Hafdiís Hilmarsdóttir fæddist 14. maí 1944 í Hrísey í Eyjafirði. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 24. október 2023.
Foreldrar hennar
voru Hilmar Símonarson, f. 9. september 1925, d. 27. maí 1972, og María Jóhannsdóttir, f. 20. nóvember 1925, d. 21. ágúst 1994. Systur Hafdísar eru: 1) Sigrún Kristín, f. 23.5. 1948. 2) Sigurveig Björg, f. 7.2. 1950, d. 10.11. 1950. 3) Sigurveig Björg, f. 2.6. 1951, d. 18.3. 1974. 4) Inga Rut, f. 14.3. 1953. 5) Helena Sólrún, f. 9.1. 1962.
Hinn 30. nóvember 1974 giftist Hafdís eftirlifandi eiginmanni sínum, Ingólfi Matthíasi Sigþórssyni, f. 6. maí 1948. Foreldrar hans voru Sigþór Björnsson, f. 15.9. 1927, d. 21.1. 1997, og Arnfríður Jóhanna Jóhannsdóttir, f. 17.12. 1927, d. 6.1. 2009.
Sonur Hafdísar og Jóns Guðmunds Ragnarssonar er Eyþór Ævar, f. 4.6. 1966, maki Gréta Björk Eyþórsdóttir, f. 26.3. 1969. Börn þeirra eru: Lena María, f. 1994, maki Benedikt Örn Hjaltason, f. 1991, og eiga þau tvö börn; Linda Margrét, f. 1996, maki Hákon Ingi Þórisson, f. 1995, og eiga þau eitt barn; Eyþór Daði, f. 2000.
Börn Hafdísar og Ingólfs eru: 1) Sigmar Örn, f. 22.9. 1971, var kvæntur Hrund Hlöðversdóttur, f. 9.1. 1972, þau skildu. Börn þeirra eru: Erna Sól, f. 1998, maki Flemming Viðar Valmundsson, f. 1995, og Heiðmar Örn, f. 2004. 2) Dagný Ósk, f. 29.8. 1973, gift Pétri Björgvin Ingasyni, f. 1970. Börn þeirra eru: Aron Ingi, f. 2003, Hilmar Máni, f. 2005, og Hafdís Ósk, f. 2007.
Hafdís fæddist í Hrísey og ólst þar upp og gekk í Barnaskóla Hríseyjar. Veturinn 1962-1963 stundaði hún nám í Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit. Hafdís kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum 1969 og hófu þau búskap í Steinkoti í Hörgársveit vorið 1972 og bjó hún þar til dánardags. Hún vann ýmis störf um ævina en hún var meðal annars í fiskvinnslu í Keflavík, síldarvinnslu á Seyðisfirði, vann í matvöruverslun, en lengst af vann hún á prjónastofunni Heklu og síðar á prjónastofunni Glófa.
Hafdís var mikil hannyrðakona og hafði unun af prjónaskap og útsaumi og eftir hana liggur mikið af handavinnu.
Útför Hafdísar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 13. nóvember 2023, klukkan 13.
Elsku mamma.
Það er komin kveðjustund en hvernig er hægt að kveðja þig í síðasta sinn?
Minningarnar hrannast upp og það er af nógu að taka, en nú fer að fara í hönd sá tími sem þú elskaðir hvað mest, jólin. Allt sem þú bakaðir, smákökurnar, kossarnir, lagkökurnar, að ógleymdu jólakonfektinu, allt var þetta fullkomið og einstaklega vel gert. Þú varst mikil fyrirmynd og það var gott að leita ráða hjá þér, hvort heldur sem það sneri að matseld, bakstri eða einhverju allt öðru, þú varst alltaf með svör og þú varst snillingur í eldhúsinu. Saumaskapurinn, prjónarnir, útsaumurinn, heklið, þetta lá allt vel fyrir þér og margt fallegt eigum við sem þú hefur gert.
Þú varst góð amma og reyndist ömmubörnunum þínum einstaklega vel. Þú gafst þér alltaf tíma fyrir þau þegar þau komu í heimsókn eða þegar þið Ingi komuð til okkar, þá var gripið í spil, lesin bók eða eitthvað annað skemmtilegt gert. Þau eiga góðar minningar um ömmu Dísu.
Langömmubörnin þín hefðu viljað kynnast þér betur, en við munum deila minningunum með þeim.
Síðustu ár voru þér erfið þegar líkaminn fór að gefa sig og þú gast ekki gert allt sem þig langaði til, en þrátt fyrir að hafa glímt við Parkinson í 15 ár var samt ótrúlegt hvað þú gast stytt þér stundirnar með einhverri handavinnu.
Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og okkur, elsku mamma.
Um stræti rölti ég
og hugsa um horfinn veg,
á kinnar mínar heit falla tár.
Allt sem áður var eru nú minningar
því aldrei aftur koma þau ár.
Ég hugar kveðju sendi mamma mín,
þig man ég alla stund,
og guð ég bið um að gæta þín
uns geng ég á þinn fund.
Hjarta sárt ég kenni saknaðar
er hugsa ég til þín
af því ég man er ég lítill var
hver kyssti tárin mín.
(Gylfi Ægisson)
Mamma mín, ég sakna þín, en við yljum okkur við góðar minningar sem við áttum með þér.
Þangað til næst, þinn sonur
Eyþór.
Elsku amma okkar.
Við kveðjum þig með söknuði en þökkum fyrir allar þær dýrmætu minningar sem við eigum saman.
Nú þegar þú ert farin hugsum við til baka yfir allar þær stundir sem við áttum saman. Sem börn gistum við ófáar helgarnar í sveitinni þegar mamma og pabbi voru að vinna. Hjá ykkur afa var alltaf svo gott að vera. Hann er okkur efst í huga tíminn sem við vörðum með þér að spila. Þú varst alltaf til í að grípa í spilin með okkur þrátt fyrir að við vildum helst spila lönguvitleysu sem þér þótti yfirleitt vera alltof löng. Þú gafst þó aldrei upp og við hlógum mikið að þér þegar þú kvartaðir undan hvað spilið væri orðið langt.
Á hverju hausti biðum við spennt eftir að komast með þér í berjamó og fara svo heim með fullar fötur af berjum og helst aðalbláberjum sem okkur þóttu best. Þegar heim var komið fengum við okkur svo fulla skál af berjum með óþeyttum rjóma. Hjá þér amma var alltaf nóg að borða og frá þér fór enginn svangur. Matarbúrið var alltaf fullt af kökum og kræsingum og heitt kakó var í boði í hvert sinn sem við komum í heimsókn. Heimagerða kæfan þín var líka það besta sem við fengum og gaman þegar við fengum heimsendingu af henni.
Það var alltaf svo gott að vera í kringum þig, amma. Þú hafðir mjög hlýja nærveru og alltaf var stutt í hláturinn og grínið. Langömmubörnin þín þrjú voru heppin að fá að kynnast ömmu Dísu og þeim fannst svo gaman að koma í sveitina og leika sér með allt gamla dótið á efri hæðinni.
Nú ert þú komin á annan stað þar sem þú getur fylgst með okkur alla daga og passað upp á okkur öll.
Elsku afi, við sendum þér hugheilar samúðarkveðjur, minningu um góða ömmu munum við geyma í hjörtum okkar.
Guð geymi þig, elsku amma, við sjáumst seinna.
Þín ömmu- og langömmubörn,
Lena María, Linda
Margrét, Eyþór Daði,
Atlas Örn, Ingunn Lillý
og Emelía Kara.
Elsku amma mín.
Þú varst eina amma mín og mér þótti svo ótrúlega vænt um þig. Þú varst best og alltaf til staðar.
Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Í kistuna þína setti ég mynd af mér og Bjarti og Lena og Linda settu líka myndir af öllum langömmubörnunum þínum.
Við söknum þín og vitum að þú vakir yfir okkur öllum og passar okkur öll og sérstaklega elsku afa.
