Öflugur Janus Daði Smárason skoraði sjö mörk í úrslitaleiknum.
Öflugur Janus Daði Smárason skoraði sjö mörk í úrslitaleiknum. — Ljósmynd/@SCMagdeburg
Íslendingalið Magdeburg tryggði sér í gærkvöldi sigur í heimsbikar karla í handknattleik með því að leggja landa sína frá Þýskalandi, Füchse Berlín, að velli eftir framlengdan úrslitaleik í Sádi-Arabíu

Íslendingalið Magdeburg tryggði sér í gærkvöldi sigur í heimsbikar karla í handknattleik með því að leggja landa sína frá Þýskalandi, Füchse Berlín, að velli eftir framlengdan úrslitaleik í Sádi-Arabíu. Lokatölur urðu 34:32 og er þetta þriðja árið í röð sem Magdeburg vinnur heimsbikarinn.

Janus Daði Smárason lét afar vel að sér kveða og skoraði sjö mörk fyrir Magdeburg líkt og Svíinn Albin Lagergren. Ómar Ingi Magnússon bætti við fjórum mörkum.

Báðir Íslendingarnir voru svo útnefndir í úrvalslið mótsins; Janus Daði í stöðu leikstjórnanda og Ómar Ingi í stöðu hægri skyttu.

Í leiknum byrjaði Füchse betur og komst til að mynda í 4:1 og 7:4. Magdeburg fann hins vegar taktinn og náði að jafna metin í 7:7, en aftur sigldi Füchse ögn fram úr og var með þriggja marka forystu, 16:13, í hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks gaf Füchse enn frekar í og náði fimm marka forystu, 19:14. Aftur náði Magdeburg hins vegar vopnum sínum og tókst að jafna metin í 22:22 um miðjan hálfleikinn. Í kjölfarið komst Íslendingaliðið yfir í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 24:23.

Eftir það var allt í járnum og var staðan að loknum venjulegum leiktíma 29:29. Því þurfti að framlengja og þar reyndist Magdeburg sterkari aðilinn og vann að lokum frækinn tveggja marka sigur.

Fyrr um daginn léku Barcelona og Kielce um þriðja sætið. Lauk þeim leik með 33:30-sigri Barcelona.

Haukur Þrastarson skoraði þrjú mörk fyrir Kielce.