Jarðvinna Byrjaði rekstur í upphafi mikils framkvæmdaskeiðs á Íslandi, segir Dofri Eysteinsson þegar hann reifar langa sögu Suðurverks.
Jarðvinna Byrjaði rekstur í upphafi mikils framkvæmdaskeiðs á Íslandi, segir Dofri Eysteinsson þegar hann reifar langa sögu Suðurverks. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Að undanförnu höfum við unnið að mörgum spennandi verkefnum og mannskapurinn er á fullu. Staðan fram undan er líka góð,“ segir Dofri Eysteinsson framkvæmdastjóri Suðurverks. Nýlega skilaði fyrirtækið af sér stórframkvæmd; gerð 2,7…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Að undanförnu höfum við unnið að mörgum spennandi verkefnum og mannskapurinn er á fullu. Staðan fram undan er líka góð,“ segir Dofri Eysteinsson framkvæmdastjóri Suðurverks. Nýlega skilaði fyrirtækið af sér stórframkvæmd; gerð 2,7 kílómetra langra vegfyllinga yfir Þorskafjörð á sunnanverðum Vestfjörðum. Eykt ehf., sem starfaði með Suðurverki í þessari framkvæmd, sá um smíði 260 metra langrar tvíbreiðrar brúar beggja vegna fyllinga. Segja má að allt í þessu máli hafi gengið upp; verklok voru átta mánuðum á undan áætlun.

Mörg járn í eldinum

„Við höfum mikið unnið á Vestfjörðum, hvernig sem slíkt svo atvikaðist,“ segir Dofri Eysteinsson. Hann nefnir í því sambandi gerð Dýrafjarðarganga sem Suðurverk hafði með höndum í samstarfi við tékkneska fyrirtækið Metrostav. Þetta var 2017-2020. Suðurverk sá einnig um vegagerð í Djúpi og byggði nýjan veg um Kjálkafjörð og Vattarfjörð á sunnanverðum Vestfjörðum. Nú vinna Suðurverksmenn fyrir vestan að gerð snjóflóðavarnargarða á Patreksfirði og nýjum vegi á Dynjandisheiði.

Önnur járn sem Suðurverksmenn hafa í eldinum er lenging hafnargarðs í Þorlákshöfn um 250 metra. Einnig gerð Arnarnesvegar sem tengja á saman Salahverfi í Kópavogi og Breiðholt í Reykjavík. Útbúinn verður 1,9 kílómetra langur vegur, byggðar brýr og undirgöng auk þess sem talsverð lagnavinna fylgir. Þetta verkefni er samstarf Suðurverks hf. og Loftorku. Áður hafa þessi fyrirtæki tekið saman höndum í stórum verkefnum eins og alþekkt er í verktakastarfsemi.

Hjá Suðurverki ber hátt um þessar mundir að fram undan er hjá starfsmönnum fyrirtækisins jarðvinna við væntanlega fiskeldisstöð Samherja suður á Reykjanesi.

„Samherjaverkefnið, þar sem við byrjum öðrum hvorum megin við áramót, er afar stórt,“ segir Dofri. „Vegna þess þarf ýmsar vélar og tæki, allt sem við eigum tiltækt og væntanlega þarf að kaupa eitthvað til viðbótar eða leigja. Í heild gæti þetta orðið þriggja ára verkefni; eitt hið stærsta hér á landi sem sem unnið hefur verið fyrir einkaaðila. Jarðvinnufyrirtækin vinna jafnan mest fyrir Vegagerðina, sveitarfélög og slíka.“

Dofri er flestum reyndari í verktakastarfsemi. Hann eignaðist sína fyrstu traktorsgröfu árið 1966, þá 19 ára gamall. Fór þá á heimaslóðum sínum í Rangárvallasýslu að leggja vatnsleiðslu frá Syðstu-Mörk undir Eyjafjöllum niður á Landeyjasand en þaðan er lögn áfram út til Vestmannaeyja.

„Á þessum árum stofnaði ég Suðurverk með Sveini heitnum Þorlákssyni og samstarf okkar varð langt,“ segir Dofri. „Annars má segja að ég hafi byrjað rekstur í upphafi mikils framkvæmdaskeiðs á Íslandi. Fljótlega eftir vatnsveituævintýrið hófst bygging Búrfellsvirkjunar og síðar komu virkjanir í Sigöldu og Hrauneyjafossi, gerð aðrennslisskurða og fleira í Kvíslaveitum inn við Þórsivatn. Skurðgröftur í mýrum á Suðurlandi vegna túnræktar skapaði líka mikla vinnu. Þetta rúllaði, Suðurverk stækkaði og gekk vel.“

Vill sveitastráka í vinnu

Dofri minnist margvíslegra framkvæmda á Austurlandi, svo sem Norðfjarðarganga og jarðvinnu vegna álvers Alcoa á Reyðarfirði. Einnig sá Suðurverk um Desjarár- og Sauðadalsstíflu, en þær þurfti vegna vatsmiðlunar í Hálslón Kárahnjúkavirkjunar.

„Svona verkefni eiga alltaf stað í hjartanu. Ég var austur á Egilssstöðum í sumar og fór þá inn á öræfi til að skoða þessar stíflur, vel gerð mannvirki sem ég er stoltur af fyrir hönd minna manna. Sama get ég sagt um Landeyjahöfn; gerð hennar var án hliðstæðu. Sumt í stórframkvæmdum er þannig að maður lærir margt nýtt og tekur með sér. Annað er öðru líkt. Annars fylgja öllum verkefnum alltaf heilmiklar pælingar um hvernig best sé að nálgast hlutina og hvernig vélar þurfi og annað slíkt,“ segir Dofri og heldur áfram:

„Útboðslýsingin er leiðarvísir og ekkert gerist nema með góðum mannskap og þar hef ég verið heppinn. Guðmundur Ólafsson tæknimaður hefur verið hjá mér í um 40 ár og er mín hægri hönd. Verkstjórarnir eru frábærir og vita hvernig gera á hlutina. Hjá þeim er svo mannskapur sem venst fljótt hvað gera skuli. Ég hef reynt eins og tök leyfa að ráða inn sveitastráka. Slíkir eru gjarnan uppaldir á traktorum og kunna að umgangast vélar. Í dag fær maður síður slíka og þeirra í stað meðal annars hef ég fengið fínan mannskap frá Lettlandi og víðar að. Þegar við vorum í Norðfjarðargöngunum komu til okkar nokkrir Lettar sem svo hafa goggað í aðra landa sína sem hafa komið til okkar. Í dag er um helmingur um 80 starfsmanna okkar erlendur; fínn mannskapur sem skilar sínu.“

Vegirnir eru góðir í dreifbýlu landi

Ungur maður með litla traktorsgröfu. Nú, meira en hálfri öld síðar; stórt fyrirtæki með mikinn flota af hjólaskóflum, jarðýtum, gröfum, búkollum og fleiru góðu. Öflug tæki en mun sparneytnari en hin fyrri voru. Slíkt er krafa tímans og nú er hægt takast á við mun stærri verkefni en áður, svo stórvirkar eru vélarnar.

„Aðstæðurnar í mannvirkjagerð í dag eru um margt krefjandi, samanber að vextir eru háir og verðbólgan talsverð. Kostnaður vegna framkvæmda í Þorskafirði hækkaði meðan á þeim stóð um 23% vegna vísitölutryggingar og þetta voru samtals um 60 milljónir króna. Og bara þetta, að fjórða hver króna í framkvæmdir detti út vegna verðbólgu, er mikið. Samt sem áður get ég ekki annað sagt en að gangurinn í vegaframkvæmdum á Íslandi er ótrúlegur. Við erum fámenn þjóð í dreifbýlu landi en víðast hvar eru komnir nokkuð góðir vegir með slitlagi, breiðir og fínir. Mikið hefur áunnist og leiðin er greið.“

Hver er hann?

Dofri Eysteinsson fæddist árið 1947. „Barnaskólaprófið,“ segir hann um menntun sína. Hefur fengist við jarðvinnu og verktakastarfsemi í vel á sjötta áratug.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson