsmaður í knattspyrnu náði stórum áfanga á laugardaginn þegar hann lék með Burnley gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta var hans 400. deildaleikur á ferlinum frá því hann lék fyrsta deildaleikinn í meistaraflokki með Breiðabliki gegn ÍA á Akranesvelli í fyrstu umferð Íslandsmótsins 2008, þann 10. maí. Jóhann lék alla 22 leiki Breiðabliks í úrvalsdeildinni árið 2008 og skoraði sex mörk, þá aðeins 17 ára gamall, og það er hans eina tímabil á Íslandi.

Jóhann gekk til liðs við hollenska úrvalsdeildarfélagið AZ Alkmaar í janúar árið 2009 og lék með varaliðinu í rúmt ár en kom inn í aðalliðshópinn sumarið 2010. Eftir það lék hann fjögur heil tímabil með liðinu og spilaði 118 leiki með því í hollensku úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði níu mörk. Jóhann er leikjahæstur Íslendinga í þeirri deild frá upphafi.

Frá Hollandi lá leiðin til Englands sumarið 2014 þegar Jóhann fór frá AZ til Charlton Athletic í London. Þar lék hann tvö tímabil í B-deildinni, spilaði 81 deildaleik fyrir félagið og skoraði í þeim 16 mörk. Hann gekk til liðs við Burnley frá Charlton sumarið 2016 og hefur leikið með félaginu allar götur síðan og spilar nú sitt áttunda tímabil með félaginu. Þar af er þetta sjöunda tímabilið í úrvalsdeildinni. Jóhann hefur leikið 179 deildaleiki með Burnley, þar af 142 í úrvalsdeildinni. Hann er fimmti leikjahæsti Íslendingurinn í deildinni, á eftir Hermanni Hreiðarssyni, Gylfa Þór Sigurðssyni, Eiði Smára Guðjohnsen og Guðna Bergssyni.

Jóhann er 40. Íslendingurinn sem nær þeim stóra áfanga að leika 400 deildaleiki á ferlinum. vs@mbl.is