Hörður Eiríksson fæddist á Eskifirði 21. ágúst 1937. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 15. október 2023.

Foreldrar Harðar voru hjónin Ingunn Þorleifsdóttir, f. 30. maí 1906 á Bæ í Lóni, d. 21. febrúar 1984, og Guðjón Eiríkur Kristjánsson, vélstjóri og sjómaður, f. 5. ágúst 1903 á Eskifirði, d. 15. júní 1964. Hörður ólst upp í Múla á Eskifirði ásamt foreldrum sínum og fjórum systkinum, Lovísu, f. 1928 d. 2013, Sveinbjörgu, f. 1929, d. 2011, Sigríði, f. 1931, d. 2017, og Þorleifi, f. 1945.

Hörður kvæntist 18. mars 1961 Sigrúnu Guðmundsdóttur, f. 27. júlí 1936, d. 1. júní 2018. Foreldrar Sigrúnar voru hjónin Sigurborg Þorvaldsdóttir, f. í Stóru-Breiðuvík í Fjarðarbyggð 14. maí 1893, d. 3. október 1978, og Guðmundur Sveinsson f. í Æðey við Ísafjarðardjúp 27. janúar 1884, d. 7. ágúst 1967.

Hörður og Sigrún eignuðust fjögur börn, þau eru: 1) Helga Björk, f. 1961, sjúkraliði. Maður hennar er Sigurjón Árnason húsasmíðameistari. Synir þeirra eru Kjartan Örn og Hlynur Árni. Þau eiga fjögur barnabörn. 2) Eygló, f. 1964, myndlistarkona. Sambýlismaður hennar er Ríkharður H. Friðriksson tónlistarmaður. 3) Sóldís f. 1965, leikskólastjóri. Maður hennar er Þórbjörn Sigurðsson lögreglumaður. Synir þeirra eru Hörður Ingi, Eyþór Smári og Jóhann Óli. Þau eiga fjögur barnabörn. 4) Sævar, f. 1966, framkvæmdastjóri. Kona hans er Laufey Guðmundsdóttir. Börn þeirra eru Sigrún Björk, Hrafn, Jóhann Kristófer og Eiríkur Már. Þau eiga þrjú barnabörn.

Hörður var járniðnaðarmaður og vann lengst af við bílasmíði. Ungur fór hann á sjóinn en vann í framhaldinu við virkjanaframkvæmdir. Þaðan lá leið hans til Reykjavíkur þar sem hann kynntist tilvonandi konu sinni. Í Reykjavík vann hann við skipasmíðar og í ein þrjátíu ár við bílasmíðar. Hörður og Sigrún hófu sinn búskap í Reykjavík. Þau bjuggu fyrstu búskaparárin á Vífilsgötu og í Blönduhlíð en byggðu 1969 heimili í Neðra-Breiðholti og 1974 í Seljahverfi. Þau fluttu í Kópavog 1990 en bjuggu í Mosarima í Grafarvogi frá 1998 til 2022.

Útför Harðar fór fram í Grafarvogskirkju í kyrrþey hinn 3. nóvember 2023.

Elsku faðir okkar hefur kvatt þessa jarðvist. Hann ólst upp með foreldrum sínum og systkinum á Eskifirði og var hann eins og þau öll kenndur við heimilið sitt, Múla. Uppvaxtarár hans voru hamingjurík, frelsi og gleði virðast hafa einkennt barnæsku hans. Ungur flyst hann til Reykjavíkur og hefur þar búskap. Eins og algengt var á þeim árum unnu heimilisfeðurnir langan vinnudag og oft um helgar. Pabbi byggði fleiri en eitt heimili fyrir fjölskylduna og var hagleiksmaður bæði á tré og járn. Hann var vandvirkur og útsjónarsamur og fann skapandi lausnir við útfærslu margra verka sinna, hvort heldur það voru húsbyggingar eða smíðisgripir. Pabbi var fagurkeri, hann smíðaði fallega gripi úr járni sem prýða nú heimili okkar. Einnig var hann áhugasamur um listir og var fordómalaus og opinn gagnvart svo mörgu.

Garðrækt átti hug hans allan síðari ár hans og var garðurinn í Mosarima einstaklega fallegur, garður sem þau hjónin ræktuðu upp í sameiningu og veitti þeim mikla ánægju.

