Gasa Ísraelski herinn sækir nú fram gegn „Norður-Gasa“ úr flestum áttum. Hamas hafa lokað leiðinni frá Gasa.
Gasa Ísraelski herinn sækir nú fram gegn „Norður-Gasa“ úr flestum áttum. Hamas hafa lokað leiðinni frá Gasa. — AFP
Ísraelski herinn tilkynnti í gærkvöldi að landárásir hans á Gasasvæðið hefðu frá og með gærdeginum skipt palestínska yfirráðasvæðinu í tvennt, með „verulegum“ árásum sem halda áfram í stríðinu gegn hryðjuverkasamtökunum Hamas

Magnús Geir Kjartansson

mgk@mbl.is

Ísraelski herinn tilkynnti í gærkvöldi að landárásir hans á Gasasvæðið hefðu frá og með gærdeginum skipt palestínska yfirráðasvæðinu í tvennt, með „verulegum“ árásum sem halda áfram í stríðinu gegn hryðjuverkasamtökunum Hamas.

Ísraelskar hersveitir eru sagðar hafa umkringt Gasaborg. „Nú er til Suður-Gasa og Norður-Gasa,“ sagði Daniel Hagari, helsti talsmaður ísraelska hersins, á blaðamannafundi í gær. Um leið sakaði Daniel Hamas-samtökin um að tefja og/eða spilla fyrir tilraunum ísraelska hersins, sem reynir að koma saklausum borgurum í suðurátt, fjær átökunum.

Halda flóttaleiðinni lokaðri

Hamas á Gasa heldur flóttaleiðinni til Egyptalands enn lokaðri. Ísraelar og Egyptar hafa ekki fallist á kröfur Hamas, sem vilja að særðir vígamenn Hamas geti nýtt flóttaleiðina.

Að sögn egypskra og palestínskra embættismanna hafði Hamas stöðvað brottflutning erlendra ríkisborgara til Egyptalands á laugardaginn eftir að Ísraelar neituðu að leyfa „sumum“ særðum Palestínumönnum að vera fluttir á brott.

„Flóttaleiðin er lokuð vegna þess að Ísrael bannar sumum í hópi þeirra særðu að fara til Egyptalands og fá þar aðhlynningu,“ sagði heimildarmaður innan Hamas-stjórnarinnar á Gasa við fréttastofu AFP gegn nafnleynd.

„Engir útlendingar fá að fara svo lengi sem hinir særðu eru strandaglópar á Gasa,“ bætti heimildarmaðurinn við. Fyrir helgi hafði háttsettur bandarískur embættismaður sagt að tilraunir til að koma erlendum ríkisborgurum frá Gasa hefðu verið stöðvaðar. Ástæðan væri sú að Hamas hefði reynt að nota flóttaleiðina til að koma eigin særðum vígamönnum á brott í gegnum Rafah-landamærastöðina.

Hamas noti spítala sem skjól

Ísraelar hafa gefið út ný sönnunargögn sem þeir segja að sanni enn frekar að Hamas noti sjúkrahús á Gasasvæðinu í hernaðarlegum tilgangi.

Hagari frumsýndi á blaðamannafundinum í gær myndband sem virtist sýna Hamas-liða notast við göng sem lágu á lóð Sjeik Hamad bin Khalifa al-Thani-sjúkrahússins, norður af Gasaborg. Daniel sagði að slík göng væru án efa hluti af hinu fræga jarðganganeti Hamas, sem liggur undir Gasa.

„Vígamenn Hamas hafa einnig skotið á ísraelska hermenn innan frá sjúkrahúsinu,“ sagði Daniel. „Við munum einnig birta gögn sem sanna það að „indónesíska“ sjúkrahúsið sé notað af Hamas í þeim tilgangi að fela bækistöðvar sínar neðanjarðar,“ sagði Daniel.

Höf.: Magnús Geir Kjartansson