Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.is „Mér finnst liggja í augum uppi að um lögbrot sé að ræða því íslensk lög banna algjörlega mismunun á grundvelli þjóðernis, bæði hegningarlögin og lög um mismunun utan vinnustaðar,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Mér finnst liggja í augum uppi að um lögbrot sé að ræða því íslensk lög banna algjörlega mismunun á grundvelli þjóðernis, bæði hegningarlögin og lög um mismunun utan vinnustaðar,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Blaðið birti um helgina viðtal við Inga Jón Sverrisson, forsvarsmann ferðaþjónustufyrirtækisins Tour.is, sem neitar nú ísraelskum ferðamönnum um þjónustu og má lesa út úr málflutningi Facebook-hópsins Bakland ferðaþjónustunnar að fleiri hyggist fara að dæmi hans og bera þar við vígaferlum Ísraela á hendur liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna Hamas á Gasasvæðinu undanfarið. Ritaði Hannes pistil á ensku á bloggsíðu sína í gær þar sem hann tíundaði álit sitt á þessum aðgerðum Inga Jóns og fleiri og kallaði siðlausar og ólöglegar.

„Þetta brot er fullframið því þessi einstaklingur, Ingi Sverrisson, segir þegar hafa neitað ferðamönnum um þjónustu og það er alvarlegra heldur en ella vegna þess að hann segir líka í viðtali við Morgunblaðið að hann sé búinn að efna til samblásturs fyrirtækja í ferðaþjónustu og það er samblástur um að brjóta lög,“ segir Hannes.

Hlutverk lögreglu og saksóknara hljóti að vera að taka á slíkum augljósum og ófyrirleitnum lögbrotum. Hannes segir aðspurður að sér sé ekki kunnugt um að sambærilegur samblástur ferðaþjónustuaðila gegn Ísraelum hafi átt sér stað í öðrum löndum. Íslensk lög séu hins vegar alveg skýr um þetta tiltekna atriði.

„Menn geta síðan haft sínar skoðanir á því hvort þeir eigi að fá að mismuna. Ég er til dæmis persónulega í hópi þeirra sem telja að menn ættu að fá að mismuna eftir ýmsum skoðunum en það breytir engu um að lögin eru alveg skýr um þetta,“ segir Hannes og vitnar því næst í ummæli Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, sem Morgunblaðið ræddi málið einnig við.

„Að hann skuli ekki treysta sér til að kveða upp úr þegar lagabókstafurinn er alveg skýr. Við hvað er hann hræddur maðurinn?“ spyr Hannes.

Hann segir að gera verði greinarmun á því annars vegar hvernig Hamas-samtökin réðust inn í Ísrael og drápu þar börn, konur og óbreytta borgara vísvitandi og hins vegar því að í stríði týna ýmsir saklausir borgarar lífi.

„Ástæðan fyrir því að fjöldi barna virðist hafa fallið er að Hamas-liðar nota börnin sem lifandi skildi, konur og börn, og ef það er eitthvað sem Íslendingar ættu að beita sér fyrir þá væri það að Hamas-liðar slepptu gíslunum lausum og hættu að nota saklaust fólk sem lifandi skildi,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson að lokum.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson