Baldur Guðmundsson fæddist 19. september 1930 í Garðhúsum á Eyrarbakka. Hann lést á hjartadeild Landspítala við Hringbraut 17. október 2023.

Foreldrar hans voru Guðmundur Jónatan Guðmundsson, f. 28.10. 1903, d. 4.3. 1972, og Guðlaug Brynjólfsdóttir, f. 24.6. 1901, d. 7.3. 1976.

Bróðir Baldurs var Sigurður Jónatan, f. 2.10. 1924, d. 17.5. 1981.

Eiginkona Baldurs frá 23. september 1950 er Hulda Jóhannsdóttir, f. 4.6. 1932. Börn þeirra eru: 1) Guðlaug, f. 28.2. 1951, maki Jón Ármannsson, f. 20.12. 1948. Börn þeirra eru Ragnhildur Anna, f. 15.5. 1970, Dagbjört, f. 27.10. 1982, og Ármann, f. 11.10. 1983. 2) Sigrún Bergmann, f. 17.10. 1953, maki Árni Yngvason, f. 27.4. 1946. Börn þeirra eru Hafsteinn, f. 1.3. 1984, og Thelma, f. 26.6. 1986. 3) Guðmundur, f. 18.3. 1958, unnusta Svanfríður Sigurðardóttir, f. 16.2. 1958. Börn hans eru Kristinn Gísli, f. 24.5. 1975, Hulda, f. 6.9. 1983, og Erna Jensína, f. 7.3. 1996. 4) Sigríður Guðrún, f. 6.3. 1966, maki Halldór Guðjónsson, f. 30.7. 1954. Börn þeirra eru Baldur Hrafn, f. 6.11. 1990, og Gísli Jóhann, f. 7.7. 1998.

Baldur lauk námi í bakaraiðn frá Iðnskólanum í Reykjavík. Starfaði hann þá hjá Alþýðubrauðgerðinni um skeið. Nokkru eftir að námi lauk tók hann við Bílasölu Guðmundar á Bergþórugötu 3 af föður sínum, vegna veikinda hans. Eftir lát föður síns tók hann alfarið við rekstri bílasölunnar. Bílasölu stundaði hann mestalla sína tíð.

Ung að árum hófu Baldur og Hulda búskap í Oddgeirsbæ á Framnesvegi 6, Reykjavík. Þau byggðu sér einbýlishús á Sogavegi 18, og voru meðal frumbyggja smáíbúðahverfisins. Bjuggu þar lengst af þar til þau fluttu að Núpalind 6 árið 2000. Árið 1969 festu þau kaup á sumarhúsalóð í landi Laugardalshóla í Laugardal. Þar komu þau sér upp myndarlegu sumarhúsi og unaðsreit. Voru þar öll sumur og nutu náttúrunnar. Enda einstaklega fallegt og vel haldið land.

Að ósk hans látna fór útför fram í kyrrþey frá Garðakirkju 3. nóvember 2023.

Þegar ég hugsa til afa þá leitar hugurinn upp í bústað þar sem hann naut sín alltaf best og eintómar góðar minningar á ég sem tengjast þeim yndislega stað. Baldur afi var mér alltaf góður og skemmtilega stríðinn. Afi kenndi mér að aka á höfuðborgarsvæðinu og hann hafði einstaka þolinmæði. Þegar ég gekk í skóla í Kópavogi fór ég reglulega í hádegismat til afa og ömmu sem var dásamlegt.

Á seinni árum voru það góðu stundirnar í eldhúsinu í Núpalind og spjall yfir góðum kaffibolla, þá kókoskaffi, og Hressingarskálatertunni, sem afa og ömmu þótti svo góð, sem koma fyrst upp í hugann. Mér er þakklæti efst í huga þegar ég minnist afa og hvað hann sýndi alltaf því sem ég var að gera mikinn áhuga. Ég er ekki síður þakklát fyrir að Katrín Eva dóttir mín fékk að kynnast langafa sínum. Afi var nefnilega mikil barnagæla og hann ljómaði þegar dóttir mín hóf leik við hann.

Vertu sæll elsku afi minn. Ég syrgi þig en góðu minningarnar og þakklætið eru sorginni yfirsterkari. Þú hefur markað líf mitt sem og fjölda annarra og sá sem auðgar líf annarra hefur vissulega lifað góðu og þýðingarmiklu lífi.

Takk fyrir samveruna, skilninginn, gleðina og umhyggjuna.

Þín

Hulda Guðmundsdóttir.

Ég loka augunum. Ég get heyrt í hrossagauk og býflugunum fljúga um. Það er afslappað andrúmsloft, ástandið sem fólk leitast mikið við í dag að komast í, núið. Ég sé þig á blettinum fyrir framan bústaðinn á Laugarvatni. Þú ert ber að ofan, að ýta á undan þér blárri handknúinni sláttuvél.

Ég loka aftur augunum, nú er komið kvöld. Þú ert að fara með faðirvorið með mér, sem mér var ómögulegt að muna nema „skuldum nautum“. Alveg fram undir þitt síðasta fórstu með bænir hvert kvöld og baðst fyrir öllum sem voru þér kærir. Ég man einnig eftir því að þú veltir fyrir þér spurningunni hvert við förum í draumástandi. Ég hef verið níu ára. Mér fannst þetta svo áhugaverðar pælingar, og finnst enn. Ég fann að þú trúðir að þetta væri ekki svona svarthvítt, lífið og dauðinn. Það væri eitthvað sem við sæjum ekki, rétt eins og með draumana. Hvert förum við í raun þegar okkur dreymir? Á hvaða stað? Aðra vídd? Ég er þakklát fyrir að þú hafir velt þessu fyrir þér með mér, því þetta auðgar ímyndunaraflið, og að vera spyrjandi er nauðsynlegt.

Ég loka enn á ný augunum. Ég er að horfa út um gluggann á Sæbólsbraut og sé BMW renna í hlaðið. Það eruð þið amma! Skálaskoðun á herberginu mínu er væntanleg, þú fórst alltaf beint í herbergið mitt að athuga hvort það væri hreint, sem það var í 99,9% tilvika alls ekki. Ég var búin að uppgötva bragð gegn þessari heimsóknarvenju þinni, að læsa herberginu! Ég sá það á þér að þér fannst það frekar fyndið. Þér þótti nefnilega óborganlega fyndið að stríða mér. Mér er einnig minnisstætt þegar ég fór einmitt í fýlu, þá sagðir þú gjarnan við mig og glottir: „Ertu farin til Fúleyja?“ Bróðir minn, sem er einnig með þetta stríðnisgen, tók þá brandarann upp á næsta „level“ og sagði: „Það er ekkert áætlunarflug til Fúleyja í dag.“ Mikið sem mér finnst Fúleyjar leiðinlegur staður og ég reyni eins og þú að forðast það að fara þangað.

Að lokum halla ég aftur augunum og er komin til ársins 2002. Ég sit við eldhúsborðið með þér. Þú ert klæddur í gráan slopp. Þú skerð niður rautt epli fyrir okkur í kvöldsnarl. Í fyrsta sinn finnst mér epli gott. Mér þykir vænt um þennan tíma, því ég kynntist ykkur ömmu á annan hátt. Ég t.d. sá að þú varst vanafastur, og einhverjar venjanna tók ég upp líka á meðan þið bjugguð hjá okkur. Venjur sem eru partur af sjálfsaga sem öllum unglingum er gott að temja sér. T.d. að skvetta köldu vatni yfir höfuðið á morgnana til að fara tilbúinn í daginn. Búa um og ganga vel um, borða hollt og vera stundvís. Ég fann á þessu tímabili hvað góðar „venjur“ veita huganum ró og vellíðan.

Ég missti föðurafa minn við fimm ára aldur og þú elsku afi sinntir hlutverki tveggja. Þú varst ávallt hress, léttur, ljúfur og kátur. Nú kveð ég þig, elsku afi minn, með hlýju í hjarta. Ég veit að þú fylgir okkur öllum sem þér voru kærir um ókomna tíð, og kannski heimsækir í draumum, þangað til við flögrum svo yfir, ekki til Fúleyja, heldur til Sumarlandsins þar sem þú ert nú sameinaður þínu besta fólki. Ég elska þig, afi minn.

Thelma Bergmann
Árnadóttir.

