Hetjudáð Ægilegt eldhaf í olíuskipi sem varð fyrir árás á heimsstyrjaldarárunum. Þegar togararnir Arinbjörn hersir og Snorri goði komu að stórskipinu Asca í Írlandshafi stóð það í björtu báli og grípa varð til skjótra aðgerða.
Hetjudáð Ægilegt eldhaf í olíuskipi sem varð fyrir árás á heimsstyrjaldarárunum. Þegar togararnir Arinbjörn hersir og Snorri goði komu að stórskipinu Asca í Írlandshafi stóð það í björtu báli og grípa varð til skjótra aðgerða.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í september árið 1940 voru togararnir Snorri goði og Arinbjörn hersir á leið heim til Íslands eftir að hafa selt fisk í Englandi. Þegar skipin voru um miðja nótt stödd um 15 sjómílur norðvestur af Hull of Cantyre brast á með eldblossum og hávaða frá sprengingum

Í september árið 1940 voru togararnir Snorri goði og Arinbjörn hersir á leið heim til Íslands eftir að hafa selt fisk í Englandi. Þegar skipin voru um miðja nótt stödd um 15 sjómílur norðvestur af Hull of Cantyre brast á með eldblossum og hávaða frá sprengingum. Þýsk árásarflugvél hafði gert sprengiárás á stórt skip sem var þarna á ferð, stórskipið Asca sem var mjög laskað eftir árásina og eldar loguðu víða í skipinu. Talið var að um 1.000 menn hafi verið um borð í skipinu. Snorra goða var samstundis stýrt að hinu logandi skipi í von um að geta bjargað skipverjum sem sumir hverjir voru komnir í sjóinn.

Vel búinn björgunarbátur fór margar ferðir

Snorri goði var vel búinn björgunartækjum og var stjórnborðsbjörgunarbáturinn meira að segja vélknúinn. Var hann sjósettur þar sem björgunarstarfið var augsýnilega hættulegt. Magnús skipstjóri gat ekki yfirgefið skip sitt sökum þess að mikill straumur var á staðnum en halda þurfti togaranum eins nærri hinu brennandi skipi og unnt var. Óskaði hann eftir sjálfboðaliðum til að manna bátinn. Hljóp Eyjólfur Einarsson 1. vélstjóri þegar til og gangsetti vélina en auk hans fóru í bátinn Jón Tómasson 1. stýrimaður og hásetarnir Einar Dagbjartsson og Þórarinn Kristjánsson.

Í fyrstu ferðinni var bátnum stýrt að björgunarfleka sem maraði í hálfu kafi skammt frá stórskipinu. Var hann yfirhlaðinn mönnum sem létu mikið til sín heyra og voru augljóslega dauðskelfdir. Gekk vel að ná þeim um borð í bátinn. Menn þessir höfðu verið sofandi þegar árásin var gerð og þotið upp í miklum flýti og stokkið fyrir borð. Voru þeir klæðlausir en sumir höfðu náð að vefja um sig tuskum til að skýla nekt sinni. Aðeins einn þeirra hafði skó á fótum – mislita og voru báðir ætlaðir á sama fót.

Þegar mönnunum hafði verið náð upp í bátinn hélt hann að Snorra goða þar sem áhöfnin hafði raðað sér við lunninguna og kippti skipbrotsmönnunum um borð. Síðan hélt báturinn aftur af stað og fór alla leið að skipinu.

Ofurmáttur eyðileggingarinnar

Þegar bátsverjar nálguðust Asca fannst þeim í senn raunalegt og hrikalegt að sjá ofurmátt eyðileggingarinnar sem blasti við. Loftið var þrungið sterkum gný og öðru hverju þutu eldibrandar upp í loftið og smásprengingar heyrðust. Þeir gerðu sér fulla grein fyrir því að stórhættulegt var að leggja að Asca. Vel gat verið að sprengjufarmur væri í skipinu og það gæti sprungið í loft upp hvenær sem var og eins var hætta á að ofsahræddir skipbrotsmenn yfirfylltu bátinn og sökktu honum. Eigi að síður hikuðu þeir ekki. Björgun mannslífa var það eina sem komst að í huga þeirra og þeir lögðu að skipinu þar sem menn héngu á köðlum og stigum utan á síðunni. Mátti segja að maður væri við mann frá efsta bátadekki og niður í sjó. Þegar bátinn bar að reyndi hver sem betur gat að bjarga sér og ríkti hálfgerð ringulreið. Fylltist báturinn þegar af mönnum en áður en illa fór tókst að ýta honum frá og hélt hann rakleiðis að Snorra goða þar sem þeir voru teknir um borð í flýti og báturinn fór síðan aftur til skipsins. Þá hafði einn af yfirmönnum skipsins, ungur að árum, tekið stjórnina í sínar hendur. Stillti hann sér upp við kaðalstiga sem kastað var niður og hafði skammbyssu í hendi. Gætti hann þess að ekki færu svo margir í bátinn að hætta stafaði af. Þannig fór björgunarbátur togarans ferð eftir ferð milli Asca og Snorra goða. Skiptust togaramenn á að vera í bátnum þar sem erfitt verk var að taka á móti skipbrotsmönnunum eða draga þá upp úr sjónum.

