Sigurgeir Frímann Ásgeirsson fæddist á Hlíðarvegi 51 á Ólafsfirði 18. mars 1967. Hann lést á sama stað þann 5. nóvember 2023.

Frímann var sonur hjónanna Ásgeirs Sigurðar Ásgeirssonar, bæjarritara og útgerðarmanns á Ólafsfirði, f. 5.1. 1937, d. 24.11. 2015, og Sæunnar Halldóru Axelsdóttur, útgerðarkonu og fiskverkanda, f. 25.2. 1942, d. 12.9. 2022. Frímann átti fjóra bræður og voru þeir í aldursröð: Halldór Ingi, Ásgeir Logi, Axel Pétur og Kristján Ragnar.

Frímann var í sambúð með Ólöfu Stefánsdóttur frá Akureyri en þau slitu samvistir. Börn þeirra eru: 1) Petra, f. 7.8. 1991, í sambúð með Finni Þór Helgasyni. Synir þeirra eru Felix Helgi og Friðbjörn Axel. 2) Ásgeir, f. 13.8. 1993, í sambúð með Gerði Arinbjarnar. Börn þeirra eru Ólöf Inga og Guðni Freyr. Síðar var Frímann í sambúð með Silmöru Laetano frá Brasilíu. Þau slitu samvistir. Börn þeirra eru: 3) Saga Björk, f. 14.6. 1999. 4) Jón Logi, f. 4.5. 2001.

Frímann hóf sína framhaldsskólagöngu við Menntaskólann á Akureyri. Hann gerði hlé á henni og fór sem skiptinemi á vegum Rótarý til Ástralíu árið 1985. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum við Sund árið 1988. Eftir það lagði hann stund á nám við lögfræði við HÍ, en athafnaþráin kallaði. Hann hætti námi eftir tvo vetur til að sinna fiskkaupum, vinnslu og sölu fiskafurða. Á því sviði haslaði hann sér víða völl, fyrst á Íslandi, en bjó um tíma á Spáni, í Kína og Alaska. Sérhæfing hans á sviði fisksölu var þó í Brasilíu. Þar bjó hann um árabil, kynntist mörgu fólki, menningu þess og háttum. Var fisksala ævistarf hans alveg fram á síðasta dag.

Frímann var atkvæðamikill í rekstri fjölskyldufyrirtækisins Sæunnar Axels hf. og kom að stofnun og rekstri fyrirtækjanna Valeikur hf. og Norlandia ehf., sem er enn starfandi.

Útför Frímanns fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 13. nóvember 2023, klukkan 13.

Elsku pabbi okkar.

Við munum sakna þess að geta hringt í þig og talað um lífið og tilveruna. Þú varst alltaf til staðar ef okkur lá eitthvað á hjarta, en oft þótti okkur bara nóg að hlusta á þig tala um hvað þér gengi vel að selja fisk.

Þú varst fyndinn, klár, hugmyndaríkur og góður maður.

Við vitum að þú talaðir mikið um hvað þú varst stoltur af öllum börnunum þínum og við vonum að þú vitir að við vorum líka stolt af þér.

Manst hver elskar þig.

Petra, Ásgeir, Saga Björk og Jón Logi.

Elsku Frímann.

Það var alltaf svo notalegt að koma í heimsókn til þín, sitja í rólegheitum, drekka kaffi, spjalla og jafnvel fara í sund þar sem þér fannst svo gott að vera. Ólafsfjarðarsundlaugin verður alltaf sundlaugin hans afa Frímanns.

Þú talaðir alltaf svo vel um börnin þín og varst svo stoltur af þeim öllum sem gerir mig enn þá stoltari af að hafa nælt mér í hann Ásgeir þinn. Ég er svo þakklát fyrir stundirnar okkar og að þú hafir fengið að kynnast börnunum okkar. Ólöfu Ingu fannst alltaf svo gaman að hringja í afa Frímann, hún var alveg með það á hreinu að afi Frímann elskaði fjólubláan og það gerir Ólöf Inga líka.

Hvíldu í friði, elsku tengdapabbi, við munum sakna þín mikið.

Gerður Arinbjarnar.

