Í loftinu Airbus-þyrlurnar sem Gæslan hefur leigt hafa reynst vel.
Í loftinu Airbus-þyrlurnar sem Gæslan hefur leigt hafa reynst vel. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Á dögunum auglýstu Ríkiskaup forval vegna leigu á þremur björgunarþyrlum fyrir Landhelgisgæsluna. Núverandi leigusamningar vegna TF-GNA, TF-GRO og TF-EIR renna út árin 2025 og 2026. Tilboð bárust frá eftirtöldum aðilum: CHC Leasing S.A.R.L, Knut…

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Á dögunum auglýstu Ríkiskaup forval vegna leigu á þremur björgunarþyrlum fyrir Landhelgisgæsluna. Núverandi leigusamningar vegna TF-GNA, TF-GRO og TF-EIR renna út árin 2025 og 2026.

Tilboð bárust frá eftirtöldum aðilum: CHC Leasing S.A.R.L, Knut Axel Ugland Holding AS, Leonardo Helicopters og The Milestone Aviation Group Limited.

Fram undan eru samkeppnisviðræður. Landhelgisgæslan gerir ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir í síðasta lagi um mitt næsta ár, upplýsir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi.

Björgunarþyrlurnar þrjár, sem nú eru í þjónustu Landhelgisgæslunnar, eru af tegundinni Airbus Helicopters H225.

Hámarkshraði þeirra er 175 sjóm/klst. (324 km/klst.) og hámarksflugdrægi: 613 sjómílur (1.135 km). Hámarksflugþol í leit á hagkvæmasta hraða er 5 klukkustundir en annars tæpar 4 klukkustundir. Þyrlurnar eru mjög vel útbúnar. Þær eru m.a. með fullkomnustu sjálfstýringu sem völ er á.

Núverandi leigusali er einn bjóðenda, norska fyrirtækið Knut Axel Ugland Holding AS.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson