Ekki er víst að það sé ódýrt fyrir einkarekinn fjölmiðil að taka afstöðu sem er þvert á skoðanir þeirra sem stjórna, hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélögum, einkum því stærsta. Jafnvel hér á landi þekkist það viðhorf að refsa fjölmiðlum fjárhagslega fyrir umfjöllun sem þeir bjóða upp á eða skoðanir sem þeir viðra. Morgunblaðið hefur ekki farið varhluta af slíkum refsingum þar sem áskriftum hefur verið sagt upp í stórum stíl af hálfu opinberra aðila og auglýsingum beint annað til að freista þess að þagga niður í „óæskilegum“ skoðunum.
Það er þess vegna ekkert nýtt við það viðhorf sem viðrað var fyrir skömmu í borgarstjórn Reykjavíkur og þarf ekki að koma á óvart, þó að óvenjulegt sé að slíkar skoðanir séu viðraðar opinberlega. En þetta viðhorf breytir auðvitað engu um nauðsyn þess að almenningur sé rétt upplýstur um bágborinn fjárhag Reykjavíkurborgar eftir áralanga óstjórn vinstrimanna í ýmsu meirihlutamynstri undir stjórn Samfylkingarinnar.
Það sem veldur taugatitringnum að þessu sinni er fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár sem sýnir vaxandi fjárhagsvanda borgarinnar. Þetta er ekki sú mynd sem borgarstjóri vill draga upp enda er hann á förum og þá er betra að sá sem tekur við fái skellinn. Og svo vel vill til fyrir fráfarandi borgarstjóra að sá sem á að taka við er af einhverjum ástæðum meira en fús til að hjálpa þeim fráfarandi að teikna upp hina fölsku mynd. Þetta er skammsýni og sjálfskaparvíti sem teljast má alveg einstakt.
En þeir sem horfa á fjárhagsstöðu borgarinnar án þess bjagaða glers sem fulltrúar meirihlutans notast við sjá stöðu sem er verulegt áhyggjuefni. Og í því sambandi verður líka að hafa í huga að um er að ræða áætlun, og slíkar áætlanir hafa fjarri því alltaf staðist. Rekstraráætlun borgarinnar fyrir 2023 gerði til að mynda ráð fyrir átta milljarða afgangi en útkomuspá gerir nú ráð fyrir rúmlega fjögurra milljarða tapi, eða rúmlega tólf milljarða lakari afkomu en áætlað hafði verið.
Nú gerir meirihlutinn í borgarstjórn ráð fyrir svipaðri afkomu og hann gerði ráð fyrir í fyrra, um átta milljarða afgangi. Er líklegt að það sé áreiðanlegra en í fyrra?
Þegar horft er á skuldastöðuna er þróunin engu betri. Áætlun fyrir þetta ár gerði ráð fyrir að skuldir og skuldbindingar yrðu 464 milljarðar króna, en nú segir útkomuspá að líkur séu á að niðurstaðan verði 26 milljörðum króna verri. Þetta þýðir að borgin hefur safnað rúmlega tveimur milljörðum meira af skuldum á mánuði en áætlað hafði verið, en hafa verður í huga að borgin hafði gert ráð fyrir verulegri áframhaldandi skuldasöfnun. Miðað við þær tölur sem nú liggja fyrir munu skuldir borgarinnar hækka á þessu ári um 44 milljarða króna. Og þær hækka áfram á næsta ári þó að borgarstjóri hafi lýst því yfir að hann sé „stoltur af áætluninni“ fyrir næsta ár. En hann er ekki einn um það, sá sem taka á við segir að hann og hans fólk séu „stolt af þeim árangri sem við höfum náð“.
Eitt af því sem forystumenn meirihlutans í borginni eru stoltir yfir er þær hagræðingaraðgerðir sem þeir segja að hafi skilað miklum árangri. Þessi árangur er vandfundinn í versnandi fjárhagsstöðu borgarinnar og lýsingar oddvita minnihlutans eru nær lagi: „Þegar tölurnar eru rýndar kemur í ljós að launakostnaður jókst um 7,3 milljarða milli ára og rekstrarkostnaður sömuleiðis um 3,9 milljarða. Starfsfólki fækkaði ekki á einu einasta sviði borgarinnar, heldur fjölgaði heilt yfir.“
Þá bendir oddvitinn á að „viðsnúningurinn“ sé ekki fenginn með hagræðingu í rekstri: „Nei, hann er fenginn beint úr vösum skattgreiðenda. Hann er fenginn úr auknu útsvari og úr nýjum framlögum ríkisins vegna málaflokks fatlaðs fólk. En hann er líka fenginn með auknum arðgreiðslum úr Orkuveitu og Faxaflóahöfnum – arðgreiðslum sem aukast um tæpan einn og hálfan milljarð frá áætlun.“
Meirihlutinn heldur með öðrum orðum áfram að auka álögur og veikja innviði
borgarinnar, en það er sérstakt áhyggjuefni hve fjárhagsvandi meirihlutans í borgarstjórn hefur veikt Orkuveituna og
þar með getu hennar til að viðhalda og endurnýja þau nauðsynlegu kerfi sem hún á að sinna.
Þannig hleðst vandinn upp á ýmsum sviðum, ekki aðeins á skuldahlið efnahagsreikningsins. En það er víst allt í lagi; leiðtogar meirihlutans eru stoltir og það er fyrir mestu.