Anna Friðrikka Jóhannesdóttir var fædd á Siglufirði 12. nóvember 1948. Hún lést á heimili sínu 7. október 2023.

Foreldrar hennar voru Jóhannes Kristinn Sigurðsson, f. 4. júlí 1910, d. 14. september 1998 og Laufey Sigurpálsdóttir, f. 23. desember 1913, d. 12. maí 1999. Anna var tíunda í röðinni af þrettán systkinum.

Anna átti fimm börn, þrjár dætur úr fyrra hjónabandi, Ragnheiði Höllu Ingadóttur, f. 7. janúar 1965, eiginmaður Ragnheiðar er Ólafur Kristján Skúlason og eiga þau þrjú börn og þrjú barnabörn, Laufeyju Ingadóttur, f. 2. september 1969, d. 4. júní 1999, Laufey átti tvö börn, Daðeyju Björk Ingadóttur, f. 6. desember 1973,
sambýlismaður Daðeyjar er Hilmir Bjarki Auðunsson og eiga þau þrjá syni. Úr seinna hjónabandi átti Anna synina Gunnar Reynar Gunnarsson, f. 12. janúar 1986 og Sigurð Björn Gunnarsson, f. 1. júlí 1988.

Anna bjó lengst af í Reykjavík, starfaði lengi hjá SÁÁ, á seinni árum settist hún aftur á skólabekk og tók BS í sálfræði í Háskóla Íslands. Árið 2005 flutti hún ásamt sonum sínum til Siglufjarðar. Á Siglufirði starfaði hún fyrst hjá félagsþjónustunni og síðar hjá HSN.

Útförin fer fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Sporin eftir fætur hennar mynda silfrað mynstur í morgundöggina sem liggur líkt og hjúpur á grasinu. Hún gengur að garðbekknum og sest við hliðina á ungu konunni sem situr þar og brosir á móti henni, réttir út höndina og tekur í hönd hennar þegar hún sest. Laufey hjúfrar sig að henni og hvíslar mjúklega ást sína til hennar mömmu sinnar.

Löng ganga er nú á enda og Anna Friðrikka er komin þangað sem leiðir okkar allra liggja fyrr eða síðar. Hún Rikka, mágkona mín og systir, var margbrotinn persónuleiki, gat virkað hrjúf á yfirborðinu en það var stutt í brosið og glettnin í augunum töfraði.

Hún elskaði orðaskipti um heimsmál, pólitík og flest annað, fór á kostum og tefldi stundum á tæpasta vað, lét sig hvergi en hló og hafði mikið gaman af.

Það sem var styrkur hennar og auður var vinnan og barátta fyrir fólk sem minna mátti sín. Framlag hennar hjá SÁÁ verður seint ofmetið.

Lífsbraut margra kvenna er og var upp í móti og hrjúf yfirferðar. Það mótar eðlilega skapgerð og lund, herðir og særir. Sumt sést og finnst en það mesta er fólgið í sálarfylgsnum og er sjaldan borið á torg. Svo var og með lífsbraut Önnu Friðrikku, í sálu sinni bar hún merki um fátækt æskuára, afleiðingar þess að verða ung móðir og harða lífbaráttu við knöpp kjör verkafólks. Og þó hún hefði ekki geta farið menntabrautina sem ung kona þá fór hún með fádæma dugnaði í háskólanám í sálfræði á fullorðinsárum.

En veikindi og fráfall Laufeyjar dóttur hennar, aðeins 29 ára, varð bjarg á brautinni og með því sem lífið síðan lagði á lífsgöngu hennar var oft erfitt að sjá morgungeislana í gráma dagsins.

En þrátt fyrir að lífsbrautin væri hrjúfari en við getum gert okkur í hugarlund hafði hún gnægð af ástúð og góðu hugarþeli til barna og barnabarna.

Það var eitt kvöld að mér heyrðist
hálfvegis barið

ég hlustaði um stund og tók af
kertinu skarið

ég kallaði fram og kvöldgolan
veitti mér svarið:

Hér kvaddi Lífið sér dyra og nú er
það farið.

(Jón Helgason)

Ljótur og Þórunn.