Fyrirliði Aron Pálmarsson sýndi góða takta í Laugardalshöll og virðist vera að nálgast sitt besta form á nýjan leik.
Fyrirliði Aron Pálmarsson sýndi góða takta í Laugardalshöll og virðist vera að nálgast sitt besta form á nýjan leik. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska karlalandsliðið í handknattleik slapp með skrekkinn þegar liðið vann nauman sigur gegn Færeyjum, 30:29, í öðrum vináttulandsleik þjóðanna á tveimur dögum á laugardaginn í Laugardalshöll. Leikurinn var í járnum nánast allan tímann en Elliði…

Í Höllinni

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik slapp með skrekkinn þegar liðið vann nauman sigur gegn Færeyjum, 30:29, í öðrum vináttulandsleik þjóðanna á tveimur dögum á laugardaginn í Laugardalshöll.

Leikurinn var í járnum nánast allan tímann en Elliði Snær Viðarsson kom Íslandi yfir, 28:27, þegar tæplega tvær mínútur voru eftir af leiknum. Færeyingar brunuðu upp í sókn en Viktor Gísli Hallgrímsson varði frá þeim úr dauðafæri og fór um leið langleiðina með að tryggja sigurinn. Aron Pálmarsson kom Íslandi svo tveimur mörkum yfir, 29:27 þegar tæp mínúta var eftir og þann mun tókst Færeyingum ekki að vinna upp.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði alls 11 skot í leiknum en Björgvin Páll Gústavsson kom inn á strax í upphafi seinni hálfleiks og náði sér ekki á strik. Viktor Gísli kom aftur inn á þegar um tíu mínútur voru til leiksloka og hjálpaði liðinu að sigla sigrinum heim en hann varði þrjú skot á síðustu fimm mínútunum. Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk og var markahæstur.

Sóknarleikurinn upp og ofan

Í báðum vináttulandsleikjunum léku Færeyingarnir sjö á sex, nánast allan tímann. Í þau fáu skipti sem Færeyingarnir léku sex á sex í sóknarleiknum stóð íslenska vörnin vel og fékk fá mörk á sig.

Liðið fór nokkrum sinnum í 5-1-vörn líka, til þess að reyna að hrista upp í færeyska sóknarleiknum, og það var ánægjulegt að sjá það aftur hjá liðinu enda margir leikmenn þess sem geta spilað framarlega í þannig varnarleik.

Sóknarleikurinn gekk upp og ofan en það var jákvætt að sjá hversu mikið framlag liðið fékk frá öllum þeim sem fengu tækifæri.

Snorri Steinn Guðjónsson á hrós skilið fyrir að halda öllum leikmönnum á tánum því allir sem komu inn á og fengu tækifæri komu inn á með mikinn kraft.

Sigur er alltaf sigur en eitt af því sem liðið tekur með sér út úr þessu einvígi er hvernig það getur bætt sig í því að verjast sjö á sex. Að öðru leyti þá er hraður leikur íslenska liðsins væntanlega eitthvað sem verður byggt ofan á í vináttulandsleikjunum gegn Austurríki í janúar og svo auðvitað á EM.

Það er búið að tala mikið um breiddina í landsliðinu að undanförnu og það var ánægjulegt að sjá hana loksins nýtta almennilega.

ÍSLAND 30:29 Færeyjar

Vináttulandsleikur karla, Laugardalshöll, 4. nóvember 2023

Gangur leiksins: 4:1, 7:3, 9:7, 11:11, 14:11, 16:12, 17:16, 20:19, 24:24, 26:26, 30:29.

Mörk Ísland: Ómar Ingi Magnússon 6/3, Aron Pálmarsson 4, Viggó Kristjánsson 4/1, Elliði Snær Viðarsson 4, Bjarki Már Elísson 3, Haukur Þrastarson 3, Janus Daði Smárason 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Elvar Örn Jónsson 1, Arnar Freyr Arnarsson 1.

Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 11, Björgvin Páll Gústavsson 3/1.

Utan vallar: 2 mínútur

Mörk Færeyjar: Hákun West av Teigum 9, Elías Ellefsen á Skipagötu 7/2, Vilhelm Poulsen 4, Rói Berg Hansen 2, Teis Horn Rasmussen 2, Bjarni í Selvindi 2, Leivur Mortensen 2, Óli Mittún 1.

Varin skot: Nicholas Satchwell 9.

Utan vallar: 2 mínútur

Dómarar: Amar Konjicanin og Dino Konjicanin.

Áhorfendur: 1.800.

Höf.: Bjarni Helgason