Sviðsljós
Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
Um leið og Boston Consulting Group fór af stað spurði Skelrækt hvort ekki væri hægt að taka skelræktina með í úttekt fyrirtækisins. Júlíus B. Kristinsson, formaður stjórnar Skelræktar, fór svo fyrir okkar hönd á kynningarfundinn þegar skýrslan var kynnt og þegar kom að spurningatíma kom bara ein spurning og það var spurningin frá Júlíusi, hvers vegna þetta hefði ekki verið tekið með í þessari skýrslu,“ segir Sævar Ingi Reynisson skelræktandi og bætir við að þá hafi einn af ráðuneytisstjórunum svarað því að þetta hefði snúist um að forgangsraða.
„Þeim fannst áhugaverðara að skoða möguleikana í þörungarækt heldur en skeldýrarækt sem eru náttúrulega á gjörólíkum stað í þjóðfélaginu í dag. Það eru miklu, miklu meiri möguleikar í skeldýrarækt og vinnan í kringum hana er miklu lengra komin heldur en nokkurn tíma í þörungaræktinni,“ segir hann. Skelrækt er samtök skelræktenda og er tilgangur þeirra að vinna að hagsmunum skelræktenda, kynna greinina og stuðla að vexti skelræktar á Íslandi. „Félagar í Skelrækt eru ýmist þeir sem hafa verið í skeldýrarækt eða eru að vonast til þess að geta byrjað í skeldýrarækt,“ segir Sævar.
Af hverju er skeldýrarækt skilin út undan?
Matvælaráðuneytið birti nýlega stefnu um lagareldi í samráðsgátt stjórnvalda og er hún sett til ársins 2040. Stefnan tekur á öllu lagareldi og byggist á úttekt sem Boston Consulting Group gerði fyrr á þessu ári en hvorki í henni né í stefnunni er minnst á skeldýrarækt. Gerði Matvælastofnun meðal annars athugasemd við bæði þessi skjöl í sínum umsögnum. Líkt og áður hefur komið fram er staðan sú að enginn ræktar krækling til sölu á markaði lengur hér á landi. Þegar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra var innt eftir því á dögunum hvort til greina kæmi að endurskoða lögin um skeldýrarækt frá árinu 2011, svo greinin gæti lifnað við hér á landi á nýjan leik, svaraði hún því til að engin ákvörðun hefði verið tekin um að endurskoða þá löggjöf en hún teldi tækifæri vera í skeldýrarækt á Íslandi.
Þarf að byrja á viðhorfinu
Spurður að því hvort félagar Skelræktar séu bjartsýnir á að hægt sé að byggja greinina upp að nýju svarar Sævar því játandi. „Já, algjörlega. Þetta er eingöngu spurning um að stjórnvöld vakni. Það er engin spurning að skeldýrarækt á eftir að verða stór atvinnuvegur á Íslandi. Ég get bara ekki svarað því hvort það verði á næsta ári eða eitthvað lengra fram í tímann en möguleikarnir í skeldýrarækt eru gríðarlegir hér á landi.“
En hvað telur Sævar þá að helst þurfi að breytast?
„Það þarf náttúrulega að byrja á viðhorfinu. Það er látið eins og við séum ekki til og á meðan matvælaráðuneytið svarar ekki fyrirspurnum, vill ekki taka okkur með í rannsóknir, þá breytist ekkert. Mér hefur verið sagt að þessi skýrsla frá Boston Consulting Group hafi kostað um 90 milljónir og þeir láta eins og við séum ekki til. Þessi skýrsla snýst eingöngu um laxeldi en ég þori að fullyrða að ef áhugi væri fyrir hendi þá gætu á fáum árum orðið ekki minni atvinnumöguleikar í kringum kræklingarækt hér á Íslandi en í laxeldinu.“
Gríðarleg atvinnutækifæri
Tekur Sævar Nýja-Sjáland sem dæmi en þar tóku ræktendur og stjórnvöld höndum saman og byggðu upp kræklingaeldi á 15 árum.
„Þeir fóru úr 15.000 tonnum í 100.000 tonn, að mig minnir. Það sama er hægt að gera hér á landi. Ef við tækjum höndum saman þá gætum við verið komin í 100.000 tonn í kræklingarækt þó ég ætli ekki að segja nákvæmt ártal. Atvinnutækifærin eru ekki talin í hundruðum starfa heldur í þúsundum starfa hérna úti á landsbyggðinni.“
Að sögn Sævars gáfust þeir upp á að rækta í ágúst 2021 eftir að hafa reynt í átta mánuði að benda Matvælastofnun á að eitursýnatökukerfið fyrir skelina virkaði ekki lengur. „Það gekk ekki eftir að England gekk úr ESB og við létum vita að þetta gengi ekki fyrr en þeir væru búnir að finna annan sýnatökuaðila, en á þeim tíma vorum við að senda sýni til Írlands. Það tók Matvælastofnun fimm mánuði frá því að við, eini skelræktandinn á Íslandi, segjum stopp og gefumst upp, að finna annan sýnatökuaðila. Þegar eitthvað var að hjá mér fékk ég 14 daga til að laga það en þarna tók það Matvælastofnun fimm mánuði að laga það sem var að hjá þeim. Við höfum bara ekki treyst okkur af stað síðan þá,“ segir hann.
„Ég er þó ekki í minnsta vafa um að ef farið er í þetta saman, ráðuneytið, við og Matvælastofnun, er Matvælastofnun tilbúin til að leysa þau vandamál sem eru uppi á borðinu. Möguleikarnir í þessu eru svo ótrúlegir að það er bara með ólíkindum að stjórnvöld skuli ekki átta sig á þessu. Þú finnur ekki matvöru sem gefur minna sótspor.“