Á Boðnarmiði segir Jón Jens Kristjánsson: Ársæll telur að myglusveppur í skólum sé afleiðing klámkennslu. Sjá DV:
Kennd eru biblíufræði af fám
fortíð má ekki hygla
fræðsla af tískunni dregur dám
djarflega ýmsir sigla
afleiðing hefur það nútíma nám
nú er í mörgum hrygla
þegar var byrjað að kenna klám
kom þá jafnskjótt upp mygla.
Sigurður Garðar Gunnarsson yrkir í stað yngstu dótturdótturinnar sem elskaði egg:
Ég handlegginn um hálsinn legg
á honum afa mínum.
Spyr hann síðan áttu egg
í eldhússkápnum þínum?
Dagbjartur Dagbjartsson setur inn smá viðbót við hestavísur og minnir að þessi sé eftir Pálma Jónsson:
Aldrei þvinga þarf ég glað
þótt hann slyngur vaki.
Lappir hringar, lætur að
litlafingurstaki.
Kári Elíson Catzilla segist einu sinni hafa ort limru um turninn í Písa:
Frá upphafi einhver galli
sem eykst svo pall af palli.
Þótt aukist hallinn
er hann ekki fallinn
af stalli í öllu falli.
Helgi Ingólfsson bætir við að hægt sé að ganga einu feti framar:
Öllum mun falla að fjalla
um fallega kalla með skalla,
en varla’ á að skjalla
skallana alla:
Grallarar hallast að galla.
Á Leir orti Jón Ingvar Jónsson limru um bensín og verðbólgu:
Á Íslandi fokdýrt er flest
en finnst mér þó ranglætið mest
hvað bensínið hækkar
og buddgettið lækkar.
Ég held að ég fái mér hest.
Jón Ingvar bað menn að yrkja um Esjuna og reið á vaðið:
Akrafjall af öllu ber.
Íslands mesta prýði
meðan gamla Esja er
algjör hrákasmíði.
Björn Ingólfsson brást við:
Esjunni get ég ekki hælt
sem uppfylling minna vona.
Upp á sig hefur mig aldrei tælt
sú alræmda gleðikona.