Dagmál
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Fyrir stuttu kom út bókin Bannað að drepa, þriðja bók Gunnars Helgasonar sem segir frá Alexander Daníel Hermanni Dawidssyni, strák í Breiðholti sem glímt hefur við ýmis vandamál í bókunum Bannað að eyðileggja og Bannað að ljúga. Í Bannað að drepa er glímt við erfiða hluti, eins og Gunnar vill gjarnan gera í barnabókum sínum, en nú er glíman erfiðari en nokkru sinni, þó að bókin sé bráðfyndin, eins og fyrri bækurnar um Alexander.
Aðspurður segir Gunnar að þó viðfangsefnið sé þungt þá sé það ekki of þungt að hans mati, en það hafi líka legið þannig á honum að hann hafi þurft að skrifa um það. „Þegar stríðið í Úkraínu byrjaði þá skrifaði ég eiginlega þessa sögu sem er þarna inni í bókinni um hann Vola og var að reyna að fá fólk víða um heim til að búa til teiknimyndasögu úr henni. Ég leitaði mikið að úkraínskum teiknurum til að búa til teiknimyndasögu um byrjun stríðsins og þegar það gekk ekki lagði ég söguna til hliðar. Hún sat þó alltaf í mér og síðan þegar kom að því að velja umfjöllunarefni fyrir síðustu bókina um hann Alexander þá kom eiginlega ekkert annað til greina en að hafa það sem er mest bannað og það er mest bannað að drepa.“
Það deyr einhver ef þú drepur
„Það deyr kannski enginn ef þú lýgur en það deyr einhver ef þú drepur. Þá kom þessi saga um strák aftur til mín og mér fannst það bara smellpassa vegna þess að hér er fullt af krökkum frá Úkraínu sem þurftu að flýja. Ég talaði við einn þeirra, hann Kyril, sem er ellefu ára, og mömmu hans en þau bjuggu í Irpín, sem er tvíburaborg Bútsja, þar sem stríðið byrjaði, og þau sögðu mér hvernig það var frá því byrjað var að sprengja bæinn þeirra og herinn kemur inn í bæinn og drepur allt sem þeir sjá. Þetta er ekki þeirra saga, en þau dýpkuðu það sem ég var búinn að skrifa og það breyttist ansi margt, en þeirra saga var eiginlega sorglegri en sú sem ég setti í bókina og hún var of sorgleg. Ég setti hana inn í fyrsta uppkast en ritstjórinn minn sagði mér að hún væri of sorgleg og ég var sammála því. Þetta er í og með saga þeirra, en líka saga allra barna sem lenda í stríði.“
– Það er mikilvægt hlutverk barnabóka að það séu til bækur sem börn sjá sig í, að barn getið tekið upp bók og séð að heimili þess sé ekki eina heimilið þar sem allt er í rúst út af drykkju, eða að það sé ekki eina barnið í heiminum sem lagt er í einelti og þar fram eftir götunum.
Krakkar sjái að þau eru ekki ein
„Ég fór að skrifa fótboltabækurnar til þess að krakkar sem búa við ofbeldi og drykkju foreldra sjái að þeir eru ekki einir og ég vildi líka skrifa um eitthvað sem stór hluti barna á Íslandi þekkir sig í. Það er ekki stór hluti sem þekkir sig í að vera barinn af pabba sínum, en það er stór hluti sem þekkir sig í að fara á fótboltamót eða hafa áhuga á fótbolta. Ég hafði náttúrlega farið á öll fótboltamót með sonum mínum, tvisvar með hverjum fyrir sig og mér fannst þetta svo heillandi heimur, var búinn að vera með það á planinu að skrifa um þetta en það small ekki saman fyrr en vinur minn sagði mér sína æskusögu, sem er mjög ljót. Miklu ljótari en það sem Ívar greyið lendir í Víti í Vestmannaeyjum og þeim bókum.
Mig langar að krakkar upplifi það sama og ég þegar ég las Jón Odd og Jón Bjarna. Það var ógleymanlegt. Það var merkilegasta bók sem ég hafði lesið. Ég hafði lesið allt sem til var og það komu ekki rosalega margar nýjar barnabækur út á ári 1973, þannig að ég var að lesa gamlar bækur, allt aftur til stríðsáranna, sem ég tengdi ekki mikið við. Svo kemur Jón Oddur og Jón Bjarni sem fjallar um tvíbura, sem búa í blokk, sem eiga unglingssystur og fjölskyldan á grænan jeppa og Jón Oddur þarf að fá lepp fyrir augað, eins og ég lenti í þegar ég var sjö ára, áður en ég las bókina. Heilinn í mér sprakk, þetta var algerlega ótrúlegt og ég hélt alltaf að mamma og Guðrún Helgadóttir væru vinkonur. Það var eina skýringin, en svo spurði ég hana fyrir fimm árum: Hvernig þekkir þú Guðrúnu Helgadóttur? og þá þekkti hún hana ekki neitt.“
Létt og skemmtileg bók um morð
– Þetta er hið mikilvæga hlutverk barnabóka, þær þurfa að vera skemmtilegar til að börn nenni að lesa þær, en það þarf að vera eitthvað spunnið í þær.
„Það er snúið að setja svona hluti í barnabók, þetta var ekkert auðvelt. Minn staður, þegar ég er að segja frá bókunum mínum, er að vera hress og skemmtilegur, að segja frá því hvað þetta sé fyndin bók, enda vilja krakkar fyndnar bækur. En ég veit ekki hvernig ég á að segja: Hérna er létt og skemmtileg bók um morð, sem er hræðilegt. Eða er þetta hræðileg bók með fyndnu ívafi?
Maður verður líka að vanda sig. Það er alltaf spurning þegar maður er að skrifa hversu mikið inni í samtímanum maður á að vera, til dæmis í orðavali, og í umfjöllunarefni. Ég er eiginlega með báða fætur í samtímanum í mínum sögum og reyni að vera ekki of nútímalegur í tali, því það eldist illa. Krakkar lifa svo ofboðslega mikið í núinu. Það er eiginlega bara dagurinn í dag og kannski á morgun þannig að maður verður að vera mikið í samtímanum.“