Fjölskyldan Frá vinstri: Guðjón, Helena, Arnór, Kristján og Lilja í Bangkok í Taílandi.
Fjölskyldan Frá vinstri: Guðjón, Helena, Arnór, Kristján og Lilja í Bangkok í Taílandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðjón Karl Reynisson fæddist 13. nóvember 1963 í Reykjavík og bjó lengst af í Álftamýri, til 1970, þegar fjölskyldan flutti á Borgarholtsbraut í vesturbæ Kópavogs þar sem Guðjón ólst upp. Hann var í sveit í Miklaholtsseli í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi hjá frænku sinni

Guðjón Karl Reynisson fæddist 13. nóvember 1963 í Reykjavík og bjó lengst af í Álftamýri, til 1970, þegar fjölskyldan flutti á Borgarholtsbraut í vesturbæ Kópavogs þar sem Guðjón ólst upp.

Hann var í sveit í Miklaholtsseli í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi hjá frænku sinni. „Við systir mín fórum saman og höfðum mjög gaman af. Við fórum nokkur ár en bara nokkrar vikur í senn.“

Guðjón æfði fótbolta með Breiðabliki allt til 1984. „Ég er mjög stoltur af því þegar við urðum Íslandsmeistarar 1982 en þá var ég fyrirliði. Þegar ég kom upp í meistaraflokk fór ég beint til Ísafjarðar og spilaði þrjú sumur með ÍBÍ og síðan með Fylki til 1991. Mörgum af mínum bestu vinum í dag kynntist ég á árunum í Fylki. Það er hópur sem heldur sig mjög mikið saman og kallar sig Stöngin inn.“

Guðjón gekk í Kársnesskóla, Þinghólsskóla, varð stúdent frá Menntaskóla Kópavogs 1983 og tók íþróttakennarapróf frá ÍKÍ 1986. Hann lauk síðan rekstrar- og viðskiptanámi frá Endurmenntunarstofnun HÍ 1999 og MBA-gráðu frá HÍ 2002. „Þetta var fyrsti MBA-hópurinn sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands. Ég sótti viðskiptamenntunina meðfram fullri vinnu í þrjú og hálft ár vel studdur af Lilju Birnu eiginkonu minni.“

Guðjón var íþróttakennari við Álftamýrarskóla og kenndi um tíma strákunum í Kvennaskólanum. En svo söðlaði hann um og fór út í sölustörf 1989, var sölustjóri hjá bókaútgáfunni Iðunni, meðfram því sem hann var að þjálfa í knattspyrnu m.a. meistaraflokk kvenna í Breiðabliki og yngri flokka Fylkis. Hann sótti síðan um sölustjórastöðu hjá farsímafyrirtækinu Tal þegar það var að hefja göngu sína 1998 og varð síðan framkvæmdastjóri sölusviðs.

„Ég var einn af fyrstu starfsmönnum Tals og þetta var ótrúlega skemmtilegur tími. Þar mótaði ég sölustefnu félagsins á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði. Setti upp verslanir á höfuðborgarsvæðinu og tók þátt í að byggja upp net umboðsaðila á landsbyggðinni ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn félagsins. Þetta voru miklir umbrotatímar í þessum geira og við náðum töluverðri markaðshlutdeild.“

Árin 2003-2007 gegndi Guðjón síðan stöðu framkvæmdastjóra 10-11-verslananna. „Þegar ég var að setja upp verslanir Tals í Hagkaupsbúðunum kynntist ég Haga-mönnunum og þeir buðu mér þessa stöðu. Starfið fólst í að breyta vörumerkinu úr hverfismatvöruverslun í nútímalega þægindavöruverslun. Meðal annars breyttust 10-11 í 24 stunda verslanir þegar ég rak þær. Það er nú svo sem umdeilt hvort það sé sniðugt að hafa svona langan opnunartíma en þessu var afar vel tekið á þessum tíma og varð mikill viðsnúningur í rekstri 10-11.“

Guðjón varð síðan forstjóri bresku leikfangaverslunarinnar Hamleys árið 2008. „Þegar 10-11 var orðið arðbært félag þá fannst mér eins og það verkefni væri búið. Þá bauðst mér mjög óvænt þessi staða. Baugur hafði átt Hamleys frá 2004 og hugðist stækka það og fara með verslanir um allan heim, en það gekk frekar rólega. Hugmyndin var að fá nýjan stjórnanda sem kæmi með nýja sýn á félagið og það væri jafnvel gott að hann væri ekki Breti. Við hjónin ákváðum því að flytja með fjölskylduna til London. Planið var að vera úti í þrjú ár en við vorum að flytja heim á þessu ári þannig að árin urðu fimmtán.