Foreldrar okkar voru samrýnd og höfðu gaman af því að ferðast jafnt innanlands sem til útlanda. Þau voru óþreytandi við að pakka í bílinn viðlegubúnaði og ferðast um landið nokkrar vikur á ári þegar við börnin vorum yngri. Það gekk ekkert lítið á þegar verið var að pakka ofan á og inn í litla Morrisinn eða Malibúinn og setið var hátt á svefnpokum með prímus og annað undir fótum. Engin öryggisbelti í þá daga. Okkur eru þær ómetanlegar minningarnar um útilegulífið, heimsóknir austur á land til skyldmenna og ævintýrin sem þeim fylgdu. Skíðaferðir um helgar voru fastur liður þegar snjór var og pabbi var óþreytandi að fylla bílinn af krökkum og keyra liðið á skíðasvæðin í kringum borgina. Síðari árin ferðuðust foreldrar okkar áfram innanlands en einnig þó nokkuð til útlanda. Síðasta utanlandsferðin hans pabba var á áttræðisárinu hans þegar feðgarnir fóru saman til Færeyja. Sú ferð var pabba eftirminnileg því mörgum Færeyingum hafði hann kynnst er hann var ungur maður á sjónum og kunni vel við Færeyjar og fólkið sem þar bjó.

Pabbi var mikill fjölskyldumaður. Hann fylgdist vel með börnum og barnabörnum, sýndi áhuga á þeirra vegferð og áhugamálum. Hann hrósaði sínu fólki og var ávallt hvetjandi, hvort sem það var í námi eða starfi. Hjálpsemi einkenndi hann og margir nutu góðs af og var hann einstaklega drífandi ef honum fannst þörf á að rétta hjálparhönd við hin ýmsu verk. Síðustu ár mömmu tók hann að mestu við heimilishaldinu og var í þeim verkum, eins og öðrum, æðrulaus, natinn og umhyggjusamur.

Við kveðjum elsku pabba með hlýju og þakklæti. Takk fyrir ljúfmennsku og uppbyggilegt viðhorf til lífsins. Hvíl í friði.

Helga Björk, Eygló,

Sóldís og Sævar.

Nú hefur hann Hörður móðurbróðir minn kvatt þessa jarðvist. Hann var fjórði í röðinni í fimm systkina hópi, barna afa míns og ömmu, Eiríks Kristjánssonar og Ingunnar Þorleifsdóttur í Múla á Eskifirði.

Hörður hafði yfir sér einstaka áru góðmennsku og hlýju, sem börn skynja sérstaklega og mér fannst alltaf gott að hitta Hörð, allt frá barnæsku. Ég hitti hann nú síðast rúmri viku fyrir andlátið og yfir honum var sama ró og gleði og ég hef alltaf skynjað hjá honum. Hann var glaður, sáttur og stutt í kímnina og húmorinn og stoltur af afkomendum sínum öllum.

Hörður var hagur maður og allt lék í höndum hans. Margan kjörgripinn hefur hann smíðað og ég er svo heppin að eiga eftir hann kertastjaka úr járni, sem hann færði mér í fimmtugsafmælisgjöf. Hann er í stofunni hjá mér og gleður mig í fegurð sinni og einfaldleika. Hörður lagði haga hönd á margt og var alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd, hvar sem þess var þörf.

Ég kveð hann með þakklæti og votta börnum hans, tengdabörnum og afkomendum öllum samúð mína. Minningin um Hörð frænda lifir.

Sigríður Jónsdóttir.

Það er á tímamótum sem þessum sem maður horfir og sér myndina í réttum litum. Ég sé lærdóminn sem ég hef dregið beint eða óbeint frá þér í sjálfum mér. Takk fyrir tímann sem við áttum saman. Takk fyrir viskuna og veganestið inn í framtíðina; það er ómetanlegt.

Það er skrítið að horfa til allra stundanna sem við eyddum í bílskúrnum í Mosarimanum, hvort sem það var hjólið, bíllinn eða í raun hvaða tæki og tól sem þurfti einhvers konar yfirhalningu. Það eru þessar stundir sem gefa manni svo mikið, á stundum sem þessum sem mestur lærdómur um lífið fer fram. Takk fyrir að sýna mér þolinmæði og þrautseigju. Takk fyrir að kenna mér að takast á við verkefnin sem eru fyrir framan mann, að sjá lausnir frekar en vandamál. Það var held ég enginn veraldlegur hlutur sem ekki var hægt að gera við eða nýta, það var eins og það væru einhverjir töfrar í verkfærunum þínum.

