Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
Það barn sem fæddist sem stúlka eftir 1975 öðlaðist ný tækifæri til jafns við karlmenn fyrir ykkar baráttu, íslenskar konur.

Guðni Ágústsson

Í upphafi þessarar greinar vil ég sem faðir þriggja dætra óska íslenskum konum til hamingju með þann mikla árangur sem þær hafa náð í jafnréttis- og réttindabaráttu síðustu fimmtíu ára. Ef við horfum til baka til ársins 1975 þegar hinn litríki baráttufundur var haldinn í Reykjavík þá voru konum ekki ætluð forystustörf og jafnvel ekki hlutverk á vinnumarkaði, hvað þá laun á við karlmenn. Þá voru konur alls ekki í framboði til Alþingis eða í sveitarstjórnum, mesta lagi sem sýnishorn í framboði flokkanna og í ríkisstjórn. Þær gegndu ekki yfirhöfuð framkvæmdastjórastörfum í atvinnulífi, þær voru „hornkerlingar“ á þessum árum. „Engin hornkerling vil ég vera,“ sagði Hallgerður langbrók forðum – slagorð allra alda. Dætrum þessa lands var jafnvel ekki ætlað að taka bílpróf, hvað þá að stýra flugvél eða skipi og ef það spurðist út að flugstjóri væri kona fór óttablandinn hrollur um einhverja karlmenn.

Árangurinn af hinum mikla baráttufundi fyrir að verða fimmtíu árum er svo stórkostlegur að Ísland er forystuland heimsins í jafnréttisbaráttu kynjanna. Kjör Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta vakti heimsathygli og var beint framhald af baráttufundinum. Hún er fyrsta konan sem kjörin er forseti lands í lýðræðislegri kosningu. Enginn gleymir orðum Vigdísar í kosningabaráttunni gegn þremur karlmönnum. „Það á að kjósa mig af því að ég er maður.“ Kvennalistinn var kjaftshögg á stjórnmálaflokkana sem ekki ætluðu að verða við kalli tímans. Konur tóku að raðast á framboðslistana og nú til jafns við karlmenn. Þær eru helmingur þingmanna og í meirihluta í ríkisstjórn í dag. Alþingi varð önnur stofnun og batnaði með tilkomu kvenna í störfum þingsins, þetta upplifði sá er þetta ritar.

Nú eru konur forstjórar og framkvæmdastjórar, þær eru alþingismenn og ráðherrar, þær eru sendiherrar og fara fyrir verkalýðshreyfingunni til jafns við karlmenn. Þær eru bændur og skipstjórar, þær afla sér hinnar æðstu menntunar á öllum sviðum. Og kannski er það svo í hinni válegu veröld að allt of fáar konur fara fyrir forystunni hjá þjóðum heimsins. Konur eru líklegri en karlmenn til að stöðva hið miskunnarlausa dráp á fólki sem stríðsvélar „andskotans“ vinna víða um heim í dag.

Hvernig er högum heimilanna nú háttað? Ég þekki til á mörgum heimilum ungs fólks. Heimilishaldið er með allt öðrum hætti en áður var, ungu karlmennirnir eru jafnokar mæðra, ef má nefna það orð, í umönnun barna sinna og ganga til jafns í öll heimilisverk eins og eiginkonurnar. Börn dagsins eru alin upp við allt önnur sjónarmið en við í eldri kynslóðinni, jafnrétti til allra starfa. Ég vil ekki trúa því að atvinnulífið sé enn á þeim stað að mismuna kynjum í launum.

Ég vil að lokum óska íslenskum konum til hamingju með forystustarf í jafnréttisbaráttu hér heima og á veraldarvísu. Enn er sjálfsagt ærið verk að vinna, en á Íslandi erum við komin lengra en flestar þjóðir og getum miðlað af þekkingu okkar.

Það barn sem fæddist sem stúlka eftir 1975 öðlaðist ný tækifæri til jafns við karlmenn fyrir ykkar baráttu, íslenskar konur. Þar skín stjarna Vigdísar Finnbogadóttur skærast allra stjarna.

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.

Höf.: Guðni Ágústsson