Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Harðir bardagar geisuðu í Gasaborg í gær, þar sem Ísraelsher sótti fram gegn hryðjuverkasamtökunum Hamas í borginni. Var óttast að helstu sjúkrahús borgarinnar gætu lent í hringiðu átakanna, en Ísraelsmenn hafa sakað Hamas-samtökin um að hafa byggt helstu höfuðstöðvar sínar í undirgöngum í næsta nágrenni við al-Shifa, stærsta sjúkrahús Gasasvæðisins.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO sagði í gær að stofnunin hefði misst allt samband við starfsmenn sjúkrahússins og lýsti yfir „þungum áhyggjum“ af öryggi starfsmanna og sjúklinga. Þá sögðu talsmenn Al-Quds-sjúkrahússins, næststærsta spítala Gasaborgar, að eldsneytisbirgðir þess væru á þrotum, en það er nýtt fyrir varaaflstöðvar sjúkrahússins.
Hamas helsti þröskuldurinn
Richard Hecht, undirofursti og einn af talsmönnum Ísraelshers, sagði í gær að Hamas-samtökin væru eini þröskuldurinn í vegi þess að sjúkrahúsin fengju eldsneyti, þar sem herinn hefði m.a. reynt að senda 300 lítra af eldsneyti til al-Shifa-sjúkrahússins, sem ekki hefðu verið sóttir.
Þá hefði herinn einnig boðist til þess að flytja ungbörn af sjúkrahúsunum í öruggt skjól, en mannréttindasamtök sögðu um helgina að tveir fyrirburar hefðu dáið þar sem ekki var hægt að halda hitakössum þeirra gangandi. Talsmenn Hamas neituðu því hins vegar að Ísraelsher hefði boðið brottflutning af sjúkrahúsunum.
Enn möguleiki á lausn gíslanna
Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels sagði í gær við fréttastofu NBC-sjónvarpsstöðvarinnar að enn væri möguleiki á samkomulagi um lausn gíslanna sem Hamas-samtökin tóku í árás sinni 7. október sl., en áætlað er að um 240 manns séu enn í haldi samtakanna á Gasasvæðinu.
Netanjahú vildi hins vegar lítið segja um efni slíks samkomulags, þar sem ótímabærar yfirlýsingar gætu dregið úr líkunum á því að samkomulag næðist.