Þú sýndir mér hvernig hægt er að draga ánægju af litlu hlutunum í lífinu, því sem gleymist oft í amstri hversdagsleikans. Hlutunum sem eru fyrir framan mann á hverjum degi og þykja svo sjálfsagðir. Ég hugsa oft til þess hversu gott það var að hafa ykkur Sigrúnu ömmu svona nálægt í hverfinu þegar ég var að alast upp. Fyrir óharðnaðan ungling var ómetanlegt að geta stokkið yfir, kúplað sig út og hlustað á einstöku sögurnar þínar að austan. Alltaf var tekið á móti manni með brosi og hlýju.

Jóhann Óli Þórbjörnsson.

Ég á margar góðar minningar um afa Hörð og ófáar stundir sem ég eyddi með honum og ömmu Sigrúnu við eldhúsborðið í Mosarimanum.

Þar sýndi hann alltaf brennandi áhuga á því sem ég var að fást við í lífinu, hvort sem það var skóli, íþróttir eða vinna. Hann klikkaði aldrei á að sýna áhuga, spyrja spurninga og forvitnast um það sem ég var að fást við. Það var alltaf svo notaleg tilfinning að sitja með þeim tveimur og mikil hlýja, gleði og kærleikur sem fylgdi honum afa, alltaf.

Afi var líka alltaf til í að stússa í einhverju með manni, hvort sem það voru bílaviðgerðir, smíða eitthvað fallegt fyrir heimilið í bílskúrnum eða vinna að einhverju verklegu verkefni fyrir skólann, þá gat maður alltaf leitað til hans. Hann var nefnilega alveg einstaklega úrræðagóður og alltaf leysti hann verkefnin með mér á einhvern snilldarhátt.

Ég er glaður í hjartanu að hann sé kominn til Sigrúnar sinnar. Þau voru samrýnd og hún var hans hinn helmingur og ég er viss um að þau eru í góðum gír og húmor, einhvers staðar hinum megin.

Takk fyrir samfylgdina í gegnum lífið elsku afi. Mér þykir vænt um þig og allar okkar stundir saman.

Eyþór Smári Þórbjörnsson.

Elsku nafni.

Minningar um tíma okkar saman á þessari jörð munu ávallt fylgja mér. Minningar eins og af þér að nostra við Fordinn þinn í bílskúrnum á Álfhólsvegi, hreinni og flottari bíl hafði ég aldrei séð, og leiðinlegt að segja að umhirða bíla náðist ekki að smitast yfir til mín. Fjölmargar ferðir þínar með mig upp á bílaverkstæðið á Kársnesinu eru einnig minnisstæðar úr æsku minni. Þú leyfðir mér að skoða og þykjast keyra alla stóru bílana sem voru í viðgerð. Mér finnst líklegt að ég hafi suðað um að fara á verkstæðið í hvert skipti sem ég kom í heimsókn til ykkar Sigrúnar ömmu, því ferðirnar þangað voru algjör ævintýraheimur fyrir lítinn bílakarl eins og mig. Á leiðinni aftur heim á Álfhólsveg var síðan stoppað á vídeóleigunni og tekin mynd og valið smá nammi.

Það var alltaf gott að koma til ykkar ömmu. Nú ert þú kominn til hennar, og vonandi þó nokkur tími þar til við hittumst næst. Það minnisstæðasta sem ég tek frá tíma okkar saman, elsku nafni, er samt lundin þín, húmor og frásagnargáfa, nokkuð sem ég vona innilega og hef trú á að þú hafir náð að kveikja hjá mér, öðru gegnir um bíladelluna. Mér leiddist aldrei að heyra sögur frá uppvaxtarárum þínum austur á Eskifirði. Veiðiferðir, ferðalög, ýmis vinna sem þú tókst að þér eins og bygging virkjana og „gildar“ ástæður fyrir því að ég mátti aldrei bjóða þér í dýrindis hreindýraveislu.

Alltaf áttir þú skemmtilega sögu í pokahorninu. Þú varst líka alltaf í góðu skapi og það var ávallt stutt í grínið og stríðnina, t.d. þegar þú stríddir ömmu og bauðst mér úr neftóbaksdósinni þinni. Ég veit ekki hvort þér fannst fyndnara; hún að æsa sig eða ég að gretta mig og hnerra yfir þessum óþverra. Ég býst við að þér hafi þótt við bæði fyndin.

Að hafa átt þig að sem afa og nafna er mér ótrúlega dýrmætt. Þær eru margar minningarnar sem ég mun ávallt varðveita í hjarta mínu og leggja rækt við að miðla áfram því sem þú gafst mér til minna nánustu. Hver veit, kannski mun ég eignast aftur nafna sem finnst ég eins skemmtilegur og fyndinn og þú svo sannarlega varst.

Þangað til næst.

Þinn nafni,

Hörður.