Sigurður Már Jónsson blaðamaður fjallar í pistli á mbl.is um blóðbaðið í Sýrlandi á undanförnum árum. Hann bendir á að tölurnar yfir fallna á Gasasvæðinu séu ískyggilegar, en um leið að þær séu komnar frá „aðilum nátengdum Hamas-samtökunum, sem sannarlega hófu þessi átök“. Tölurnar eru mjög óáreiðanlegar og líklega mjög ýktar þó að ekki sé ástæða til að efast um að mikill fjöldi hafi látið lífið, þar með talið óbreyttir borgarar sem hryðjuverkamennirnir í Hamas hafa dregið inn í átökin.
En Sigurður Már rifjar upp mannfallið í Sýrlandi þar sem forsetinn Bashar al-Assad hefur verið iðinn við að murka lífið úr löndum sínum. Þar segir hann að talið sé að heildarfjöldi fallinna sé um eða yfir hálf milljón manna. Helstu stuðningsmenn Assads í þessum aðgerðum eru rússnesk og írönsk stjórnvöld, sem og ýmsir hryðjuverkahópar sem gjarnan er haldið uppi af Íran, líkt og Hezbollah.
Sigurður Már bendir á að margar þær fylkingar sem nú hafi í heitingum við Ísraelsmenn séu blóðugar upp að öxlum eftir þátttökuna í stríðinu í Sýrlandi. Það segir töluvert um hvað bíður Ísraelsmanna ef þeir sigra ekki í átökunum sem nú standa yfir.
Þá má velta því fyrir sér hvar þeir sem nú mótmæla á Vesturlöndum hafi verið á meðan Assad brytjar niður landa sína. Ætli forsprakkarnir hafi ef til vill verið uppteknir á fundum með Hamas?