Sigurður Bogi Sævarsson
Anna Rún Frímannsdóttir
Greina mátti sterkar tilfinningar og ríkan samhug í Hallgrímskirkju í Reykjavík síðdegis í gær á samverustund fyrir Grindvíkinga sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna jarðskjálfta og líklegra eldsumbrota. Kirkjan var þéttskipuð á þessari stund sem sr. Elínborg Gísladóttir sóknarprestur í Grindavík leiddi. „Miskunnin er með okkur þrátt fyrir allt. Þótt jörðin opnist og eldi spúi þá höldum við áfram með kærleika í hjarta og vonina að leiðarljósi,“ sagði sr. Elínborg. Ávörp fluttu einnig sr. Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík og fleiri.
„Þegar hætta og óvissa steðjar að eins og nú er gott að koma saman, eins og við gerum hér í dag. Hér erum við komin saman til að biðja, syngja og faðmast,“ sagði sr. Agnes M. Sigurðardóttir í ávarpsorðum sínum. Hún sagði samhug ríkjandi meðal Íslendinga nú. Sömuleiðis væri kærkomið að allar upplýsingar um stöðu mála bærust hratt og vel. Þá minnti biskup á að þjóðkirkjan væri með sálgæslu og öðru hluti af því neti sem grípa ætti fólk í ástandi almannavarna. Til slíkrar þjónustu væru prestar tilbúnir nú.
Óvissan erfiðust
Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík sagði í ávarpi sínu að í eldgosum síðustu ára hefðu íbúar í Grindavík verið lánsamir; enda lítill miski af þeim náttúruhamförum hlotist. Nú væri önnur staða uppi. Bæjarbúar hefðu mátt síðustu daga kenna á snörpum jarðskjálftum sem leiddi til þess að sl. föstudag hefðu margir íbúar haldið á brott úr heimabyggð. Því hefði verið farið að fækka talsvert á svæðinu þegar ákveðið var að rýma byggðarlagið seint á föstudagskvöld.
„Óvissan er erfiðust í aðstæðum eins og nú,“ sagði Fannar sem kvaðst síðustu sólarhringa hafa verið löngum stundum í stjórnstöð almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík. Sér þættu forréttindi að hafa kynnst viðbragðsaðilum sem þar starfa og vísindamönnum sem fylgjast með stöðunni á best vaktaða svæði í heimi. Því mætti segja að vel væri haldið utan um Grindvíkinga á óvissutímum nú.
Sóttu sauðfé
Vegna jarðskjálfta og sennilegra umbrota er Grindavík nú mannlaus bær. Í gærmorgun sögðu vísindamenn þó svigrúm og stundarhlé í jarðskjálftum þannig að íbúar gætu farið sem allra snöggvast til síns heima til að sækja nauðsynjar. Þetta átti við um fólk sem býr í svonefndu Þórkötlustaðahverfi, sem er austast í Grindavík. Björgunarsveitarmenn fylgdu fólki meðan það fór til að sækja til dæmis persónulega muni svo sem myndir og slíkt, fatnað, lyf og fleira. Einnig fengu búfjáreigendur í Grindavík að ná í skepnur sínar og koma á brott, en nokkur hefð er fyrir sauðfjárbúskap á þessu svæði.
Björgunaraðgerðir þessar gengu eins og í sögu, en fólki var hleypt inn í bæinn frá Suðurstrandarvegi við Fagradalsfjall austan Grindavíkur og á þeim stað þar sem Festarfjall gengur í sjó fram.
Eyjamenn gjalda líku líkt
„Þið getið reitt ykkur á að við Eyjamenn munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að létta undir með ykkur og aðstoða ef á þarf að halda.“ Þetta kom fram í stuðningskveðju sem bæjarstjórn Vestmannaeyja sendi bæjarstjórn Grindavíkur í fyrradag.
„Kveðjunni hefur verið mjög vel tekið. Við vildum lýsa vilja okkar til að hlaupa undir bagga, eins og svo sem allir landsmenn eru að gera, en þetta stendur alveg sérstaklega upp á okkur Eyjamenn því Grindvíkingar sýndu okkur alveg ótrúlegan stuðning í kjölfarið á gosinu í Heimaey fyrir 50 árum, opnuðu hús sín og buðu okkur velkomin,“ segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum, í samtali við Morgunblaðið.
Segir Páll marga Eyjamenn hafa flutt á sínum tíma til Grindavíkur. „Sumir eru þar enn sem ekki komu heim aftur af ýmsum ástæðum. Okkur rennur blóðið til skyldunnar að gjalda líku líkt hvernig Grindvíkingar komu drengilega fram við okkur á sínum tíma.“
Þá hafi margir Eyjamenn stigið fram þegar rýma þurfti Grindavík og boðið að eigin frumkvæði fram húsnæði sitt, bæði í Vestmannaeyjum og eins uppi á landi. Aðspurður segist Páll hafa heyrt dæmi þess að einhverjir Grindvíkingar séu þegar komnir til Eyja.
„Fólk sem átti þá einhverjar tengingar kannski til Eyja, skyldfólk eða vini í Vestmannaeyjum sem hafa hlaupið undir bagga.“ Segir hann ástandið sem uppi er núna í Grindavík eflaust rífa upp einhver gömul sár fyrir Eyjamenn. „Ég held svo sem að enginn átti sig á því fyrr en reynt hefur hvað það er að vera allt í einu neyddur til að yfirgefa heimili sitt í algjörri óvissu um það hvort það verði einhvern tímann snúið aftur.“