Stjórnendur Þorbjarnar í Grindavík hafa óskað eftir því við almannavarnir að fá aðgang að kæligeymslum fyrirtækisins í því skyni að nálgast afurðir sem fara eiga í sölu. „Í geymslunum er fiskur sem ætlunin er að koma til kaupenda okkar erlendis. Þetta er vara sem á að seljast fyrir jólin,“ sagði Gunnar Tómasson forstjóri Þorbjarnarins í samtali við Morgunblaðið í gærdag.
Þrjú af fjórum skipum Þorbjarnar eru nú á sjó og ekki komin á löndunardag. Gunnar segist gera ráð fyrir að ef Grindavík verður áfram lokuð þegar landa skal verði farið í Grundarfjörð eða Djúpavog, en það hefur stundum gerst ef skip Þorbjarnar eru að koma af miðum nærri nefndum stöðum. Þá hafi stundum verið landað í Hafnarfirði úr togurum fyrirtækisins, Tómasi Þorvaldssyni GK 10 og Hrafni Sveinbjarnarsyni GK 255.
„Við erum að fara yfir stöðuna, en þetta eru skrýtnir tímar,“ segir Gunnþór Ingvason stjórnarformaður Vísis hf. í Grindavík. Fyrirtækið gerir út fjóra báta, en hafa allir landað í öðrum höfnum en Grindavík að undanförnu.
Grindavík er í þriðja sæti yfir kvótahæstu útgerðarstaði landsins. Þorskígildistonn skráð á Grindavíkurflotann á yfirstandandi fiskveiðiári eru 35.603; litlu minna en það sem tilheyrir skipum sem gera út frá Reykjavík og Vestmannaeyjum. sbs@mbl.is