Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í kvöldávarpi sínu í gær að Úkraínumenn þyrftu að undirbúa sig vel fyrir veturinn, þar sem líkur væru á að Rússar myndu aftur reyna að ráðast á helstu orkuinnviði Úkraínu líkt og síðasta vetur. Sagði Selenskí brýnt að verjast slíkum árásum af sem mestum mætti til að Úkraínumenn kæmust í gegnum veturinn. Benti hann á að loftvarnir Úkraínumanna væru nú sterkari en á sama tíma í fyrra, en vesturveldin lögðu mikla áherslu á að senda loftvarnarkerfi til Úkraínu eftir að árásir Rússa hófust síðasta haust.
„Því miður ver loftvarnarskjöldur okkar ekki enn allt landsvæði okkar, en við erum að vinna í að gera hann betri,“ sagði Selenskí í ávarpi sínu og skoraði jafnframt á alþjóðasamfélagið að taka undir ákall sitt um frekari loftvarnir.
Þjóðverjar tvöfalda framlagið
Ákall Selenskís kom sama dag og varnarmálaráðherra Þýskalands Boris Pistorius staðfesti að Þjóðverjar myndu tvöfalda fyrirhugaða hernaðaraðstoð sína til Úkraínu fyrir árið 2024 úr fjórum milljörðum evra í átta milljarða, eða sem nemur um 1.215 milljörðum íslenskra króna.
Þjóðverjar hafa nú þegar sent rúmlega 17 milljarða evra, eða rúmlega 2.500 milljarða króna, til Úkraínu, og hafa einungis Bandaríkjamenn varið meiru í stuðning við Úkraínumenn.
„Þetta er sterkt merki til Úkraínu, merki um að við munum ekki gefast upp,“ sagði Pistorius við ARD-sjónvarpið. Bætti hann við að tvöföldunin væri einnig viðbragð við þeirri reynslu sem Úkraínumenn hefðu fengið í gagnsókn sinni í sumar, en hún hefði sýnt að gera þyrfti ráð fyrir meiri fjármunum en áætlað væri.
Fjárlaganefnd þýska þingsins mun ræða fjárlagatillögur ríkisstjórnarinnar á fimmtudaginn og er gert fastlega ráð fyrir að tillagan um stuðning við Úkraínu verði samþykkt þar.
Verði hún að veruleika munu útgjöld Þjóðverja til öryggis- og varnarmála ná yfir 2% af þjóðarframleiðslu í fyrsta sinn, en það er það markmið sem ríki Atlantshafsbandalagsins hafa sett sér á næstu árum.