Vestur Í Menning við ysta haf er sem dæmi skrifað um Gísla sögu Súrssonar en þar er sögusviðið m.a. Dýrafjörður.
Vestur Í Menning við ysta haf er sem dæmi skrifað um Gísla sögu Súrssonar en þar er sögusviðið m.a. Dýrafjörður. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Safnrit fræðigreina Menning við ysta haf: Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og Stranda ★★★½· Ritstjórar: Birna Bjarnadóttir og Ingi Björn Guðnason. Hið íslenska bókmenntafélag, 2023. Innbundin, 304 bls.

Bækur

Sölvi

Sveinsson

Þessi útgáfa er lokahluti verkefnisins „Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða (2017-2021) og byggist að hluta á erindum sem flutt voru á Hrafnseyri og á málþingum“ segir í texta á bókarkápu. Að þessu komu Háskólasetur Vestfjarða, Manitoba-háskóli og prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands. 17 fræðimenn og rithöfundar frá Danmörku, Íslandi og Kanada rita í bókina greinar sem á einhvern hátt tengjast bókmenntum sem eiga rætur á Vestfjörðum og Ströndum, en auk þeirra skrifar Guðmundur Hálfdanarson formála, Ingi Björn ritstjóri inngang og Oddný Eir Ævarsdóttir minnist Eiríks Guðmundssonar, en bókin er tileinkuð minningu hans. Ritið er ætlað almenningi og eru greinar útlendinganna þýddar á íslensku.

Efni og efnistök eru mjög fjölbreytt, hér er fjallað um Gísla sögu Súrssonar, Höllu skáld á Laugabóli, módernisma Jakobínu Sigurðardóttur, hvernig heimur skáldsögu birtist í kvikmynd, bókaeign og bókagerð Magnúsar Jónssonar í Vigur, ljóð Theodóru Thoroddsen og Jóns sonar hennar, rit Jóns lærða, Indriða miðil á ferð fyrir vestan, Heimsljós, Vestfirði sem sögusvið og hetjur á villigötum svo nokkuð sé nú nefnt. Greinarnar eru mislæsilegar eins og eðlilegt er og fer annars vegar eftir framsetningu, hins vegar áhuga og viðhorfum hvers lesanda. Almennt eiga fræðimenn að geta miðlað rannsóknum sínum til almennings með læsilegum hætti; vísindamenn verða að vera í góðum tengslum við það samfélag sem þeir hrærast í, ekki skrifa einungis hver fyrir annan torræðar greinar.

Merkilegt er að lesa um þá feðga sr. Jón Arason prófast í Vatnsfirði og Magnús Jónsson son hans í Vigur. Ætterni þeirra þótti tigið og auður var í garði. Þeir létu rita mikið fyrir sig og sína, þýða erlend rit, ortu kvæði eins og fleiri ættmenn þeirra, sönkuðu að sér bókum, skrifuðu auk þess sjálfir. „Bókmenntaiðja þeirra tengist óneitanlega félagslegri stöðu þeirra sem lærðir, stórættaðir og auðugir framámenn í samfélagi 17. aldar en einnig þeirri ímynd sem þeir vildu skapa sér og sínum í virðingarstiga samfélagsins“ (182). Eftirtektarverð grein.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir fjallar um Höllu Eyjólfsdóttur skáld á Laugabóli á forsendum skáldkonunnar sjálfrar, en ekki sem höfundar „textanna við lögin hans Kaldalóns“ eins og stundum er sagt. Þetta er ljómandi góð grein og tímabær. Furðulegt er að sjá hrokann sem samtímamenn Höllu, karlarnir, sýndu henni og öðrum konum sem gáfu út ljóð fyrr á öldinni.

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir ritar fjörlega grein um styttri gerð Gísla sögu. Rýnir staðnæmdist við tilgátu hennar um að húskarlar tveir sem börðust með ljáum kunni að vera forverar mannsins með ljáinn. Vésteinn var á leið til haustboðs hjá Gísla mági sínum og systur. „Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar“ o.s.frv. Nærtækast er kannski að líta á þessi atvik sem dæmi um mannkosti Vésteins. Hann tefur för sína til að stöðva átök tveggja húskarla sem börðust með ljáum vegna ósættis á teignum. Hann stillir til friðar svo báðum líkar, drengskaparmaður og ekki öllum gefið! Dauði hans er fyrir vikið enn meira áfall. Heldur svo áleiðis til Gísla og Auðar og þar var hann drepinn, myrtur, og Gísli hefndi, drap meintan morðingja með sama vopni og er þá komið að síðustu grein bókar, rúsínunni í pylsuendanum, „Fagurfræði hins smáa“ eftir Ármann Jakobsson. Þar rekur hann atvik úr kvikmynd eftir Hitchcock þar sem mjólkurglas er notað til að vekja ótta og einsemd í krafti myndmálsins. Örstutt myndskeið sem gefur tóninn fyrir framvinduna. Með sama hætti má líta á þá gjörð Þorkels Súrssonar, ráðbana Vésteins, þegar hann ýtir snjóugum skóm Gísla úr augsýn annarra eftir að Gísli hefur vegið Þorgrím mág sinn til að hefna Vésteins. Þetta litla atvik, örsmá hreyfing, segir allt um persónu Þorkels í ljósi aðstæðna, gjörðir hans í sögunni. Hann er eigingjarn og stígur jafnan í þann fótinn sem kemur honum best; tvöfaldur í roðinu. Gerski hatturinn Þorkels síðar í sögunni sýnir svo glögglega hvers konar spjátrungur hann er. Bráðsnjöll og skemmtileg grein.

Í bókarlok er síðan skrá yfir höfunda og stiklað á stærstu steinum á ferli þeirra. Prófarkalestur er vandaður. Bókarkápa Ragnars Helga Ólafssonar hæfir bókinni vel; hann er fundvís á mótíf úr smiðju Fredericks W.W. Howells og fer vel á því.