— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margmenni kom saman í Hallgrímskirkju um fimmleytið í gær þegar þar var haldin samverustund fyrir íbúa Grindavíkur vegna jarðhræringanna sem nú eiga sér stað á Reykjanesskaga. Greina mátti sterkar tilfinningar og ríkan samhug með Grindvíkingum á samverustundinni sem sr

Anna Rún Frímannsdóttir

Ragnhildur Helgadóttir

Sigurður Bogi Sævarsson

Margmenni kom saman í Hallgrímskirkju um fimmleytið í gær þegar þar var haldin samverustund fyrir íbúa Grindavíkur vegna jarðhræringanna sem nú eiga sér stað á Reykjanesskaga. Greina mátti sterkar tilfinningar og ríkan samhug með Grindvíkingum á samverustundinni sem sr. Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavík, leiddi.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir biskup og Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur voru á meðal þeirra sem fluttu ávörp. „Mér þykir vænt um að eiga þessa stund með ykkur, þessa samverustund þegar við leitum styrks hvert hjá öðru, þegar við bíðum þess sem verða vill, vonum það besta en búum okkur undir allan þann miska sem hin römmu náttúruöfl geta gert okkur,“ sagði Guðni m.a. í ávarpi sínu.

Sagði Guðni að þjóðin hugsaði hlýtt til allra sem hefðu þurft að flýja heimili sín og vinnustaði í skyndi og að hvernig sem allt væri í Grindavík yrði tekist á við þann vanda sem upp gæti komið af einingu og reynslu. Þakkaði forsetinn þeim fjölmörgu sem hefðu boðið húsaskjól og aðra aðstoð í stóru sem smáu, og sagðist Guðni vera stoltur af því að búa í samfélagi sem brygðist svo vel við óvæntri ógn.

Munum takast á við vandann

Guðni þakkaði einnig þeim sem nú sinntu hjálp í viðlögum, starfsfólki almannavarna og öðrum á vettvangi þessara vályndu viðburða. „Við búum líka að því að eiga einvalalið vísindamanna, rýnandi í öll þau teikn sem birtast hverju sinni. Já, það er svo margt sem við getum gert, þrátt fyrir allt. Við getum vonað og trúað og við getum gert það sem í okkar valdi stendur – við getum brugðist við, nýtt okkur þekkingu og reynslu, vitsmuni og útbúnað,“ sagði Guðni.

„Við vitum ekki enn hvort gjósa muni í eða við Grindavík. Ef það gerist þá tökumst við á við þann mikla vanda og lífið mun svo halda áfram. Í Grindavík munu börn ganga í leikskóla og skóla, við munum sinna þeim eldri og þeim sjúku. Heimafólk mun áfram skora og skora á vettvangi íþrótta. Við munum mæta á tónleika í Grindavík og aðrar skemmtanir, á sjómannadagsmessu og Sjóarann síkáta, þá góðu hátíð. Það verður áfram róið frá Grindavík. Íbúar þar munu áfram afla þjóðarbúinu drjúgra tekna,“ sagði Guðni og hét því að í Grindavík yrði áfram blómleg byggð.

Sigdalur undir bænum

„Það hefur myndast eins metra djúpur sigdalur í gegnum Grindavíkurbæ og gliðnunin hélt áfram [í gær]. Þannig að það er alveg ljóst að kvika er komin á mjög grunnt dýpi undir bænum,“ sagði Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is í gær.

Sagði hann þann möguleika fyrir hendi að það færi að gjósa inni í Grindavík. Væri það þá sennilega í sigdalnum sem myndast hefur. „Þetta fer í gegnum sum húsin, alla vega í gegnum skólann,“ sagði hann.

„Sigdalur myndast þegar kvika kemur upp á mjög lítið dýpi og er komin mjög nálægt yfirborði,“ útskýrði hann. Þó sé erfitt að meta hve nálægt kvikan sé yfirborðinu. „[Í fyrrakvöld] var hún komin í 800 metra, svo hún er töluvert grynnra núna. Það gætu verið einhverjir tugir metra í hana.“ Bíða verði þó hitamælinga á svæðinu til að meta dýptina.

Sagði Þorvaldur sigdalinn hafa uppgötvast í gær við myndatökur og kortleggingar, en hingað til hafi vísindamenn ekki tekið eftir honum. Komi upp gos í bænum myndi þyngdin á hraunflæðinu vera meira til vesturs og síðan til sjávar. „En það fer alltaf eitthvað í hina áttina,“ sagði Þorvaldur. Mjög erfitt sé að ákvarða eitthvað um tíma.

„Þetta gætu verið einhverjar mínútur. Eða þetta gæti hætt og kvikan kemur ekki upp.“ Ef til vill hafi kvikan ekki nægilegt afl til að komast alla leið upp á yfirborðið. Sagði Þorvaldur að eftir því sem lengri tími liði, og ekki gysi, minnkuðu líkurnar á eldgosi inni í bænum. Það væri því möguleiki að ekki kæmi upp gos, eða að það kæmi upp norðar, í Sundhnúkagígaröðinni.

Staðið saman Fullt var út úr dyrum á samverustund sem fram fór í Hallgrímskirkju í Reykjavík í gær fyrir Grindvíkinga og þá sem vildu sýna þeim samhug og styrk. Sr. Elínborg Gísladóttir sá um að leiða stundina og þau Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur fluttu ávörp.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir