Skotgrafir Úkraínskur hermaður sést hér í nágrenni Robotyne á suðurvígstöðvunum.
Skotgrafir Úkraínskur hermaður sést hér í nágrenni Robotyne á suðurvígstöðvunum. — AFP/Roman Pilipey
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valerí Salúsjní, yfirmaður allra herja Úkraínu, viðurkenndi í síðustu viku í samtali við breska tímaritið The Economist að gagnsókn Úkraínumanna hefði ekki náð þeim árangri sem vonast var eftir í byrjun, en Úkraínuher hefur einungis náð að sækja fram um 17 kílómetra á fimm mánuðum

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Valerí Salúsjní, yfirmaður allra herja Úkraínu, viðurkenndi í síðustu viku í samtali við breska tímaritið The Economist að gagnsókn Úkraínumanna hefði ekki náð þeim árangri sem vonast var eftir í byrjun, en Úkraínuher hefur einungis náð að sækja fram um 17 kílómetra á fimm mánuðum.

Sagði hann að stríðið minnti sig nú á heimsstyrjöldina fyrri, þar sem tækniþróun hefði gert þeim sem vildi sækja fram erfitt um vik, og að líklega þyrfti tæknilegar framfarir til þess að brjóta niður þá pattstöðu sem komin væri upp. „Það verður líklegast ekki neitt djúpt og fallegt gegnumbrot,“ sagði Salúsjní.

Tímaritið birti um leið á heimasíðu sinni níu blaðsíðna greiningu Salúsjnís á stöðunni, þar sem hann nefndi nokkur atriði sem Úkraínumenn þyrftu að gera til að forðast að stríðið breyttist í langvarandi stöðuhernað, en slíkur hernaður kæmi Rússum betur en Úkraínumönnum.

Salúsjní sagði fyrst að Úkraínuher þyrfti að ná yfirráðum í lofti, en Rússar hafa nú öflugri flugher. Hann sagði þó að loftvarnir Úkraínu hefðu reynst nógu góðar til þess að neita Rússum um yfirráðin í loftinu, sem aftur leiddi til þess að drónar sinntu nú helstu hlutverkum flughers við víglínuna sjálfa.

Salúsjní sagði einnig að Úkraínuher þyrfti að auka getu sína til þess að rjúfa jarðsprengjubelti Rússa, en breidd þeirra væri sumstaðar á bilinu 15-20 kílómetrar. Það ásamt því að könnunardrónar hefðu nú vökul augu á vígvellinum þýddi að sóknaraðgerðir Úkraínumanna væru oft stöðvaðar áður en þær kæmust úr sporunum, en Salúsjní sagði raunar að það sama gilti um sóknaraðgerðir Rússa, sem hafa misst mikið lið undanfarið við Avdívka og Vúhledar.

Í greiningu Salúsjnís kom einnig fram að stórskotalið Úkraínumanna yrði að verða skilvirkara í að taka út stórskotalið Rússa, en slíkar stórskotaliðsorrustur geta skipt sköpum fyrir framgang sóknaraðgerða. Þá þyrftu Úkraínumenn að búa til og þjálfa upp varalið og byggja upp getu sína í raftæknihernaði, en hann felst m.a. í því að beita raftækni til þess að trufla þau vopn andstæðingsins sem treysta á rafmagn, en drónar eru þar á meðal.

Betra að vera í varnarstöðu

Breska varnarmálaráðuneytið birti á föstudaginn stöðumat sitt, sem tók að miklu leyti undir það sem Salúsjní sagði í greiningu sinni, að þegar jafnræði ríkti væri landhernaður oftar hliðhollari þeim sem væri að verjast sóknum andstæðingsins.

Sagði í mati Breta að stór þáttur í þessu væri að báðir aðilar hefðu nógu góðar loftvarnir til þess að koma í fyrir að herþotur gætu veitt fótgönguliði aðstoð í sókn. Þá hefði það ekki síst hamlað öllum sóknaraðgerðum hversu víðfeðmt stríðið væri, þar sem erfitt væri fyrir bæði Rússa og Úkraínumenn að safna nægu liði til að hefja sókn með þar sem mestallur herafli beggja færi í að halda víglínunni sem er 1.200 kílómetra löng.

En hvað er þá fram undan, ef hvorki Rússar né Úkraínumenn geta unnið á? Það segir sína sögu að Salúsjní sagði í greiningu sinni Úkraínumenn hafa þann eina kost að ýta innrásarliðinu út með valdi. Volodimír Selenskí Úkraínuforseti tók í sama streng um helgina.

„Við höfum engan rétt á að gefast upp. Hver er valkosturinn? Þurfum við að láta þriðjung ríkis okkar af hendi? Það yrði einungis upphafið,“ sagði Selenskí og bætti við að fyrst og fremst þyrfti meiri loftvarnir, sem gætu gefið hermönnum Úkraínu tækifærið til að hefja sókn á ný.

Þá virðast Kremlverjar heldur ekki hafa mikinn áhuga á viðræðum, en Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði fyrir helgi óhugsandi annað en að öllum markmiðum „sérstöku hernaðaraðgerðarinnar“ yrði náð.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson