Jafnt Palmer bjargaði jafntefli með marki úr vítaspyrnu undir lokin.
Jafnt Palmer bjargaði jafntefli með marki úr vítaspyrnu undir lokin. — AFP/Glyn Kirk
Chelsea og Manchester City skildu jöfn, 4:4, í stórkostlegum leik í 12. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Stamford Bridge í gær. Thiago Silva, Raheem Sterling, Nicolas Jackson og Cole Palmer skoruðu fyrir Chelsea

Chelsea og Manchester City skildu jöfn, 4:4, í stórkostlegum leik í 12. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Stamford Bridge í gær. Thiago Silva, Raheem Sterling, Nicolas Jackson og Cole Palmer skoruðu fyrir Chelsea. Erling Haaland skoraði tvö mörk fyrir Man. City auk þess sem Manuel Akanji og Rodri komust á blað. Man. City er á toppi deildarinnar með 28 stig en Chelsea er í 10. sæti með 16 stig.

Liverpool hafði betur gegn Brentford, 3:0, á Anfield í gær. Mohamed Salah skoraði tvívegis og Diogo Jota eitt mark. Liverpool er í 2. sæti með 27 stig.

Arsenal hafði betur gegn Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley, 3:1, á Emirates-vellinum í Lundúnum á laugardag. Leandro Trossard, William Saliba og Oleksandr Zinchenko skoruðu mörk Arsenal. Josh Brownhill skoraði mark Burnley. Fábio Vieira fékk beint rautt spjald í liði Arsenal fyrir ljótt brot á Brownhill. Arsenal er í 3. sæti með 27 stig.

Manchester United vann nýliða Luton með minnsta mun, 1:0, á Old Trafford á laugardag. Victor Lindelöf skoraði sigurmarkið og kom liðinu þannig upp í 6. sæti, þar sem liðið er með 21 stig.

Tottenham tapaði öðrum leik sínum í röð í deildinni þegar Wolves hafði betur, 2:1, í Wolverhampton á laugardag. Brennan Johnson kom Tottenham í forystu áður en Pablo Sarabia og Mario Lemina tryggðu Úlfunum dramatískan sigur með mörkum í uppbótartíma. Tottenham er í 4. sæti með 26 stig. Aston Villa er í 5. sæti með 25 stig eftir 3:1-sigur á Fulham í gær.