Steik Það er unaðslegt að borða góðan mat.
Steik Það er unaðslegt að borða góðan mat. — Morgunblaðið/Kristinn
Það er alltaf hátíð á mínu litla heimili þegar BBC sýnir nýja Masterchef-þætti. Í nýjasta þættinum mættu þrír dómarar, þekktir matgæðingar, á svæðið til að smakka. Þetta voru alls ekki blíðlyndir og viðkvæmir einstaklingar heldur áberandi mikil…

Kolbrún Bergþórsdóttir

Það er alltaf hátíð á mínu litla heimili þegar BBC sýnir nýja Masterchef-þætti. Í nýjasta þættinum mættu þrír dómarar, þekktir matgæðingar, á svæðið til að smakka. Þetta voru alls ekki blíðlyndir og viðkvæmir einstaklingar heldur áberandi mikil hörkutól sem mættu til leiks með fremur þreytulegan svip, sem sagði manni að þeir ætluðu ekki að láta bjóða sér hvað sem er.

Ungur karlmaður, Philippe, sló rækilega í gegn hjá dómurum. Forrétturinn var hörpudisksréttur og aðalrétturinn kjúklingur með kaffisósu og alls kyns gúmmelaði. Einn dómaranna sagði að þetta væri besti matur sem hann hefði smakkað öll þau ár sem hann hefði unnið við keppnina. Félagar hans stundu af sælu. Ég varð skyndilega mjög svöng í sófanum mínum.

Annar keppandi, einnig ungur karlmaður, skalf allan tímann af taugaóstyrk. Hann virtist aldrei vita hvað hann var að gera, en alltaf bar hann fram rétti sem framkölluðu aðdáun dómara.

Fólk sem kann að elda er lánsamt. Einkennilegt er að jafn mikið og mann sjálfan langar til að verða eðalkokkur þá hefur maður aldrei komist nálægt því. Vilji er stundum ekki allt sem þarf. Maður þarf líka að hafa hæfileika.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir