Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
„Samfélag Heimsþings kvenleiðtoga samanstendur af 10.000 konum alls staðar að úr heiminum, 500 koma saman í Reykjavík frá 80 löndum einu sinni á ári og hingað til höfum við aðallega verið að einbeita okkur að samtalinu, setja jafnréttismál á dagskrá og tryggja það að umræðan um þau sé rík og mikil í þessum hópi. En líka það að þessar konur, sem allar eru leiðtogar í stjórnmálum, viðskiptum, vísindum og alþjóðastofnunum, geti samræmt sínar hugmyndir um aðgerðir,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, stofnandi og stjórnarformaður Heimsþings kvenleiðtoga.
Heimsþingið hefst í Hörpu í dag og stendur til morguns. Þingið er nú haldið í sjötta sinn og er það í samstarfi við alþjóðlegu þingkvennasamtökin Women Political Leaders, ríkisstjórn Íslands og Alþingi, auk fjölda erlendra og innlendra samstarfsaðila. Þá er Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, sérstakur verndari Heimsþingsins.
Með áherslu á aukið jafnrétti
Í ár verður kynntur sérstakur aðgerðapakki á þinginu í þágu aukins jafnréttis í heiminum. „Þetta samfélag af kvenleiðtogum vill leggja áherslu á að við erum að sameinast um ákveðnar aðgerðir. Þær eru búnar að vera í undirbúningi núna í heilt ár og niðurstaðan var sú að leggja áherslu á fjórar aðgerðir sem við köllum Reykjavík Action Items sem eru allar um það að vinna í átt að jafnrétti með ákveðin gildi sem Ísland hefur lagt áherslu á í sínum fararbroddi,“ segir Hanna Birna.
Hún segir að fyrsta áhersluatriðið sé að launin séu jöfn. Þá sé brýnt að fulltrúar kvenna séu jafnmargir og karla í ábyrgðarstöðum, þannig að það sé jafnt hlutfall í forystustörfum. Í þriðja lagi er áhersla lögð á jöfn tækifæri kynja til fæðingarorlofs og í fjórða lagi er áhersla á aðgerðir sem miði að því að enda kynbundið ofbeldi.
Ísland hefur náð lengst
Spurð hvort litið sé á Ísland sem fyrirmynd í jafnréttismálum segir hún svo vera. „Já, ástæðan fyrir því að þessar konur sameinast allar um að hittast hér er sú að þær líta á Ísland sem landið sem hefur náð lengst og við höfum auðvitað mælst þannig. Í 14 ár í röð erum við hæst á öllum kvörðum þegar kemur að jafnrétti. En það sem er líka svo fallegt við þá sögu og það sem konum finnst svo merkilegt er að við teljum okkur ekki vera komin á endastöð. Ísland myndi segja að það að við séum númer eitt segi meira um stöðuna almennt heldur en um það að við höfum náð svona rosalega miklum árangri. Við höfum náð árangri en við erum að engu leyti búin að ná einhverjum fullnaðarsigri. Það er líka saga sem þessar konur vilja gjarnan fá að heyra og læra af reynslunni.“
Þverpólitísk samstaða
Segir Hanna Birna að þing sem þetta sé gríðarlega mikilvægt fyrir þær konur sem hingað komi. „Margar hverjar koma aftur og aftur, aðrar eru að koma í fyrsta skipti og það er enginn annar staður, þegar lýtur að kvenleiðtogum, það er ekkert annað sambærilegt þing eða viðburður sem býður þessum konum upp á möguleikann á að tala saman. Flestir viðburðir sem þessir kvenleiðtogar sækja, þar eru konur í algjörum minnihluta. Þannig að fyrir þessar konur er ótrúlega mikilvægt að eiga þetta samtal og fá að tilheyra hópi sem skilur hvernig er fyrir þær að vera í forystu,“ segir Hanna Birna.
„Fyrir Ísland er þetta svo viðurkenning á því að við höfum gert margt vel, þó við getum gert betur. Ísland tekur ótrúlega fallega á móti þessum hópi og gerir það mjög vel. Viðburðurinn er í samstarfi við ríkisstjórn og Alþingi og það er líka það sem er mjög sérstakt, því við erum í raun eina landið þar sem er þverpólitísk samstaða um jafnrétti.“
Tekur hún sem dæmi að heimsþingið verði sett af ráðherrunum Katrínu Jakobsdóttur og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem og alþingiskonunum Kristrúnu Frostadóttur og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur.
„Um er að ræða fjórar forystukonur í stjórnmálum sem engin tilheyrir sama flokki. Það er því einstakt að þessar konur sjái slíka samstöðu gagnvart málum sem tengjast jafnrétti kynja.“ Meðal heiðursgesta verður ameríska leikkonan Ashley Judd sem flytur erindi í dag um kynbundið ofbeldi og um aðkomu sína að MeToo-byltingunni.