Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Boðuðum breytingum á gjaldskrá leikskólanna á Akureyri er mótmælt í ályktun sem stéttarfélögin þar í bæ hafa sent frá sér. Aðgerðir meirihluta bæjarstjórnar í málinu feli að mati félaganna í sér skerta þjónustu. Nýtt fyrirkomulag er með þeim hætti að vera barna í leikskóla er gjaldfrjáls sex stundir á dag, það er milli kl. 8 og 14. Þetta telja stéttarfélögin vera blekkingu, því gjald fyrir þjónustu sem um 95% foreldra nýti sér hækki allverulega um áramótin. Þessi útfærsla muni koma barnafólki illa, sama hvar það er staðsett í tekjustiganum.
„Fólk með fasta viðveru á lægri launum með mörg börn hefur ekki sama sveigjanleika nema minnka við sig vinnu og eru konur mun líklegri til að minnka við sig starfshlutfall til að þurfa ekki að greiða fyrir viðbótartímann. Það er mikið og erfitt kjaftshögg eftir frábært kvennaverkfall að Akureyrarbær sé að pressa á konur til að vera í hlutastörfum,“ segja stéttarfélögin sem telja að með þessu sé innleidd gjaldtaka sem stuðli að ójafnrétti kynjanna.
„Stéttarfélögin mótmæla einnig harðlega að almennar álögur á bæjarbúa munu hækka um 9% um næstu áramót. Þetta er mjög vont innlegg í vaxta- og verðbólguumhverfið sem við búum við í dag og hvetjum við því Akureyrarbæ til að endurhugsa þessar hækkanir og sýna ábyrgð í baráttunni við að ná niður vöxtum og verðbólgu,“ segja stéttarfélögin sem hafa aðsetur í Alþýðuhúsinu við Skipagötu á Akureyri og eru sjö. Fjölmennast er Eining – Iðja. Af öðrum má nefna Félag verslunar- og skrifstofufólks og Kjöl, félag starfsmanna í almannaþjónustu.