Tundurspillirinn gat engum bjargað

Eftir að björgunaraðgerðirnar höfðu staðið góða stund sást til ferða tundurspillis. Sigldi hann nærri Asca og lýsti skipið upp með ljóskösturum. Reiknuðu togaramenn með því að nú væri þeirra þætti í björguninni lokið og að tundurspillirinn tæki við. Renndi hann upp að Asca að framanverðu í því skyni að menn gætu stokkið af flakinu til þeirra en slíkt reyndist útilokað vegna þess hve hæðarmunur skipanna var mikill og stefni tundurspillisins örmjótt. Við þessar tilraunir féllu nokkrir menn í sjóinn og hvarf tundurspillirinn frá án þess að ná neinum skipbrotsmannanna. Kallaði skipherra hans til Snorra goða í gegnum hátalara, sagði að vélbátur hans væri bilaður og bað togaramenn að halda áfram aðgerðum sínum en koma með mennina til sín. Fór vélbátur Snorra goða nokkrar ferðir til viðbótar og hætti ekki fyrr en talið var að það hefði tekist að bjarga öllum sem á lífi hefðu verið um borð í Asca.

Tundurspillirinn renndi þá ljóskastara á brennandi skipið, stafna á milli. Sást þá að aftast á skipinu stóð stór hópur manna og hrópaði og veifaði á hjálp. Voru þeir orðnir innikróaðir af eldinum og honum ofurseldir ef skjót hjálp kæmi ekki til. Enn kallaði skipherrann á tundurspillinum til Snorra goða og spurði hvort þeir treystu sér til að ná þessum mönnum. Magnús skipstjóri taldi mjög óvarlegt að senda björgunarbátinn til þeirrar ferðar þar sem hætta var á að hann lenti undir skipinu og hefði þá ekki þurft að sökum að spyrja. Hann tók hins vegar þá djarfmannlegu ákvörðun að sigla Snorra goða að skipinu og freista þess að bjarga þannig mönnunum. Fór hann hring í kringum skipið og renndi síðan að skuti þess á hægri ferð. Við það slengdust skipin saman og beygðist framgálgi togarans nokkuð. Hiti af eldinum og neistaflug lék um Snorra goða. En ætlunarverkið tókst. Skipbrotsmennirnir gátu rennt sér niður á hvalbak togarans þar sem tekið var á móti þeim. Þegar allir voru komnir lagði togarinn frá og mátti ekki seinna vera þar sem stórskipið var komið að því að sökkva.

Margir illa særðir

Meðan björgunarbáturinn var í förum höfðu allir skipverjar á Snorra goða ærinn starfa. Margir mannanna sem björguðust voru brenndir og særðir. Þeir voru fluttir niður í káetu togarans þar sem reynt var að gera að sárum þeirra. Meðal þeirra var loftskeytamaðurinn á Asca sem hafði brennst þannig að báðir handleggir hans voru farnir og ekkert eftir nema stúfarnir. Annar sem slasast hafði illa var loftvarnarskytta skipsins sem stóð við byssur sínar meðan á árásinni stóð og skaut á flugvélina. Táraðist hann meðan verið var að búa að sárum hans, ekki einungis af sársaukanum, heldur einnig af því að „geta ekki hitt djöfulinn“, eins og hann orðaði það. Allan tímann sem björgunaraðgerðir Snorra goða stóðu yfir var Arinbjörn hersir einnig að björgunarstörfum og tíndi upp menn af flekum eða úr sjónum sem straumurinn hafði borið frá svæðinu.

Snorra goða var síðan lagt síbyrt að tundurspillinum og síðan kom Arinbjörn hersir og lagðist utan á hann. Hófst síðan flutningur skipbrotsmannanna úr togaranum yfir í tundurspillinn og tók það drjúgan tíma. Ekki vissu togaramenn hversu mörgum þeir höfðu bjargað en giskað var á að þeir hefðu verið 400–500 talsins.

Þegar flutningur mannanna milli skipa var langt kominn fékk Magnús Runólfsson boð um að koma um borð í tundurspillinn og ræða við skipherrann. Hann ákvað að þiggja það ekki en bað um að honum yrði færð kveðja og þau skilaboð að það hefðu verið íslenskir sjómenn sem unnu að björguninni. Ekki vissu togaramenn nafn eða númer tundurspillisins þar sem breitt hafði verið yfir merkingar hans.

Skipin voru síðan leyst hvert frá öðru, skipsflautur þeyttar í kveðjuskyni og togararnir settir aftur á fulla ferð með stefnu á Ísland. Gengu áhafnirnar í að þrífa skipin, sem voru útötuð eftir björgunina, áður en þær gátu lagst til hvíldar en menn höfðu gengið nærri sjálfum sér við hina frækilegu og raunar ótrúlegu björgun.

Það síðasta sem togaramenn sáu til Asca var að skipið var alelda stafnanna á milli og farið mjög að síga í sjó.