Sjö manns sæta kæru og alls 145 voru handteknir í Lundúnaborg í kjölfar óeirða sem þar urðu um helgina í tengslum við friðardaginn 11. nóvember, sem og minningarsunnudaginn (e. Remembrance Sunday) sem haldinn er hátíðlegur næsta sunnudag við 11. nóvember ár hvert til minningar um lok fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1918.
Stuðningsmenn Palestínumanna héldu mótmælagöngu á laugardaginn og gengu um 300.000 manns fylktu liði gegnum miðborgina og kröfðust tafarlauss vopnahlés. Öfgamenn yst til hægri létu þá ekki sitt eftir liggja og blésu til eigin mótmæla gegn kröfugöngu Palestínustuðningsfólks.
Þóttist lögregla þegar sjá í hvað stefndi þegar liðssafnaður hægriöfgamanna var mættur í miðbæinn með barefli og fleiri vopn undir höndum. „Þeir mættu snemma og kváðust ætla sér að verja minnismerki en einhverjir þeirra voru þegar drukknir, lítt við alþýðuskap og augsýnilega að leita sér að átökum,“ sagði Matt Twist aðstoðarlögreglustjóri Lundúnalögreglunnar við breska ríkisútvarpið BBC í gær.
Lögreglan hafði einnig afskipti af nokkrum sem gengu til stuðnings Palestínu vegna meintrar hatursorðræðu sem sást á skiltum. Rishi Sunak forsætisráðherra Breta fordæmdi „fyrirlitlegar aðgerðir“ minnihluta fólks, sem hefðu sett svartan blett á minningarhelgina. Ætti það bæði við um „þrjóta“ yst til hægri, sem og þá sem hrópuðu slagorð gegn Gyðingum eða héldu á skiltum til stuðnings hryðjuverkasamtökunum Hamas.
Suella Braverman innanríkisráðherra lét þau orð falla í gær að ótækt væri að lögregluþjónar hefðu orðið fyrir meiðslum og færði lögreglunni þakkir fyrir fagmannlega framkomu í rimmu þeirra við mótmælendurna.