Afi Baldur var merkilegur maður. Hann var reffilegur með há kollvik og á meðan hárið var enn dökkt var það greitt aftur með svartri lítilli greiðu. Hann var alltaf kaffibrúnn og hefði auðveldlega getað komið frá suðlægari slóðum. Hann gerði morgunleikfimi, armbeygjur á ganginum á Sogaveginum og passaði vel upp á sig. Maður sem fór sínar eigin leiðir og æfði box á yngri árum. Hafði gaman af góðum bílum, fór vel með sína bíla enda bílasali. Bílasali sem hafði gaman af óperum, stórtenórum og karlakórum og hafði sjálfur fallega söngrödd. Þannig var afi, hann var maður ólíkra blæbrigða en jafnframt heilsteyptur.

Afi var traustur maður sem aldrei hallmælti neinum. Hann var trúaður, bar gylltan kross um hálsinn og á sunnudagsmorgnum var alltaf kveikt á messunni í útvarpinu. Hann passaði upp á að við færum með bænirnar á kvöldin og ég er þakklát fyrir þá barnatrú sem ég öðlaðist og ég hef oft leitað í.

Afi var stríðinn, sem gladdi oft okkur barnabörnin. Hann var okkur einstaklega góður. Þau amma voru ósérhlífin í okkar garð og gáfu sér ómældan tíma til að gæta okkar. Þau hlúðu að okkur. Öll eigum við einstakar minningar með þeim frá heimsóknum okkar á griðastað þeirra, sumarbústaðinn við Laugarvatn. Þar dvöldu þau flestum stundum á sumrin og undu sér vel. Minningar um afa beran að ofan á góðviðrisdegi, búinn að bera á sig Nivea-sólarolíuna og vera að klippa hekkið, bera á pallinn eða slá grasið með handknúnu sláttuvélinni eru margar. Þetta var heimur þeirra ömmu og líf sem þau ræktuðu af ást, alúð og kostgæfni.

Nú kveðjum við einstakan afa sem kvaddi með friðsælum hætti eftir 93 viðburðarík og góð ár. Saddur lífdaga, við í kringum hann erum þakklát fyrir að hafa fengið að eiga hann að og hafa í okkar lífi. Traustur og einstakur maður.

Hvíl í friði, elsku afi.

Ragnhildur.

Það er skrýtið að hugsa til þess að þú sért farinn elsku afi. Við systkinin höfum svo sannarlega verið lánsöm að hafa verið þér samferða svona lengi í gegnum lífið. Það eru forréttindi að hafa átt afa sér við hlið yfir á fimmtugsaldurinn. Það eru ekki allir svo heppnir.

Hann afi var ljúfur og góður maður, alltaf hress og jákvæður og hafði einstakan húmor sem gat breytt hvaða augnabliki sem er í skemmtilega minningu. Ég held að við barnabörnin eigum öll sögu af afa að gantast eða grínast í okkur með einhverjum hætti því þetta var hans leið til að tengjast okkur og eiga góðar stundir saman.

Afi var alla tíð hreystin uppmáluð, duglegur að lyfta lóðum fram á níræðisaldur enda þótti okkur alltaf merkilegt sem krakkar að afi hefði verið hnefaleikakappi á sínum yngri árum og orðið Íslandsmeistari. Við upprifjun á ævi afa kom reyndar í ljós að við systkinin höfðum nú eitthvað misskilið úrslitin en afi vann til bronsverðlauna í fjaðurvigt, en við förum nú varla að skemma góða sögu með sannleikanum! Hann átti líka svakalega flotta boxhanska sem við systkinin fengum stundum að prufa sem endaði þó á því að afi varð að taka af okkur þessa blessuðu hanska en við förum ekki nánar út í þá sálma. Afi var jafnframt mikið snyrtimenni sem hafði dálæti á fallegum bílum. Okkur þótti hann alltaf eiga fallegustu bláu BMW-bílana á götunni og þegar kom að því að selja gripina þá voru þeir eins og nýir því afi sá svo vel um bílana sína.

Við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að amma og afi fluttu inn á Aflagrandann til okkar í nokkra mánuði þegar við vorum fimmtán og sextán ára. Mamma og pabbi þurftu að dvelja í Frakklandi um haustið og það var ekki að því að spyrja, að sjálfsögðu voru amma og afi mætt að sjá um okkur með bros á vör. Afi var duglegur að kenna okkur lífslexíur á meðan við vorum saman á þessum tíma, til dæmis að muna að slökkva ljósin áður en farið var að heiman og að skera ekki ostinn þannig að úr yrði voðaleg skíðabrekka. Við minnumst þessa tíma af miklum hlýhug enda svo margar gæðastundir sem okkur þykir vænt um.

Í seinni tíð eigum við margar góðar minningar um afa við eldhúsborðið í Núpalindinni, þar sem við drukkum saman kaffi og spjölluðum við hann um heimsmálin og pólitík. Afi hafði gaman af því að ræða við okkur um málefni líðandi stundar en var að sama skapi alltaf áhugasamur um það sem við vorum að sýsla í okkar lífi og starfi.

Þótt við syrgjum afa og söknum hans sárt þá finnum við fyrst og fremst fyrir þakklæti fyrir að hafa átt svona góðan afa sem var hluti af lífi okkar svo lengi.

Hvíl í friði, elsku afi.

Dagbjört og Ármann.

Hann afi minn og nafni, Baldur Guðmundsson, var gull af manni. Umhyggjusamur, hlýr, stríðinn og skemmtilegur. Ég minnist þeirra forréttinda að hafa fengið að vera uppi í bústað hjá ömmu og afa heilu sumrin þegar ég var yngri. En þá voru þau nýkomin á eftirlaun. Afi kenndi mér margt. Hann kenndi mér að tefla og hann fór með faðirvorið með mér, hverja einustu nótt í bústaðnum. Afi var sérlega duglegur að viðhalda sumarbústaðarlóðinni. Hvort sem það var að snyrta trén, slá grasið eða að útbúa nýja göngustíga í grónu landi bústaðarins. Hann leyfði mér að nefna marga af göngustígunum. Nöfn eins og ljósabraut, hringbraut og langabraut litu dagsins ljós. Nöfnin pössuðu ekki endilega við umhverfið, en afi andmælti ekki og merkti stígana eftir ímyndunarafli mínu. Eins og hann sagði, þá vorum við að gera stígana saman. Hann kynnti mér gróðurinn og hann kenndi mér nöfnin á öllum trjánum. Hvaða tegund af ösp, lerki, birki eða greni væri á viðkomandi stað. Ég fylgdist oft með afa gera daglegu venjurnar sínar. Hvort sem það var ég, að sitja á eldhúsbekknum og horfa á hann raka sig með raksápu í eldhúskróknum eða þegar hann gerði morgunæfingar undir leiðsögn Rásar 1. Anda inn, anda út og teygja. Á kvöldin var venjan að horfa á kvöldfréttir og tíufréttir. Alltaf þegar fréttaþulirnir kvöddu, þá kvaddi afi á móti, í átt að litla Toshiba-túbusjónvarpinu. Eftir það var sest í betri stofuna og fengið sér einn bjór í iittala-glasi fyrir svefninn.

Alla tíð hefur afi verið stríðinn. Það var til dæmis ekki sérlega vinsælt þegar hann söng óperu fyrir framan mig sem krakki, í óþökk minni og hann vissi það. Sungið var „o sole mio“ og önnur Pavarotti-lög. Pavarotti var í miklu uppáhaldi hjá afa. Stríðnin fór ekki á efri árum. Mér er minnisstætt þegar afi var að stríða ömmu. Eitt sinn eftir heimsókn á Álftanes, þegar þau voru bæði að nálgast nírætt, þá er mamma að leiða ömmu út í bíl, þar sem afi bíður á bak við stýrið. Allt í einu flautar afi bílflautunni, glottandi, til þess eins að bregða henni. Eða heima hjá þeim, þegar afi horfði í átt að ömmu og þóttist tala, en hann hreyfði aðeins varirnar. „Hvað ertu að segja?“ spyr amma, við það hlær afi. 80 árum áður gerði hann slíkt hið sama við afa sinn, hann Brynjólf, en hann heyrði afskaplega illa. Honum var ekki skemmt við uppátækið.

Það var alltaf gott að kíkja til þeirra á seinni árum í Núpalind, þar tók hann alltaf á móti manni í dyragættinni. Síðan þegar haldið var heim eftir heimsókn, þá beið afi alltaf í glugganum og horfði niður frá 6. hæð. Hann veifaði og horfði á eftir manni fara. Allt fram til síðustu heimsóknar. Hann klikkaði ekki á því. Umhyggjusamur var hann og talaði alltaf vel um náungann. Það er svo sannarlega hægt að taka hann til fyrirmyndar.

Ég er heppinn og þakklátur fyrir að hafa átt hann að. Hann gaf svo sannarlega lífinu lit. Takk fyrir allt, elsku afi.

Hvíl í friði.

Baldur Hrafn Halldórsson.