IKEA hefur lækkað verð í ýmsum vöruflokkum að undanförnu og til stendur að halda verðlækkunum áfram á næsta ári, að sögn Guðnýjar Camillu Aradóttur verslunarstjóra.
IKEA lækkaði nýlega verð í Þýskalandi og kom fram hjá fyrirtækinu að það væri viðleitni til að sporna gegn verðbólgu í landinu. Guðný segir að verðlækkanir fyrirtækisins á Íslandi tengist ekki beint því sem er að gerast þar en aðstæður hafi skapast til að lækka verð á ný á einhverjum vörum.
„Nú er komið að þeim tímapunkti að svigrúm hefur skapast til að lækka verð aftur eftir ýmsar áskoranir á síðustu árum eins og við þekkjum. Við erum byrjuð að lækka verð á Íslandi og höfum lækkað verð á yfir hundrað vörum. Við sjáum framhald á þeirri þróun og erum að skoða hvað hægt sé að gera í öllum vöruflokkum.“
Þegar heimsfaraldrinum sleppti tók við verðbólga í Evrópu eftir innrás Rússa í Úkraínu.
„Aðfangakeðjan hefur lagast og jafnað sig að einhverju leyti. Hráefni hefur lækkað í verði en hækkaði mjög mikið um tíma. Smám saman hefur tekist að finna leiðir til að hagræða í framleiðslukostnaði. Vonandi verður hægt að halda áfram á þessari braut og við sjáum fyrir okkur að geta haldið áfram að lækka verð á næsta ári. Það er stefnan og við fundum vikulega til að athuga hvað sé hægt að gera. Auðvitað eru einhverjir óvissuþættir og hjá okkur hafa til dæmis gengisbreytingar áhrif,“ segir Guðný. kris@mbl.is