Gerpla Liðsmenn kvennaliðs Gerplu fagna eftir að fimmta sætið var í höfn á Norðurlandamótinu í hópfimleikum í Laugardalshöll á laugardag.
Gerpla Liðsmenn kvennaliðs Gerplu fagna eftir að fimmta sætið var í höfn á Norðurlandamótinu í hópfimleikum í Laugardalshöll á laugardag. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Norðurlandamótið í hópfimleikum fór fram í Laugardalshöll á laugardag þar sem Ísland tefldi fram þremur liðum, tveimur í kvennaflokki og einu í karlaflokki. Ekkert íslensku liðanna komst á verðlaunapall að þessu sinni en þau stóðu sig hins vegar vel …

NM 2023

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Norðurlandamótið í hópfimleikum fór fram í Laugardalshöll á laugardag þar sem Ísland tefldi fram þremur liðum, tveimur í kvennaflokki og einu í karlaflokki.

Ekkert íslensku liðanna komst á verðlaunapall að þessu sinni en þau stóðu sig hins vegar vel í erfiðri keppni, enda mörg bestu félagslið Evrópu að taka þátt.

Í kvennaflokki hafnaði Gerpla í fimmta sæti og Stjarnan í sjötta sæti.

Hársbreidd frá fjórða sæti

Gerpla fékk 18.050 stig í dansi, 16.650 stig á dýnu og 16.450 stig á trampólíni. Gerpla hlaut því alls 51.150 stig og var hársbreidd frá fjórða sætinu, aðeins 0.250 stigum.

Stjarnan fékk 18.550 stig í dansi, 16.650 stig á dýnu og 15.600 stig á trampólíni og hlaut þannig 50.800 stig í heildina.

Teamgym Aarhus frá Danmörku vann mótið með 54.350 stigum. Vann liðið dýnustökk með 17.500 stigum, fékk 19.200 stig í dansi og 16.950 stig á trampólíni. Motus-Salto var í öðru sæti og Brommagymnastera í þriðja sæti, bæði frá Svíþjóð.

Ótrúlega sátt

„Við gerðum nokkur mistök en liðsheildin er búin að vera geggjuð og æfingarnar hafa gengið ógeðslega vel,“ sagði Agnes Suto liðsmaður Gerplu í samtali við mbl.is á laugardag.

„Ég er ótrúlega sátt. Ég fæ aldrei nóg af stórmótum og ég verð að segja að þetta er skemmtilegasta liðið sem ég hef verið partur af,“ bætti hún við.

Góð stökk en vantaði erfiðleika

Eina karlaliðið frá Íslandi kom frá Stjörnunni, sem hafnaði í sjötta sæti.

Stjörnumenn lentu öllum stökkum sínum á trampólíni og fengu flest stig sín þar, 18.700. Á dýnu fengu þeir 18.300 stig og 17.450 stig á gólfi. Alls hlaut Stjarnan því 54.450 stig.

Íslensku strákarnir voru 7.650 stigum frá efsta sætinu og vantaði helst upp á erfiðleikann hjá þeim, en framkvæmdu þeir stökk sín hins vegar fantavel.

Danska liðið Gladsaxe IF vann með yfirburðum í karlaflokki og hlaut alls 62.100 stig, 3.525 stigum meira en liðið sem hafnaði í öðru sæti.

Í öðru sæti var norska liðið Oslo Turnforening með 58.575 stig og þar á eftir kom KFUMS frá Svíþjóð með 57.900 stig.

Vona að þetta hvetji stráka

„Ég vona að þetta hvetji stráka til að koma í fimleika. Fimleikar eru kúl og fimleikar eru ógeðslega skemmtilegir. Þetta er ekki bara splitt og liðleiki, þetta er geðveikt gaman,“ sagði Helgi Laxdal Aðalgeirsson liðsmaður Stjörnunnar í samtali við mbl.is á laugardag.

„Við erum sjúklega ánægðir, við hefðum ekki getað gert betur. Öllum hinum liðunum gekk mjög vel líka en okkur gekk betur. Af því að þau eru með erfiðari stökk þá unnu þau. Við gátum ekki gert betur, við erum sjúklega ánægðir, þetta var sjúklega gaman og við sýndum íslenskum fimleikum að við strákarnir í Stjörnunni erum drullugóðir í fimleikum,“ bætti hann við.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson