Finnur Valdimarsson fæddist 15. september 1936 í Hlíð í Álftafirði í Ísafjarðardjúpi. Hann lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg 27. október 2023.

Foreldrar hans voru Valdimar Veturliðason frá Víðidalsá í Strandasýslu, f. 21.7. 1909, d. 21.9. 1992, og Guðrún Kristjánsdóttir frá Súðavík, f. 11.6. 1902, d. 8.6. 1986. Finnur var einn af tólf systkinum, sammæðra voru: Kristján Hólm Friðriksson, f. 15.2. 1923, d. 3.10. 1946, og Guðmundur Björn Friðriksson, f. 11.12. 1926, d. 3.10. 1946, og alsystkinin Fríða Hólm, f. 14.11. 1931, Ari, f. 19.2. 1933, d. 28.4. 2022, Helga, f. 15.7. 1934, d. 29.6. 2018, Finnur Ingólfur, f. 30.7. 1935, d. 9.10. 1935, Gunnar Valdimar, f. 20.1. 1938, d. 14.11. 1981, Pétur f. 12.5. 1940, d. 11.7. 2023, Sigurður Þórður, f. 23.5. 1941, d. 12.12. 2007, Haraldur, f. 27.9. 1943, d. 21.1. 2018, og Þórdís Sólveig, f. 4.8. 1945.

Finnur giftist hinn 27. september 1957 Ingibjörgu Jónu Gilsdóttur, f. í Reykjavík 15.5. 1940, d. 30.11. 2020. Dætur þeirra eru: 1) Rannveig, f. 1956, eiginmaður hennar er Kristján Þormar Gíslason, f. 1955, og eiga þau fjögur börn. Þau eru: a) Finnur, eiginkona Lena Johanna Reiher og eiga þau þrjú börn. b) Svanhildur, sambýlismaður Claus Henrik Holm og á hann tvö börn. c) Fannar Þór. d) Ívar Orri, eiginkona Harpa Jónsdóttir og eiga þau þrjú börn. 2) Fjóla, f. 1959, eiginmaður hennar er Sigurjón Sveinn Rannversson, f. 1958. Synir þeirra eru þrír: a) Rannver, sambýliskona Rakel Orra Amin og eiga þau fjögur börn. b) Viktor, sambýliskona Thelma Björg Kristinsdóttir og eiga þau fimm börn. c) Oliver, sambýliskona Halla Björg Ólafsdóttir og eiga þau tvær dætur. 3) Áslaug, f. 1963, eiginmaður hennar er Jónas Guðjónsson, f. 1959, og eiga þau eina dóttur, Ingibjörgu,
hennar sambýlismaður er Víðir Jónasson og eiga þau tvö börn.

Finnur ólst upp í Hlíð og gekk í skóla í Súðavík og fluttu þau fjölskyldan svo til Ísafjarðar 1947. Hann fór 14 ára einn vetur í skóla í Reykjanesi, svo tók við að vinna fyrir mat sínum og var hann á nokkrum sveitabæjum í Ísafjarðardjúpi. Sextán ára gamall flytur hann suður, þar var vinnu að hafa. Hann kynntist konu sinni í Reykjavík og fluttu þau síðan til Keflavíkur enda næga vinnu að hafa á Keflavíkurflugvelli, fyrst hjá hernum, svo hjá Loftleiðum og Flugleiðum, þar var hann verkstjóri í hlaðdeildinni í mörg ár. Þau bjuggu í Keflavík í yfir 40 ár, 1998 fluttu þau til Reykjavíkur og vann Finnur á nokkrum stöðum þar, í Húsgagnahöllinni, Húsasmiðjunni og var húsvörður í nokkur ár í fjölbýlishúsi við Sléttuveg.

Áhugamál hans var borðtennis og var hann einn af stofnendum Borðtennisklúbbs Keflavíkur, voru hann og vinnufélagi hans með æfingar fyrir unglinga í Ungó sem voru vel sóttar. Hann stundaði pílukast með vinnufélögunum hjá Flugleiðum og voru farnar ófáar keppnisferðir innanlands og utan. Voru hjónin virkir félagar í Húsbílafélaginu og Kanaríklúbbnum.

Útförin fer fram frá Digraneskirkju í dag, 13. nóvember 2023, klukkan 14.

Það er sárt að kveðja, en elsku pabbi minn er búinn að fá hvíldina. Nákvæmni, stundvísi og útsjónarsemi var það sem hann tamdi sér og kenndi mér, fyrir það vil ég þakka. Nú eru þau sameinuð í sólarlandinu fagra, pabbi og mamma, þar finnast engar þrautir og þar er gott að dansa.

