Ásta Sigríður Guðlaugsdóttir fæddist 24. júní 1938 í Laxholti í Borgarfirði. Hún lést 31. október 2023.
Móðir hennar var Valgerður Hannesdóttir, f. 25. apríl 1900, d. 13. mars 1985. Faðir hennar var Guðlaugur Unnar Guðmundsson, f. 24. febrúar 1902, d. 21. september 1989. Systkini hennar eru Hannes Karl, látinn, Dóra Unnur, látin, Ásdís, látin, Valdimar, látinn, Guðmundur, látinn, Júlíus, látinn, og Gunnar, látinn, og Hreinn sem einn lifir.
Maki Ástu var Þorbjörn Sigurðsson skipstjóri, f. 29. ágúst 1938. Hann lést af slysförum 10. febrúar 1984.
Útförin fer fram frá Lindakirkju í dag, 13. nóvember 2023, klukkan 13.
Ágúst 1973. Við fjölskyldan fluttum inn í Vesturbergið og ég átti mín fyrstu kynni af Ástu og Þorbirni. Og þvílíkur happafengur með nágranna. Yndislegri hjón hefði lítil fjögurra ára stelpa ekki getað hugsað sér. Ég varð strax mjög hænd að þeim hjónum og sérstaklega Ástu sem var mikið ein þegar Þorbjörn var á sjó. Hún tók mér, þessu litla stelpuskotti, einstaklega vel og átti ég ófáar stundirnar hjá Ástu á mínum æskuárum. Mér er einstaklega minnisstætt að þau gáfu mér dúkku í afmælisgjöf þegar ég varð fimm ára og ég var ekki lengi að nefna hana: Ásta Þorbjörg skyldi hún heita og fylgdi hún mér um allt næstu árin. Einnig byrjuðu þau að gefa mér þjóðbúningadúkkur frá þeim löndum sem þau heimsóttu og á ég í dag veglegt safn sem ég geymi enn.
Að fá að skoða öll ilmvötnin sem hún hafði safnað í gegnum árin og Þorbjörn hafði fært henni frá hinum og þessum löndum fannst mér mjög spennandi og gat ég setið lengi að skoða, enda voru þau vel á annað hundrað.
Ásta hafði alltaf nóg af þolinmæði fyrir mig og sat ég oft hjá henni í eldhúsinu og við spjölluðum um allt sem okkur datt í hug. Ég fékk að hjálpa til við bakstur sem mér þótti mjög gaman og var Ásta mjög góður bakari. Lagtertan með bleika kreminu kemur fyrst upp í hugann.
Það var mikill sorgardagur þegar Þorbjörn dó langt fyrir aldur fram fyrir rétt tæpum 40 árum. Þann sama dag kláraði ég samræmdu prófin og var hin kátasta þegar Ásta bankaði á dyrnar og sagði okkur fréttirnar. Mér var snarlega kippt niður á jörðina og man ég þennan dag ennþá og sorgina sem fylgdi fréttunum.
Ásta og mamma náðu mjög vel saman og leið varla sá dagur frá 1973 að Ásta kæmi ekki yfir í kaffi í Vesturberginu og síðar þegar mamma var orðin ein og pabbi dáinn voru þær báðar komnar í Lautasmárann, hvor á sína hæðina. Þessi mikli samgangur sem hófst 1973 hélt því áfram alla tíð og höfðu þær báðar gott af samneytinu hvor við aðra. Ásta reyndist mömmu mjög vel í hennar veikindum og áttum við systkinin henni mikið að þakka fyrir aðstoðina fram að andláti mömmu.
Við Ásta vorum báðar krabbar og bara tveir dagar á milli afmælanna okkar og það var margt mjög líkt með okkur. Kannski tengdi það okkur meira saman. Ég átti það til að kíkja í pottana báðum megin í Vesturberginu og velja svo hvorum megin ég borðaði kvöldmatinn. Ég var alltaf velkomin hjá Ástu og hún var mér og minni fjölskyldu mjög kær.
Ef ég var spurð af vinum hver þessi kona væri þá kynnti ég hana alltaf sem hina mömmuna mína sem segir allt sem segja þarf um okkar einstaka samband.
Ég kveð í dag einstaka konu sem á mjög sérstakan stað í hjarta mér og minning hennar mun fylgja mér um ókomna tíð. Ég minnist sterkrar og ákveðinnar konu sem var hrein og bein, góðhjörtuð og einstakur vinur.
Allar stundir okkar hér
er mér ljúft að muna.
Fyllstu þakkir flyt ég þér
fyrir samveruna.
(Har. S. Mag.)
Elsku Ásta, takk fyrir allt sem þú varst mér.
Silja.