Kristján Jóhannsson fæddist á Ísafirði 18. maí 1942. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 26. október 2023.

Foreldrar hans voru Jóhann Jóhannsson forstjóri á Ísafirði, f. 10. nóvember 1910, d. 9. júní 1973, og Jóhanna Kristjánsdóttir húsmóðir, f. 26. júní 1919, d. 23. október 2003. Systkini Kristjáns eru Anna Steingerður, f. 19.9. 1943, maki John Hedegaard, f. 8.12. 1937, búsett í Danmörku, Droplaug, f. 20.8. 1945, Elín, f. 14.12. 1950, maki Guðjón Guðmundsson, f. 6.1. 1952, búsett í Danmörku, og Sigurður Jóhann, f. 8.6. 1953, d. 14.8. 2010, maki Kristín G. Guðnadóttir, f. 26.2. 1956.

Kristján kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Elísabetu Stefánsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 20.11. 1943. Foreldrar hennar voru Guðrún Kristjánsdóttir húsmóðir, f. 12.1. 1916, d. 3.9. 2010, og Stefán Guðmundsson skipstjóri, f. 3.10. 1918, d. 19.8. 2007.

Börn Kristjáns og Elísabetar eru: 1) Guðrún, f. 1.8. 1963, stjórnmálafræðingur, dóttir hennar og Ævars Rafns Kjartanssonar er Elísabet Elma, í sambúð með Báru Bjarnadóttur. 2) Jóhanna, f. 28.10. 1967, kaupmaður, sonur hennar og Kristjáns Bjarnasonar er Kristján Högni, í sambúð með Rachel Elizabeth Briophy. 3) Valur, f. 28.3. 1973, umbrotsmaður. 4) Guðmundur Gauti, f. 8.3. 1981, viðskiptafræðingur.

Kristján lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Ísafjarðar. Á Ísafirði starfaði hann m.a. í rækjuverksmiðju föður síns og sigldi með togurunum Ísborginni og Sólborginni í tvö sumur.

Um tvítugt lá leið Kristjáns til Reykjavíkur þar sem hann hóf nám í prentiðn á samningi hjá Prentsmiðjunni Eddu. Kristján starfaði síðar í hringiðu blaðaprentunar á Íslandi í Blaðaprenti í fjölda ára. Kristján stofnaði Prentsmiðjuna Nes á Seltjarnarnesi og síðar eigin útgáfu þegar hann hóf að gefa út bæjarblaðið Nesfréttir árið 1988.

Útgáfa Nesfrétta leiddi síðar af sér útgáfu fleiri staðbundinna blaða á höfuðborgarsvæðinu, m.a. Vesturbæjarblaðsins sem Kristján stofnaði ásamt Ingólfi Margeirssyni ritstjóra. Undir merkjum Borgarblaða annaðist Kristján einnig útgáfu Breiðholtsblaðsins og Kópavogsblaðsins um tíma. Einnig tók Kristján þátt í útgáfu Seltirningabókar sem Heimir Þorleifsson sagnfræðingur ritaði.

Kristján var alla tíð virkur í sínu samfélagi á Seltjarnarnesi. Hann var einn af upphafsmönnum elsta hlaupaklúbbs landsins; Trimmklúbbs Seltjarnarness, var félagi í Kiwanisklúbbnum Nesi um árabil og formaður hans um tíma. Kristján sat einnig í stjórn knattspyrnudeildar Gróttu og var á tímabili í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju.

Útför hans fór fram í kyrrþey 9. nóvember 2023.

Í dag er mér efst í huga minningin um svila minn Kristján Jóhannsson, eða Kitta. Kitti var mikill íþróttamaður, hlaupari og hjólaði mikið, síðustu árin stundaði hann golf hér hjá Nesklúbbnum, var reyndar orðinn forfallinn og sást á vellinum á hinum ýmsu tímum, stundum oftar en einu sinni á dag.

Hér á árum áður fórum við fjölskyldurnar oft saman í útilegur, sumarhúsaferðir og utanlandsferðir, oft var glatt á hjalla.

Kitti var óskaplega vel lesinn maður á nánast allt sem við kom ævisögum og öðrum fróðleik sem hann glaður deildi með öðrum. Kitti stofnaði og gaf út Nesfréttir sem komu fyrst út í mars '88 og svo Vesturbæjarblaðið og Breiðholtsblaðið. Við vorum nágrannar til margra ára í Hrólfsskálavörinni þar sem hann undi sér vel, Ísfirðingur og húmoristi mikill. Hér verður að hafa það með að orðheppinn maður var hann með eindæmum. Kiddi var glaðlyndur og þakklátur maður og þegar ég fór að heimsækja hann á Landspítalann var erfitt að velja á milli sætinda til að færa honum en eitt skiptið var ákveðið svo að færa honum harðfisk, hann var svaka ánægður með þetta en spurði svo litlu síðar hvort ég hefði ekki örugglega komið með smjör.