Ertu þá farinn – ertu þá farinn frá… Þetta er brött byrjun á minningargrein en hvernig er hægt að nálgast brottför yngri bróður á annan hátt? Í mínu lífi var hann yfir, undir og allt um kring. Sá skemmtilegasti og viðræðubesti, sá erfiðasti og þrætugjarnasti (þegar hinn karlinn kom í heimsókn). Sú besta sál sem ég hef á ævinni umgengist.

Jákvæðni, dugnaður og vilji til góðra verka. Þetta eru orðin sem fyrst koma í hugann, þegar hugsað er til Frímanns bróður míns. Hann var ekki nema 11 ára gamall þegar hann sá um flatningsvélina hjá Magga Gam og fór létt með. En – þegar honum var sagt að hann fengi ekki sama kaup og 14 ára rollingarnir sem þarna voru, þá pakkaði minn maður saman svuntu sinni og fór heim. Þetta ætlaði hann ekki að láta yfir sig ganga. Var svo sóttur af verkstjóra salthússins er allt fór í stopp og sæst á launaaukann, meira að segja færður upp á 16 ára taxtann!

Svo komu gönguskíðin, æfingar og keppnir og trillan Kristján ÓF 51. Frímann var rótfiskinn. Aldrei gerðist neitt það að hann þyrfti aðstoð eða hjálp frá öðrum í þessu útgerðarbrasi. Síðan komu framhaldsskólaárin, skiptinám í Ástralíu og lífið „full force“.

Frímann bróðir minn gekk ekki heill til skógar hvað líkamlegt atgervi varðaði. Hann glímdi við heilsubrest frá unga aldri sem lyktaði fyrst með því að hann missti ristilinn og fékk stómíu 19 ára gamall. Þetta var mikið áfall fyrir ekki eldri mann en, hann tók harm sinn út í hljóði hvað þetta varðaði. Það var sérstakt að standa í sturtunum í Árbæjarlauginni á sínum tíma, með börnin okkar ung, og að okkur komu ungmenni sem híuðu og hlógu að pokanum er hann bar á kvið sínum. Hvernig hann brást við lýsir honum svo vel: „Strákar mínir, þið megið koma og skoða þetta betur ef þið viljið. Ég vona bara að þetta sé eitthvað sem þið þurfið ekki að upplifa sjálfir.“ Hvernig var hægt að bregðast betur við?

En – svo komu áföllin. Skilnaðir. Gjaldþrot fjölskyldufyrirtækisins. Bakkus.

Hann átti fjögur börn úr tveimur samböndum, allt mjög gervilega einstaklinga. Síðan eru komin fjögur barnabörn sem hann fylgdist vel með. Börnin slepptu föður sínum aldrei langt frá sér, þó svo að „hinn karlinn“ tæki sér bólfestu hjá bróður mínum um lengri eða skemmri tíma. Fyrir það er ég þeim þakklátur og ég veit að það var þeim ekki alltaf auðvelt. En sambandið, bæði þeirra á milli og við hann, var ótrúlega fallegt.

Eftir síðustu Brasilíudvöl sína bjó Frímann hjá móður okkar síðustu árin hér í Ólafsfirði. Eftir að mamma kvaddi varð bróðir hreinlega einmana. Hann var einn í þessu stóra húsi og hafði engan til að tipla á bremsurnar, þegar úr hófi keyrði.

Ég á eftir að sakna símtalanna, smáskilaboðanna og samtalanna heima í stofu hjá þér. Það verður tómarúm í mínu lífi næstu misserin og spurning hvernig í það verður fyllt. Ég veit að það verður vel á móti þér tekið hinum megin og er það mér huggun. Að öllu þessu sögðu, hvernig kveður maður „litla“ bróður sinn á annan hátt en: Far í friði bróðir sæll. Þín er sárt saknað.

Ásgeir L. Ásgeirsson.