Hvíldu í friði, elsku amma, sjáumst seinna.
Þín
Hafdís Ósk.
Elsku Hafdís.
Nú hefur þú fengið hvíldina og ert laus og frjáls. Þú stóðst þig vel, verkefnið var alls ekki auðvelt. Nú hefur þú bæst í hóp englanna sem vaka yfir okkur. Þau hafa tekið vel á móti þér, þau sem við höfum saknað lengi. Nú hefur þú bæst í þann hóp og ég sakna þín.
Þú varst ömmusystir mín, en samt miklu meira en ömmusystir. Ég hef átt þig að frá fyrsta degi, bókstaflega. Þú varst jú sú sem komst brunandi úr Steinkoti á Sandinn til þess að koma mömmu og Helenu upp á spítala 30. apríl 1994. Eitthvað voru hlaupararnir á leiðinni til Akureyrar að pirra þig, þeir voru fyrir og þú hikaðir ekki við að flauta á þá og bölva þeim, þú varst á hraðferð.
Þú varst töffari. Þú lást ekki á skoðunum þínum, varst ákveðin, hreinskilin og þrjóskari en flestir og ég veit hvaðan við mamma höfum fengið þrjóskuna. Umfram allt varst þú þó ofboðslega ljúf og góð. Ég er þér þakklát fyrir svo margt. Þakklátust er ég fyrir þann stað sem mamma átti hjá þér. Þú varst henni miklu meira en mikilvæg. Við vitum báðar að áskoranir hennar hafa verið miklar og í fjarveru mömmu sinnar og svo ömmu, þá var ómetanlegt fyrir hana að eiga þig að. Þú tókst henni sem þinni eigin, sambandið ykkar var fallegt og gott og þú varst hennar stoð og stytta í gegnum lífsins ólgusjó. Þú varst til staðar og stóðst þig meira en vel. Þegar þér tókst svo loksins að komast fram hjá hlaupurunum og ég kom í heiminn nokkrum klukkustundum síðar, fékk ég strax sérstakan stað í hjartanu þínu og pláss undir þínum verndarvængjum, fyrir það er ég ætíð þakklát.
Eitt af því sem ég saknaði fljótt eftir að ég flutti að heiman var heimasíminn hjá mömmu. Þú hringdir nefnilega alltaf í hann og ég þekkti númerið og ég valdi það alltaf að svara til að heyra í þér hljóðið og ná smá spjalli um allt og ekkert. Mín eftirsjá er að hafa ekki verið duglegri að heimsækja þig núna síðustu ár. Ég viðurkenni það núna að staðreyndin er sú að mér þótti það erfitt. Að sama skapi er ég þakklát fyrir að hafa gefið mér tíma og heimsótt þig eins oft og ég samt gerði, því það var alltaf gott. Mín beið alltaf hlýr faðmur, bros, gleði og þakklæti. Og ég er sérstaklega glöð að hafa komið með Sigga minn til þín – þú varst svo sannarlega ánægð með hann. Ég veit að þú varst stolt af mér, ég veit líka hversu vænt þér þótti um mig. Og ég vona að þú vitir hversu sérstakan stað þú átt í mínu hjarta um ókomna tíð. Ég er þakklát fyrir þig, elsku Hafdís mín, fyrir að hafa fengið að vera eins mikið í lífinu þínu og ég raunverulega fékk.
Ég passa mömmu en hún hlýtur að vera búin að skrifa uppskriftirnar þínar niður, suðutíminn á hangikjötinu og hamborgarhryggnum hlýtur líka að standa á einhverjum miða, hafðu ekki áhyggjur af því. Ég veit að Helena bjargar því líka á aðfangadag þegar mamma mun ósjálfrátt taka upp tólið og hringja í þig til að fá leiðbeiningar.
Knúsaðu englana okkar frá mér. Ég veit að þú vakir yfir okkur og fylgist með. Þangað til við hittumst á ný mun ég gera mitt besta og gera þig áfram stolta.
Þín
Sólveig María.