Mér er fyrst og fremst umhugað um þessar gömlu minningar og vil þakka fyrir allar samverustundirnar. Takk fyrir öll árin saman, kæra Elísabet, börn og barnabörn, innilegar samúðarkveðjur til ykkar.

Með kveðju,

Anna og Reynir Hólm,
í Skála.

Kristján Jóhannsson, kær félagi úr hjólahópnum okkar á Seltjarnarnesi, er fallinn frá. Kristján prentari eins og hann var ávallt kallaður í okkar hópi. En þetta var ekki bara hjólahópur því þar áður höfðum við flestir skokkað með Kristjáni í Trimmklúbbi Seltjarnarness, TKS, allt frá síðustu öld. Árum saman hittumst við og fleiri einnig vikulega við léttar söngæfingar hér og þar, en oftast á Eiðistorgi eða í ísbúðinni Örnu, við listilegan gítarundirleik Dýra Guðmundssonar.

Kristján var málkunnugur fjölmörgu fólki á Seltjarnarnesi og víðar. Hann fylgdist þannig vel með hvað væri á döfinni í þjóðfélaginu og einnig bak við tjöldin í pólitíkinni. Hann var mikill fréttasnápur í eðli sínu. Það var því alltaf tilhlökkunarefni að hitta Kristján til að fá síðustu fréttir, ekki síst úr bakherbergjunum í pólitíkinni.

Kristjáni voru málefni og velferð Seltjarnarness ávallt ofarlega í huga. Það sést meðal annars af leiðurum og öðrum skrifum hans í Nesfréttum. Þetta voru oftar en ekki afbragðsskrif, rökföst og sannfærandi. Á Seltjarnarnesi var hlustað á heilræði Kristjáns.

Áður en Kristján veiktist var hann duglegur að mæta í vikulega hjólatúra hópsins. Við hjóluðum oftast í 2-3 tíma á sunnudagsmorgnum, mikill kjaftagangur á leiðinni, sem einstaka sinnum bergmálaði að hluta í Nesfréttum. Takmarkið í hjólatúrunum var oftast kaffibolli í einhverju af bakaríum bæjarins. Í góðu veðri var gjarnan hjólað alla leið að Elliðavatni og svo brunað niður Elliðaárdalinn og loks á miklum hraða niður brattann Rafstöðvarveginn. Kristján var langelstur í hópnum en hann sló þó hvergi af í keppni niður brekkuna.

Kristján hjólaði ávallt af krafti þrátt fyrir aldurinn og var oftar en ekki fremstur í flokki og góð fyrirmynd okkar sem yngri erum. Okkur hjólafélögunum var mikið brugðið einn daginn þegar á heimleið í hjólatúr, rétt við Höfða, Kristján stoppar allt í einu og stígur af hjólinu og sagðist ekki geta hjólað lengra, sagðist þrotinn kröftum. Þetta kom flatt upp á okkur, því hann hafði aldrei nefnt við okkur að hann ætti við veikindi í lungum að stríða. Hann hafði aldrei kveinkað sér né sýnt nein veikleikamerki fram að þessu. Hann kom með okkur af veikum mætti í nokkur skipti að hjóla eftir þetta en síðan ekki meir. Við ræddum um að hann kæmi fljótlega með okkur aftur þegar réttu meðulin væru fundin en sú von brást.

Kristján var góður og vinsæll félagi í hópnum okkar. Einstaklega ljúfur, skemmtilegur og fróður um menn og málefni. Hans er sárt saknað. Ég þakka fyrir ánægjulegar samverustundir með Kristjáni og sendi ættingjum innilegar samúðarkveðjur.

Jóhann Þór Magnússon.

Fallinn er frá góður vinur og félagi, Kristján Jóhannsson. Hans er strax saknað af okkur hlaupa-, hjóla- og golffélögum hans.

Kristján, stundum kallaður „Diddi Dadda Jó“ eða Kitti, var brottfluttur Ísfirðingur, eins og mamma mín, og þó að þau hafi bæði flutt ung frá Ísafirði, þá lifði Ísafjörður góðu lífi í huga þeirra og hjarta. Þessi taug leiddi okkur Kristján strax saman þegar ég flutti aftur út á Seltjarnarnes 1982 og þegar ég fór að hlaupa með trimmklúbbnum TKS um 1987. Við Kristján urðum strax góðir saman og tókum að okkur að sjá um Neshlaupið svokallaða, en það var almenningshlaup sem TKS sá um.

Ég hafði verið sendur í „sveit á Ísó“ til fullorðinsára og þekkti vel til persóna og atburða, þó að um tíu ára aldursmunur væri á okkur.

Kristján var kominn af miklum athafnamönnum, bæði faðir hans og afi voru miklir athafnamenn í þessum mikla menningar- og sjósóknarbæ sem Ísafjörður var þá. Afinn í útgerð og verslun og faðir hans var með fyrstu vélvæddu rækjuverksmiðjuna. Þar kynntist Kristján rúllunum eða völsunum á rækjuvélunum, sem eru ekki óáþekkir og valsarnir á prentvélunum sem hann vann síðar við sem prentari. Hann fór einnig ungur á síðutogara til Grænlands.