Elsku Frímann, hvað mér þykir vænt um þig og hefur alltaf gert. Ég vildi óska þess að við hefðum eitthvað við hlutina ráðið. Þetta var alltaf alveg að hafast hjá okkur. Ég hugsa um góðu stundirnar sem við fengum með þér, þú varst svo skemmtilegur og góður þegar þú varst þú sjálfur. Þetta er Frímann sögðum við. Raunar varstu svo mikill snillingur að ég íhugaði nokkrum sinnum að mæta með glósubók og nóta niður allt það sem þú sagðir. Og í eitt skiptið gerði ég það, manstu? Frímann, þú varst kóngur í þínu lífi og þú gast verið sjálfum þér verstur. Eitt máttu þó vita að þú áttir hjörtu okkar allra í fjölskyldunni. Mundu að við lifum fyrir minningarnar og mundu … að við elskum þig líka.

Ég kveð þig í sama tón og þú kynntir þig fyrir erlendu fólki þegar þú sagðir: „I'm Free-man.“ Þú ert frjáls, Frímann minn. Fljúgðu og láttu engan stoppa þig.

Þín litla frænka,

Gulla.

Gunnlaug.

Frímann. Takk vinur. Það var heiður að fá að kynnast þér. Án þín og þinnar fjölskyldu væri ég og mín fjölskylda ekki á svona góðum stað.

Vá, hvað ég á eftir að sakna þín!

Öll símtölin, öll þín ráð og allar minningarnar sem við eigum saman. Þú átt stóran part í mér og varst einn besti vinur minn. Takk, takk, þú varst perla, og eins og þú varst vanur að segja: „Blessaður maður.“

Þinn vinur,

Ísak (Jakinn).

Minn kæri vinur Frímann Ágeirsson er fallinn frá, langt fyrir aldur fram.

Líklega er enginn maður, lifandi eða dáinn, sem hefur haft meiri áhrif á líf mitt en Frímann og fjölskylda hans. Leiðir okkar lágu saman þegar ég var að koma til Íslands eftir ársdvöl í Nepal en Frímann var að koma frá Ástralíu eftir ársdvöl þar. Við komum því báðir til náms í þriðja bekk í Menntaskólanum við Sund ári of seint. Þar vorum við saman í skóla í tvö ár. Urðum strax miklir félagar. Ég var að rembast við þennan skóla utanskóla, vantaði alltaf einhvern aur. Frímann sá það og vissi en sá aumur á mér. Við fórum því saman reglulega til Ólafsfjarðar og flöttum fisk þegar togari sem fjölskyldan átti kom til löndunar. Við keyrðum því reglulega norður, unnum í u.þ.b. sólarhring og keyrðum svo aftur heim. Þar kynntist ég Ásgeiri og Sæunni, foreldrum Frímanns. Ég heillaðist af þessu; að sjá fólk vinna í sveita síns andlits. Allir svo samhentir. Þetta var mér alveg nýtt.

Einu sinni þegar menntaskólagöngunni var lokið áttum við Frímann að hittast og fara saman í Atlavík um verslunarmannahelgi. Þegar ég kom norður fann ég að eitthvað var ekki eins og átti að vera. Ég spurði Frímann hvað væri að. Þá kom í ljós að hann var með bullandi samviskubit. Það höfðu verið miklar brælur vikurnar á undan en nú spáði vel. Hvað er þetta, sagði ég, það verða alltaf verslunarmannahelgar en ég hef aldrei farið á skak! Svo það varð úr að ég fór á sjóinn með Frímanni, fyrstu kynni mín af sjó. Við rerum frá Grímsey. Ógleymanleg verslunarmannahelgi.

Það er því Frímanni Ásgeirssyni að kenna/þakka að ég stofnaði fyrirtæki tengt sjávarútvegi. Frímann og foreldrar hans smituðu mig af þessari ólæknandi veiru. Ekki hjálpuðu kynni mín af ömmu hans Frímanns, sem sendi mig, ræfilinn, alltaf með fiskibollur suður. Enda sá hún að ég væri ekki mikill að manni og þyrfti greinilega aðstoð. Eftir menntaskólann slitnaði smám saman á milli okkar, bæði var Frímann kominn í einhver verkefni í öðrum heimsálfum en svo var hugur hans fullbundinn við samneyti við Bakkus. Við töluðum þó oft saman og bara síðast í þessum mánuði.

