Kristín Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 19. janúar 1926. Hún lést á Grund í Reykjavík 24. október 2023.

Foreldrar Kristínar voru hjónin Ólafur Bergmann Erlingsson, f. 12. október 1898, d. 28. janúar 1973, og Jófríður Kristín Þórðardóttir f. 9. ágúst 1890, d. 31. janúar 1984. Kristín var elst þriggja systra, en systur hennar voru Ólöf, f. 23. október 1927, d. 10. júlí 2019, og Edda, f. 20. nóvember 1931.

Eiginmaður Kristínar var Bjarni Sigurðsson, f. 18. desember 1919, d. 6. desember 2008. Foreldrar hans voru Sigurður Sigmundsson, f. 30. maí 1880, d. 3. nóvember 1968, og Kristjana Bjarnadóttir, f. 11. desember 1875, d. 8. desember 1966.

Kristín og Bjarni eignuðust þrjú börn: 1) Fríða. Dætur hennar eru: a) Kristín Ásta. Eiginmaður hennar er Jóhannes Reykdal. Þau eiga þau synina Kára Björn og Bjarna Gunnar. b) Þórhildur Edda. Eiginmaður hennar er Guðmundur Arnar Þórðarson. Þau eiga þau synina Bjarna Þór, Arnar Má og Þórð Örn. 2) Ólafur Bergmann. Eiginkona hans er Ólafía Aðalsteinsdóttir. Sonur Ólafs er Þórir Ingi. Eiginkona hans er Eyrún Sigmundardóttir. Þau eiga dótturina Sóleyju og fyrir átti Þórir Ingi dótturina Mikaelu. 3) Kristín.

Kristín bjó alla tíð í Reykjavík. Á æskuárunum bjó hún á Njálsgötu 76 en þau Bjarni bjuggu lengst af í Heiðargerði 56 auk þess sem þau eyddu miklum tíma í sumarbústað sínum í landi Miðdals í Bláskógabyggð.

Kristín hafði yndi af bókmenntum og listum og var tíður gestur í leikhúsum borgarinnar og á tónleikum Sinfóníunnar. Hún hafði mikið dálæti á ferðalögum og naut þess að skoða sig um á fjarlægum slóðum. Lengst af starfaði hún í bókaverslunum.

Útför Kristínar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 6. nóvember 2023, klukkan 13.00.

Mig langar að skrifa nokkur orð til minningar um ömmu mína, Kristínu Ólafsdóttur, sem ég er nefnd eftir og nú er látin eftir langa og góða ævi.

Amma var ekki mikið fyrir að láta á sér bera en þó var hún glæsileg kona sem var alltaf smekklega klædd og vel tilhöfð. Hún var mikill listunnandi og tíður gestur bæði í leikhúsum borgarinnar og á tónleikum Sinfóníunnar svo eitthvað sé nefnt. Þegar við barnabörnin vorum lítil fór amma með okkur á ýmsar leiksýningar og áhugi minn á leikhúsinu kviknaði. Ég á henni því að þakka þennan áhuga minn og verð henni ævinlega þakklát fyrir það. Þegar ég fullorðnaðist spjölluðum við oft saman um þetta sameiginlega áhugamál okkar, bárum saman bækur og ræddum sýningar. Eitt það síðasta sem ég ræddi við hana var einmitt leikverk sem ég hafði nýlega séð en hún fyrir nokkrum áratugum.

Amma hafði yndi af ferðalögum og er það einnig eitthvað sem við eigum sameiginlegt. Hún ferðaðist ásamt afa víða um heim og oft á framandi slóðir. Alltaf kom hún heim með bunka af ljósmyndum og einhverjar gjafir handa barnabörnunum í farteskinu.

Amma var mjög bókhneigð og víðlesin. Pabbi hennar var bókaútgefandi og hún starfaði sjálf árum saman í bókaverslunum. Bókmenntirnar voru líka sameiginlegt áhugamál okkar og þegar ég hóf nám í íslensku við HÍ leitaði ég oft til hennar til að fá lánaðar bækur og ræða um þær við ömmu. Síðustu árin, eftir að sjónin fór að daprast, fékk hún aðgang að Hljóðbókasafninu og hafði mikla ánægju af því að hlusta á sögur og frásagnir, bæði gamlar og nýjar. Ég sá um tæknilegu hliðina og pantaði bækurnar og oftar en ekki vorum við amma að lesa það sama. Í dag eru fallegustu bækurnar hennar í hillunum í stofunni minni og mér þykir vænt um að hafa þennan hluta hennar hjá mér.

Þegar ég horfi til baka er ég þakklát fyrir að hafa fengið að hafa ömmu mína svona lengi hjá mér. Það var yndislegt að eiga hana að og ég mun sakna hennar og samtalanna okkar um sameiginleg áhugamál, lífið og tilveruna. Ég ylja mér við fjölda góðra minninga, full af þakklæti fyrir tímann sem við áttum saman.

Vertu sæl, mér svífur yfir,

sífellt blessuð minning þín.

Vertu sæl, ég veit þú lifir,

veit þú hugsar enn til mín.

(Ólína Andrésdóttir)

Kristín Ásta Ólafsdóttir.