EM 2025
Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta tapaði með sjö stiga mun gegn mjög sterku liði Tyrklands í öðrum leik sínum í undankeppni EM 2025 í Ólafssal á Ásvöllum í Hafnarfirði í gærkvöld. Lokatölur urðu 65:72 í leik sem var nokkuð kaflaskiptur. Tyrkir unnu fyrstu tvo leikhlutana en Ísland vann þriðja leikhlutann. Liðin skoruðu þá jafn mörg stig í fjórða og síðasta leikhlutanum.
Íslenska liðið byrjaði leikinn af gríðarlegum krafti. Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði fyrstu sex stigin í leiknum með flottum þriggja stiga körfum áður en Tyrkir minnkuðu muninn í 6:2 og 6:4 af vítalínunni. Íslensku stelpurnar voru frábærar frá fyrstu mínútu, sýndu mikla baráttu og vilja. Þær héldu frumkvæðinu framan af fyrsta leikhluta og firnasterkt tyrkneskt lið komst ekki yfir í leiknum fyrr en langt var liðið á fyrsta leikhlutann í stöðunni 8:11, en tyrkneska liðið er í 14. sæti á heimslista FIBA.
Gestirnir leiddu 20:17 að loknum fyrsta leikhluta. Þeir náðu sex stiga forskoti í upphafi annars leikhluta og náðu að hrista þær íslensku af sér í í kjölfarið og leiddu með 13 stigum í hálfleik, 39:26.
Íslenska liðið kom feikilega öflugt inn í seinni hálfleikinn. Liðið vann þriðja leikhlutann með sex stigum en í fjórða leikhlutanum var stál í stál og naumt tap varð staðreynd.
Ungu stelpurnar öflugar
Ungu stelpurnar Ísold Sævarsdóttir, sem lék vel í sínum fyrsta landsleik gegn Rúmeníu ytra á fimmtudag, og Jana Falsdóttir, sem þreytti frumraun sína með liðinu í gær, voru báðar mjög öflugar. Þær komust báðar á blað, Ísold með 6 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar á tæpum 18 leiknum mínútum og Jana með 2 stig, 2 fráköst og 1 stoðsendingu á tæpum 9 mínútum.
Þær voru báðar gríðarlega öflugar og fastar fyrir í varnarleiknum og stundum var eins og íslensku stelpurnar væru fleiri inni á vellinum, slík var yfirferð þeirra beggja.
Jana sagði í samtali við Morgunblaðið að leik loknum að hún hefði ætlað að pirra tyrknesku stelpurnar í varnarleik sínum. „Ég hugsaði, ef ég fer inn á þá ætla ég að vera góð í vörn.“
Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 20 stig og var atkvæðamest íslensku kvennanna. Þá tók hún einnig 4 fráköst og gaf eina stoðsendingu. Thelma lék vel í fyrri hálfleik gegn Rúmeníu á fimmtudag en í gær náði hún að leika vel allan leikinn. Hún sagði í samtali við Morgunblaðið að íslenska liðið hefði ætlað að koma inn af krafti, berja aðeins á því tyrkneska og nota sálfræðina á tyrknesku stelpurnar.
„Leikplanið heppnaðist bara vel, myndi ég segja.“ Næsti leikur íslenska liðsins í undankeppninni er gegn Slóvakíu á sama tíma að ári.
Thelma sagðist vera ótrúlega spennt fyrir komandi verkefnum með landsliðinu. „Við vorum að tala um það einmitt að við værum bara til í að spila þessa leiki strax á morgun. Það er allt of langt að bíða í ár eftir þessu,“ sagði Thelma, sem metur möguleika íslenska liðsins mjög góða í riðlinum.