Þetta var gríðarlegt ævintýri allt saman, erfitt, skemmtilegt og ögrandi allt í bland fyrir alla fjölskylduna. Við fluttum út bókstaflega fimmtán mínútum fyrir hrunið á Íslandi og það var mikil upplifun að fylgjast með allri umfjölluninni í helstu miðlum Breta um Ísland. En aldrei fundum við fyrir neinni andúð í garð okkar Íslendinga.“

Guðjón leiddi sölu á Hamleys árið 2011-12 og aftur 2015-16. „Það var kínverskt stórfyrirtæki sem keypti félagið. Ég fylgdi því áfram í eitt og hálft ár en síðan kvaddi ég eftir tæp tíu ár sem forstjóri.“

Starfsferillinn hefur verið óvenjulegur hjá Guðjóni, frá því að kenna íþróttir í Álftamýrarskóla og yfir í að stýra stórfyrirtæki í Lundúnum. „Þetta hefur kennt mér að maður veit aldrei hvað er handan við næsta horn og maður á að taka jákvætt við tækifærunum sem koma.“

Guðjón er í dag sjálfstætt starfandi fjárfestir og stjórnarmaður. Hann hefur setið í stjórn Festi hf. frá 2014 og er núna stjórnarformaður. Hann situr í stjórn Kviku og Securitas og fleiri fyrirtækja og er einn af stofnendum vefsendingafyrirtækisins Dropps og situr þar í stjórn.

Áhugamál Guðjón eru fjölmörg. „Ég er með fjölskyldunni eins mikið og ég get, en við erum mjög samheldin. Við ferðumst töluvert við hjónin og öll fjölskyldan, bæði mikið um Ísland og töluvert erlendis. Golfið er svo að verða aðaláhugamálið og við hjónin erum samferða í því. Við förum líka á skíði og mér finnst mjög gaman að veiða, bæði á byssu og stöng.

Það er gott að vera kominn heim, við hjónin erum minna á ferðinni núna og komin meiri rútína hjá okkur. Hún er komin á kaf í ljósmyndaranám sem er gamall draumur hjá henni og ég sinni mínum verkefnum.“

Fjölskylda

Eiginkona Guðjóns er Lilja Birna Arnórsdóttir, f. 24.3. 1967, fv. flugfreyja og núverandi nemi. Þau eru búsett í Hlíðarendahverfinu í Reykjavík. Faðir Lilju var Arnór Þórhallsson, f. 13.12. 1945, d. 26.8. 2012, verkfræðingur, og móðir hennar er Ingibjörg Hrund Björnsdóttir, f. 14.12. 1947, fv. verslunarkona. Síðast bjuggu þau hjón í Hlíðahverfinu í Reykjavík þar sem Ingibjörg er enn búsett.

Börn Guðjóns og Lilju eru 1) Helena, f. 2.6. 1992, sérfræðingur hjá Kviku, býr í Reykjavík. Sambýlismaður hennar er Saim Ahmed ráðgjafi; 2) Arnór Örn, f. 4.9. 1994, grafískur hönnuður, býr í London. Sambýliskona hans er Elizabeth Rhodes þjónustufulltrúi. Sonur þeirra er Ragnar Benjamin Olomi Rhodes Arnórsson, f. 25.2. 2021; 3) Kristján Karl, f. 14.4. 2002, nemi í Edinborg.

Systir Guðjóns er Ásta María Reynisdóttir, f. 23.2. 1962, starfar sem sérfræðingur í mennta- og barnamálaráðuneytinu og býr í Mosfellsbæ.

Faðir Guðjóns var Reynir Gísli Karlsson, f. 27.2. 1934, d. 12.11. 2014, kennari, framkvæmdastjóri og síðast íþróttafulltrúi ríkisins, og móðir Guðjóns er Svanfríður María Guðjónsdóttir, 30.12. 1940, síðast kennari við Álftamýrarskóla. Þau hjón bjuggu lengi í vesturbæ Kópavogs og síðar í Reykjavík þar sem Svanfríður er enn búsett, í Grafarvogi.