Hann ólst upp á Túngötu, hann og Silli vinur hans voru jafnaldrar Ólafs Ragnars Grímssonar og léku sér þar með honum, þó að Ólafur fengi ekki að fara í drullupollana með þeim.

Kristján var stórhuga þegar komið var til Reykjavíkur, eins og hann átti kyn til, og byggði sér stórt og mikið einbýlishús á sjávarlóð hér á Seltjarnarnesinu. Þegar prentarastarfinu lauk skapaði hann sér eigið fyrirtæki og hélt úti lengi vel og fór síðan út í útgáfu á hverfisblöðum, þekktust eru Nesfréttir og Vesturbæjarblaðið. Var hann farsæll í sínum rekstri. Það urðu ekki ófáir leiðarar í Nesfréttir til hjá okkur í klukkustundar hlaupaæfingum þrisvar í viku í 20 ár. Nesbúinn var alfarið Kristjáns, og var hann oft orðheppinn um málefni sveitarfélagsins.

Kristján var mikill pælari og fróðleiksfús. Talaði við marga og las mikið af ævisögum. Góður í ættfræði.

Oft hafði hann mikið fyrir að mynda sér skoðun, en í einu máli var hann alveg skýr, en það var um að ganga Í Evrópusambandið. Mikill Evrópusinni og þetta málefni var aldrei útkljáð á milli okkar. Eftir á skal ég reyndar viðurkenna að auðvitað er ég sem útflytjandi með tekjur í gengi, ekki háður krónunni. Kristjáni fannst það vera mikið réttlætismál fyrir almenning að vera ekki háðan krónunni og duttlungum hennar. Ég er ekki frá því að verkalýðsforustan muni taka þetta mál upp í næstu samningum.

Seigla var mikil í Kristjáni í veikindum sínum og alltaf var hann bjartsýnn á að koma til baka. En svo fór sem fór. Við félagarnir söknum hans mikið, sögurnar, pólitískar greiningar og yfirburðaþekking á mönnum og málefnum. Þetta er farið. Ég hef einnig misst mikinn vin og golffélaga.

Kristján var mikill fjölskyldumaður og samhryggist ég konu hans og börnum. Megi minning um góðan mann lifa.

Guðmundur Ingason.

Kristján Jóhannsson kom að vestan. Hann fór á annað landshorn en hin ísfirsku minni fylgdu honum ætíð. Hann þekkti Ísafjörð eins og fingur sína. Hann þreyttist aldrei á að ræða menn og málefni þaðan. Hann heimsótti fæðingarbæinn reglulega meðan heilsa leyfði. Kom ætíð endurnærður af vestfirskum eldmóði til baka.

Prentvélin og síðar útgáfumálin fylgdu Kristjáni. Ekki eins og skuggi. Heldur til þess að flytja upplýsingar og til að skapa. Honum féll vart verk úr hendi. Á lokaspretti lífsins var aldrei uppgjöf að finna þótt heilsan væri farin á veg. Af sjúkrabeði hélt hann áfram störfum sínum. Allt til loka. Hann hafði ekki tíma til að sinna kallinu þótt rómur þess yrði hærri og hærri.

Eftir að hafa starfað að prentun í áratugi snéri hann sér að útgáfumálum. Hann hafði komið sér upp lítilli prentsmiðju. Í húsinu sem hann byggði í heimahögum eiginkonunnar við Hrólfsskálavör á Seltjarnarnesi. Þar starfaði hann löngum við prentverk og útgáfumál að loknum öðrum vinnudegi.

Hann hóf útgáfu bæjarblaðs á Seltjarnarnesi. Nesfrétta, sem hann prentaði fyrst heima á neðri hæðinni en eftir að litur varð allsráðandi í útgáfu prentmiðla flutti hann prentvinnuna til.

Á eftir Nesfréttum komu fleiri bæjar- og hverfablöð. Vesturbæjarblaðið var stofnað með Ingólfi Margeirssyni, kunningja úr útgáfubaráttunni. Síðar blöð í samstarfi með Sæmundi Guðvinssyni, Geir Guðsteinssyni og þeim er þetta ritar auk fleiri sem komu við sögu. Valur sonur hans starfaði einnig með honum við útgáfuna.

Skömmu fyrir brotthvarfið minntist hann á að vinna þyrfti framhald af Seltirningabók og hver myndi geta komið að ritun hennar. Nefndi ég við hann Gunnar Bjarnason sagnfræðing. Áhuginn fyrir Seltjarnarnesi og sögu þess var hvergi horfinn.

Nú hefur Kristján litið hinsta sinn til austurs af svölunum heiman að á Hrólfsskálamel. Nú horfir hann árvökulum augum yfir Nesið úr annarri fjarlægð.

Þórður Ingimarsson.