Alzheimerbænin.

Ekki biðja mig að muna.

Ekki reyna að fá mig til að skilja.

Leyfðu mér að hvíla öruggur, vitandi að

þú sért hjá mér.

Kysstu mig á kinnina og haltu í hönd mína.

Ég er utan við mig, meira en þú skilur.

Ég er sorgmæddur, veikur og fjarri.

Það eina sem ég veit er að ég þarfnast þín og að þú sért hjá mér.

Sýndu mér þolinmæði.

Ekki skamma mig eða hrópa á mig.

Ég get ekki að þessu gert, eða verið

öðruvísi, þó ég vildi.

Mundu aðeins að ég þarfnast þín.

Að þú sért hjá mér, áður en allt fer.

Ekki svíkja mig.

Elskaðu mig allt til endaloka.

(O.D.)

Minningar af lífshlaupi okkar saman geymi ég í hjarta mínu, kæri pabbi, og ég sakna þín, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

(Þ.S.)

Áslaug.

Nú hefur tengdafaðir minn kæri hlotið kærkomna hvíld. Hefur verið erfitt og sárt nokkur síðustu ár að fylgjast með þessum hressa og duglega manni sogast inn í algleymi erfiðs sjúkdóms sem alzheimer er. Langar mig að minnast hans með nokkrum orðum.

Nú eru 50 ár síðan leiðir okkar lágu fyrst saman á Heiðarbrún 3 í Keflavík þegar ég var að gera hosur mínar grænar fyrir elstu dóttur hans, sem tveimur árum síðar varð eiginkona mín. Það er skemmst frá því að segja að þau hjónin, Finni og Dedda, tóku mér frá upphafi afar vel. Man ég að ég undraðist nokkuð hversu ung þau voru, einungis fimmtán og nítján árum eldri en ég. Á þessum tíma voru þau búin að byggja sér einbýlishús af miklu harðfylgi enda var Finni bæði harðduglegur og góður verkmaður. Því fékk ég að kynnast þegar hann hóf að byggja í Heiðarbakkanum en þar reyndi ég að leggja til það lið sem ég gat. Minnist ég þess að þar kenndi hann mér að múra og þótti mér mikið til koma þegar hann fann ekki að verkinu. Á þessum árum tíðkaðist það gjarnan að menn unnu í sínum húsum sjálfir og mikið var um sk. skiptivinnu. Var Finni duglegur að múra fyrir kunningja sína sem þá unnu annað fyrir hann í staðinn.

Þau hjónin unnu bæði á Keflavíkurflugvelli á þessum árum og áttu gott með að fara til útlanda. Nutum við fjölskyldan þess þegar komið var úr verslunarferðum með föt á barnabörnin og eitt og annað sem kom sér vel. Var þar ekki skorið við nögl. Í mörg ár vorum við hjá þeim um jól eða áramót og þar kynntist ég fyrst, saklaus sveitamaðurinn, hamborgarhrygg og kalkún, sem ekki fékkst nú víða og alls ekki í Dölunum. Eins kenndi hann mér pílukast í bílskúrnum og voru margar keppnir háðar. Tapaði ég þeim flestum, enda Finni keppnismaður í pílu.

Margar minningar koma upp í hugann tengdar ferðalögum en þau hjón voru afar dugleg að ferðast, bæði innan lands og utan. Áttu tjaldvagn og síðan húsbíla. Fóru þau flestar helgar á sumrin eitthvað um landið, styttri sem lengri ferðir með Félagi húsbílaeigenda en þar var hann í stjórn í einhver ár. Var gaman að kíkja í heimsókn til þeirra ef félagið var í grenndinni. Þar nutu þau sín vel við leik og söng. Eins ferðuðust þau víða erlendis en mörg hin síðari ár voru þau ferðalög að mestu einskorðuð við Gran Canaria en þangað fóru þau fjörutíu sinnum. Við hjónin vorum þeirrar ánægju aðnjótandi að vera með þeim síðustu tvö árin sem þau fóru, viku í senn. Var afar nærandi að njóta samverunnar með þeim og njóta leiðsagnar þeirra á svæði sem þeim var svo mjög kært. Áttu þau til dæmis fast sæti á Mannabar en þangað var farið til að syngja í góðra vina hópi.

Minningar sem orðið hafa til á öllum þessum árum munum við fjölskyldan varðveita, rifja upp á góðum stundum og hugsa um það sem þú og þið hjónin voruð okkur öllum. Tjaldið er fallið, komið að leiðarlokum. Vertu kært kvaddur, elsku tengdapabbi, pabbi, afi og langafi.

Kristján Þormar Gíslason.