Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Norðurslóðir og öryggismál eru ofarlega á blaði Íslands í starfi Norðurlandaráðs, en í byrjun nýs árs taka Íslendingar við formennsku í ráðinu og hafa með höndum í tólf mánuði. Á þingi Norðurlandaráðs í Ósló á dögunum var Bryndís Haraldsdóttir kjörin nýr forseti ráðsins og Oddný G. Harðardóttir varaformaður. Mörg verkefni eru fram undan í ráðinu og þar nefnir Bryndís meðal annars að styrkja þurfi aðkomu Grænlands að norrænu samstarfi en um þátttöku í því séu ýmsar efasemdir þar í landi.
Aðlögun á hlýnandi svæði
„Ýmsum hefur þótt djarft af Íslendingum að setja varnarmál og norðurslóðir í forgang í væntanlegri formennskutíð okkar Íslendinga. Undan slíku verður þó ekki vikist,“ segir Bryndís. „Norðrið vegur æ þyngra í utanríkispólitík. Norðurslóðir eru að stórum hluta innan landamæra Rússlands, sem nú reka stríð í Úkraínu sem hefur áhrif á alla heimsmyndina. Á heimskautasvæðunum er hlýnun andrúmslofts að jafnaði fjórum sinnum hraðari en annars staðar í veröldinni, sem kallar á kröftugar aðgerðir í loftslagsmálum. Hugsanlega þarf að hraða orkuskiptum og huga að aðlögun,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, sem hefur síðustu ár verið fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis. Þá átti hún lengi sæti í Vestnorræna ráðinu, sem tekur til gagnkvæms samstarfs Íslands, Grænlands og Færeyja. Þá eiga Norðurlönd í samtali við Kanada, Rússland og Bandaríkin um norðurslóðamál í Norðurskautsráðinu.
„Þróun mála á norðurslóðum varðar veröldina alla enda sýna mörg ríki svæðinu mikinn áhuga. Kína vill opna nýja silkileið í norðri sem verður hluti af Belti og braut. Nú er stríð í Mið-Austurlöndum og Úkraínu og þangað horfir heimsbyggðin nú, en ég er þess fullviss að brátt beinist sjónir aftur að norðurslóðum,“ segir Bryndís.
Byggt á líkum gildum
Ríkin á Norðurlöndum eru fimm. Svíþjóð með liðlega 10 milljónir íbúa en Danir, Norðmenn og Finnar eru álíka margir eða um 5,5 milljónir hver þjóð. Íslendingar eru um 380 þúsund. Þá hafa Færeyjar, Grænland og Álandseyjar aukaaðild að Norðurlandaráði. Úr þessu verður samstarfið í Norðurlandaráði sem byggist á Helsingforssamningnum frá 1962. Sameiginleg gildi lýðræðis og virðing fyrir mannréttindum eru þar meginstef – auk þess sem ríkisborgurum Norðurlanda er tryggt jafnt aðgengi til vinnu og náms hvar sem er í þessum löndum. Þá eru jafnréttismál, umhverfisvernd, menning, menntun og fleira slíkt gildir þættir í samstarfinu. Alls 87 þingmenn frá framangreindum löndum eiga sæti í Norðurlandaráði, þar sem formennskan færist milli landa frá ári til árs. Nú er röðin að koma að Íslendingum, sem taka við keflinu af Norðmönnum.
„Ég hef mikla trú á norrænu samstarfinu sem ég tel henta Íslendingum vel, betur en til dæmis þátttaka í ESB sem ég er andvíg. Öll samfélögin á Norðurlöndum byggja á líkum gildum. Þegar þau tala einni röddu er vægi þeirra í alþjóðlegu samstarfi mikið. Á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló á dögunum sagði Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur að mikilvægt væri að finna leiðir sem efldu vægi Færeyja og Grænlands í norrænu samstarfi og undir þau sjónarmið tek ég,“ segir Bryndís og heldur áfram:
„Fyrir marga Norðurlandabúa tengir skandinavískan lönd saman. Fyrir okkur sem höfum önnur móðurmál hafa þau í auknum mæli orðið aðgreinandi og jafnvel hamlað þátttöku í norrænu samstarfi. Þarna þarf leiðir sem jafna stöðu þátttakenda. Því vil ég meðal annars kanna hvort nýta megi nýja máltækni sem aðstoð við þýðingar og túlkun, svo allir geti nýtt sér móðurmál sitt til samskipta. Komin í forystu Norðurlandaráðs sé ég stundum eftir því að hafa ekki sinnt dönskunni betur í skóla. Hef því tekið nokkra aukatíma til að skerpa á kunnáttunni svo þetta er allt að koma.“
Helsingsforssáttmála þarf að endurskoða
Helsingforssáttmálinn frá 1962 þykir hafa enst vel, en síðast var honum breytt árið 1996. Nú þykir vera kominn tími á endurskoðun sáttmálans, sem nú er hafin. Fundað hefur verið um málið og umræður eru líflegar, sem Bryndís segir staðfesta að norrænt samstarf skipti máli. Þingmenn bókstaflega brenni fyrir málum.
„Þegar ég segi að öryggismál verði áherslumál Íslands í Norðurlandaráði næsta árið nota ég orðið í breiðri merkingu. Öryggi getur meðal annars tengst t.d. stöðu íbúa á norðurslóðum. Þar má nefna velferðarmál, stöðu jaðarhópa af ýmsu tagi, fæðuöryggi og svo framvegis. Staða minnihlutahópa eins og hinsegin fólks þarf líka að vera í brennidepli. Þá vil ég líka nefna upplýsingaöryggi. Eins og nú árar eru fjölmiðlar um allan heim í krísu, jafnvel á risastórum málsvæðum. Þessu tengt er upplýsingaóreiða og áróðursfréttir, sem jafnvel vega að grunngildum samfélaga. Eystrasaltsríkin eru mjög útsett fyrir þessu, það er rússneskum áróðri sem reynt er að loka á. Í þessu skyni hefur víðast hvar á Norðurlöndum verið komið upp styrktarkerfi fjölmiðla sem er í sífelldri endurskoðun,“ segir Bryndís og að síðustu:
Friður í tvær aldir
„Í samstarfi Norðurlanda er styrkurinn sá að þjóðir hafa mætt ágreiningsmálum og fundið lausnir. Í samskiptum norrænna þjóða hefur ríkt friður í meira en tvær aldir. Í fáum heimshlutum hefur þetta haldist. Og á þessari farsælu vegferð má byggja þegar verkefnið fram undan er að vinna að friði og góðum samskiptum á norðurslóðum: köldu svæði sem í öðrum skilningi er heitur reitur.“
Hver er hún?
Bryndís Haraldsdóttir er fædd árið 1976, hefur menntun á sviði iðnrekstrar- og markaðsfræða og á að baki fjölbreyttan feril í atvinnulífi. Var 2010-2018 bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ og gegndi í krafti þess ýmsum trúnaðarstörfum. Hefur setið á Alþingi frá 2016 og er formaður allsherjar- og menntmálanefndar þingsins.