[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur gerir grein fyrir nánum vinasamböndum Friðriks og aðdáun hans á einstaka drengjum og eru lýsingarnar sums staðar eins og um ástarsambönd sé að ræða.

Pétur Pétursson

Ævisaga Guðmundar um séra Friðrik er í raun saga KFUM og þeirra félaga sem tengdust þessari kröftugu kristnu hreyfingu og skýringin er sú að Friðrik var lífið og sálin í henni allt frá stofnun unglingadeildarinnar í Reykjavík árið 1899.

Höfundur rekur æviferil Friðriks ítarlega og greinir frá því fólki sem hann mætir á lífsleiðinni og áhrifum þess á hann og oft hefur hann einnig heimildir um það hvaða áhrif Friðrik hafði á annað fólk. Friðrik hafði greinilega mikla persónutöfra og var ríkum hæfileikum búinn og þeim beitti hann markvisst að því lífstakmarki sem hann hvikaði ekki frá alla sína ævi eftir að hann kynntist starfi KFUM í Kaupmannahöfn þar sem hann var við háskólanám – en það var að leiða drengi til persónulegrar trúar á Jesú Krist.

Þetta verður fjöldi fólks sem minnst er á og fjallað um enda er nafnaskrá bókarinnar löng. Við lesturinn hvarflar að manni hvort ekki sé óþarfi að telja þetta allt upp, en þegar bókin er skoðuð sem heild og það tekið með að KFUM og K og skyld félög mynduðu fljótt fjöldahreyfingu er það skiljanlegt og í raun og veru einn af styrkleikum bókarinnar. Friðrik var fjölhæfur og kom víða við og hann vildi allt gera fyrir drengina sína og um fram allt forða þeim frá óhollum áhrifum bæjarlífsins – hann var í raun uppeldisfrömuður og sem slíkur var hann virtur vel af áhrifafólki en það var landlægur ótti við spillingaráhrif þéttbýlis á Íslandi. Innan hreyfingarinnar voru stofnaðar ýmsar deildir og sérhópar sem sum urðu að sjálfstæðum félögum eins og knattspyrnufélögin Valur og Haukar og karlakórinn Fóstbræður. Það var eins og Friðriki stæðu allar dyr opnar þegar hann var að þróa starfið og koma nýjungum af stað. Þegar samkomutjald vantar í Vatnaskóg gengur hann fram á Ólaf Thors og bróður hans Kjartan og viti menn‚ Ólafur hringir í tjaldgerðina og biður um að tjaldið sé saumað úr besta efni og að reikningurinn sé sendur sér.

Friðrik hafði um aldamótin 1900 hallast að kaþólskri trú og stundað barnakennslu í Landakotsskóla. En öll kaþólska var eitur í beinum danska heimatrúboðsins og KFUM og K í Danmörku og á Íslandi heyrðu undir það trúboð sem æskulýðssamtök. Uppi varð mikið fár og fuður og Friðrik kallaður til yfirheyrslu í Kaupmannahöfn. Eftir löng samtöl og marga fundi endurheimti Friðrik fyrra traust. Hann lofaði að slíta öll tengsl við kaþólikka, en fékk að halda aðdáun sinni á dýrlingatrú og rómversk-kaþólskum skilningi á altarissakramentinu. Friðrik kemur heim eftir þessa ferð með fullar hendur fjár til að halda uppbyggingarstarfinu áfram.

KFUM og K og kristniboðsfélögin sem voru nátengd voru uppeldisstöð og baráttusamtök fyrir íhaldssama lúterska guðfræði og Friðrik var þeirra maður alla tíð þótt hann ætti vini í hinum herbúðunum og forðaðist yfirleitt trúmáladeilur. Frjálslynd guðfræði lifði góðu lífi í guðfræðideild háskólans og meðal æðstu klerka kirkjunnar eins og Þórhalls Bjarnasonar frænda Friðriks sem var sá sem kallaði hann fyrst heim til æskulýðsstarfa í Reykjavík árið 1897. Fyrir þessu er gerð skilmerkileg grein í bókinni.

Fjallað er um utanferðir Friðriks og hvaða áhrif fjarvera hans hafði á starfið. Friðrik átti mikil ítök í Kaupmannahöfn og félögin þar voru fjárhagslegur bakhjarl KFUM í Reykjavík. Keypt var hús bókstaflega í miðju bæjarins, Melsteðshús, þar sem Útvegsbankinn starfaði lengi og þar bjó Friðrik með móður sinni og fóstursyni. Húsið hentaði vel og iðaði af lífi og fjölbreyttri starfsemi enda nánast öll börn og unglingar Reykjavíkur í KFUM og K. Sagt er frá kreppunni í starfinu vegna fjármálanna og sölu hússins sem Friðrik sætti sig ekki við og fór til Kaupmannahafnar og dvaldi þar í heilt ár. Öðru sinni fór hann til langdvalar í Íslendingabyggðum vestan hafs. Þriðja langdvöl hans var á fimmta áratugnum en þá tepptist hann í Kaupmannahöfn vegna stríðsins. Fjarvera Friðriks sýndi tvennt; annars vegar hve starfið byggðist mikið á persónu séra Friðriks en hins vegar að fljótt myndaðist öflugur kjarni manna sem stóðu óhagganlegir bak við félagið og héldu því gangandi meðan leiðtoginn var fjarverandi.

Guðmundur gerir grein fyrir nánum vinasamböndum Friðriks og aðdáun hans á einstaka drengjum og eru lýsingarnar sums staðar eins og um ástarsambönd sé að ræða. Vitnað er í fjölmörg einkabréf og skjalasafn Friðriks, sem varðveitt er í höfuðstöðum KFUM í Holtagörðum og hefur verið opið höfundi, en af bókinni að dæma virðist Friðrik ekki hafa farið yfir strikið í þessum nánu samböndum og stendur því enn á þeim helgistalli sem hann nauðugur eða viljugur ávann sér í lifanda lífi eftir þessa bók, sem tvímælalaust á það skilið að verða klassísk hvað varðar sögu séra Friðriks og KFUM.

Höfundur er prófessor emeritus í kennimannlegri guðfræði.

Höf.: Pétur Pétursson