— Morgunblaðið/Guðlaugur Albertsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölmenningarhátíð Tálknafjarðarskóla var haldin í þriðja sinn í síðustu viku og var öllum í samfélaginu boðið til samkomunnar. Hátíðin er lokaafurð í námslotunni Matarmenning en Tálknafjarðarskóli vinnur skv

Guðlaugur Albertsson

gullialla@simnet.is

Fjölmenningarhátíð Tálknafjarðarskóla var haldin í þriðja sinn í síðustu viku og var öllum í samfélaginu boðið til samkomunnar. Hátíðin er lokaafurð í námslotunni Matarmenning en Tálknafjarðarskóli vinnur skv. námsvísi sem er útfærsla á megináherslum aðalnámskrár.

Sjálfbærni og sköpun

Námsvísinum er skipt niður í sex lotur út frá grunnþáttum menntunar. Þá er hver lota einnig tengd lykilhæfni aðalnámskrár, heimsmarkmiðum UNESCO og verkefni Grænfánans. Loturnar eru 5-6 vikur að lengd og eru námsgreinar samþættar. Matarmenning er námslota sem fellur undir grunnþáttinn sjálfbærni og lykilhæfnina skapandi og gagnrýnin hugsun.

Alþjóðamatvæladagur UNESCO var einnig nýttur í tengslum við lotuna og í Grænfánastarfinu var unnið matarsóunarverkefni þar sem nemendur mældu hversu mikinn mat hver hópur skólans sóaði eftir hádegismatinn. Allir þessir þættir eru fléttaðir inn í kennsluáætlun lotunnar ásamt nær öllum námsgreinum. Ákveðin áhersla er lögð á sérstakar námsgreinar í hverri lotu; að þessu sinni stærðfræði, heimilisfræði, hönnun og smíði, upplýsinga- og tæknimennt og náttúrugreinar.

Völdu sér áhugaverð lönd

Þemað á þessari fjölmenningarhátíð var matur og menning þar sem nemendur fengu tækifæri til þess að ferðast rafrænt um heiminn og velja sér áhugaverð lönd sem þeir vildu vinna nánar með í tengslum við matarmenningu þjóðar. Verkefni nemenda var að kynna sér eitt land og helstu grunnupplýsingar um land og þjóð, síðan áttu þeir að kynna sér matarmenninguna nánar og þá rétti sem eru vinsælir eða einkennandi fyrir landið. Í lokin var svo nemenda að velja sér einn rétt sem þeir vildu bjóða gestum og gangandi upp á. Nemendur áttu einnig að búa til vörumerki sem einkenndi vöruna sem þeir buðu upp á með tilvísun í landið eða réttinn.

Tilgangur hátíðarinnar er að fagna fjölbreytileika samfélagsins og kynnast mismunandi þjóðarbrotum heims. Fjölmennt var á hátíðinni og voru gestir sérstaklega ánægðir með gæði matar og fjölbreytni. Nemendur skólans frá eins árs upp í 16 ára kynntu sinn rétt og skömmtuðu gestum á diska.

Rússneskt stroganoff og ítalskt spaghetti

Þeir réttir sem boðið var upp á voru meðal annars: stroganoff frá Rússlandi, fiskur og franskar frá Bretlandi, spaghetti frá Ítalíu, hunangskjúklingur frá Ástralíu, cevapi-pylsur frá Serbíu, eplakaka frá Færeyjum, sykraðir ávextir frá Kína, mochi frá Japan, kanilsnúðar frá Svíþjóð, brauð frá Póllandi og svo til að toppa allt saman gerðu leikskólabörnin kókoskúlur.

Margir erlendir ríkisborgarar á Tálknafirði

Allir gestirnir fóru saddir og sælir heim eftir dýrindis hlaðborð af nýjum og spennandi réttum sem margir voru að prófa í fyrsta skipti. Nemendur voru alsælir með þátttökuna og stóðu sig vel í þjónustuhlutverkinu. 40 nemendur ásamt leikskólabörnum eru í Tálknafjarðarskóla í vetur.

Alls eru íbúar í Tálknafjarðarhreppi nú 260 talsins. Þar af eru erlendir ríkisborgarar rúmlega fjórðungur eða 70 talsins. Þetta er í fylgni við hvað gerist víða annars staðar á Vestfjörðum; fólk af erlendum uppruna er stór hluti íbúa og segja má að víða haldi þetta fólk uppi grunnatvinnuvegunum; raunhagkerfinu svonefnda. Í byggðum vestra hafa á stundum verið haldnar þjóða- eða fjölmenningarhátíðir til að vekja á athygli á framlagi nýrra íbúa frá fjarlægum löndum til samfélagsins. Slíkt hefur mælst vel fyrir, rétt eins og fjölmenningarhátíðin á Tálknafirði vitnar um.

Höf.: Guðlaugur Albertsson