Ég mun sakna Frímanns á meðan ég dreg andann, en ég vil þakka honum og fjölskyldu hans fyrir sitt framlag. Þau gerbreyttu lífi mínu.

Fjölskyldu hans og öllum sem eiga um sárt að binda sendi ég samúðarkveðjur.

Þórður Áskell Magnússon.

Frímann, Frímann. Það voru orðin sem mér tókst að koma út úr mér þegar ég heyrði að Frímann Ásgeirsson væri dáinn, maður á miðjum aldri, aldraður miðað við lifnað, ungur og ljúfur sem sálin.

Ég þekkti ekki drenginn framan af, enda var hann miklu yngri. Í þá daga var heils árs munur ljósár. Við, þessir stóru, litum niður á þá litlu. Það var ekki fyrr en við skriðum á efri ár að vinátta tókst með okkur. Og reyndumst jafnaldrar í hinu og þessu. Þó ekki öllu. Þar tók hann rækilega fram úr mér.

Þá var hann búinn að prófa eitt og annað og nenni ég ekki að fara út í það kristilega sálnaregistur. Látum nægja að segja að hann varð ekki reynslunni ríkari.

Eina sem ég veit er að Frímann Ásgeirsson lifði til fulls en var þó aldrei fullur. Hann var oft drukkinn, en aldrei fullur. Oft var hann steiktur, en aldrei fullur. Hann lifði margt, en aldrei fullur. Fullur af hamingju. Ég hitti hann oft drukkinn og þekkti Frímann, hann þekkti mig, við vorum vinir. Ég hafði áhyggjur. Hann ekki. Svo sagði hann. En innst inni hafði hann áhyggjur. Hann var hræddur. Mín niðurstaða: hann var einmana.

Örlögin haga því svo að upp úr 1960 voru fjórir ungir menn að fóta sig í lífinu í Ólafsfirði, allir kornungir fjölskyldumenn, allir giftir, margkrossaðir feður. Það var pabbi, Jón Þorvaldsson (2 börn), það var Ásgeir Ásgeirsson (d. 2014), faðir nefnds Frímanns (5 börn, 4+1), Gunnar Sigvaldason (3 börn) og Kristinn G. Jóhannsson (3 börn). Títtnefnd örlög haga því svo að allir þessir vinir urðu fyrir þeirri lífsreynslu ásamt konum sínum að missa barn, allt drengi. Nú hefur Ásgeir missti annan son sinn, þótt þeir hefðu allir verið lifandi þegar hann sjálfur dó. Mér finnst þetta punktur í ljósi allra dauðsfallanna sem dynja á okkur.

Frímann hefur sjálfsagt ekki verið að hugsa um þetta þegar hann hér um árið sendi íslenskri þjóð reglulega allskyns skilaboð á Facebook lóðbeint frá Brasilíu, og var ekkert að athuga hvort einhver væri vakandi hérna megin, enda tímamunurinn ærinn. En þannig var Frímann, stundum einn í heiminum, þá meina ég alvöru einn, enda einmana, alveg sama hvað öðrum fannst, sjálfstæður, einstæður, fjarstæður, ógjarn um eigin hag, hvað þá heilsu, enda var það heilsan sem yfirgaf hann, og undir það síðasta stendur enginn uppréttur heilsulaus.

Við Frímann áttum löng samtöl síðasta vetur. Þar sagði hann mér eitt og annað um ævi sína og æsku, líf sitt og feril, pabba og mömmu, bræður sína og börn. Maður heyrði langt inn í kvikurætur hvað honum þótti vænt um fólkið sitt, foreldra, bræður og börn, og kom fyrir að brást rödd þegar gráturinn og eftirsjáin voru að taka völd. Alltaf kom hann þó til baka, ekki endilega til að sanna karlmennsku, heldur ljúka setningunni.

Farðu í friði, vinur minn Frímann. Ég vildi óska þess að þú hefðir hugsað betur um sjálfan þig. Þá stæðum við ekki hér í dag. Það er hægt að sjá eftir öllu en ekki er hægt að breyta því sem liðið er. Og við ráðum ekki öllu. Því er nú fjandans verr, en það voru síðustu orðin sem okkur fóru á milli: því er nú fjandans verr.

Helgi Jónsson.