Þorvaldur Loftsson fæddist á Hafnarhólmi á Ströndum 11. júní 1933. Hann lést 4. nóvember 2023.

Foreldrar hans voru Hildur Gestsdóttir og Loftur Torfason og eignuðust þau þrettán börn.

Þorvaldur giftist eiginkonu sinni, Svanfríði Valdimarsdóttur, hinn 14. ágúst 1954. Eignuðust þau átta börn, þar af komust sjö á legg. Barnabörnin eru 21 og barnabarnabörnin orðin 43 og barnabarnabarnabörnin eru 11. 1) Valdimar, giftur Oddnýju Erlu Valgeirsdóttur. 2) Erla Lind. 3) Óskírður, lést skömmu eftir fæðingu. 4) Rafn, látinn, var í sambúð með Björk Gunnarsdóttur. 5) Hildur, gift Gunnari Þór Heiðarssyni. 6) Þorvaldur Svanur Þorvaldsson, giftur Jóhönnu Stefánsdóttur. 7) Fjóla. 8) Atli, giftur Steinu Árnadóttur.

Þorvaldur starfaði lengst af sem vélvirki.

Útför fer fram í dag, 14. nóvember 2023, kl. 13 frá Akraneskirkju.

Streymt verður frá útför:

mbl.is/go/ppf3p

Þorvaldur Loftsson tengdafaðir minn er fallinn frá níræður að aldri. Eitt af því síðasta sem hann sagði, orðinn frekar lasinn, var „ef ég kem mér ekki á fætur núna þá drepst ég!“

Hann skóf ekki utan af hlutunum, sagði það sem honum bjó í brjósti og fegraði ekki orðavalið.

Þessi sterklegi Strandamaður sem fæddist á Hafnarhólmi í Steingrímsfirði og ólst upp í Vík hafði alltaf eitthvað til málanna að leggja og fór þá stundum mikinn. Þegar Þorvaldur fékk heimili á dvalarheimilinu Höfða fékk hann aftur lífskraftinn eftir fráfall Svönu sinnar, hann var ánægður og dásamaði mjög gott atlæti þar og hve stelpurnar væru góðar við sig. Hann fann sér verkefni við hæfi, sópaði og þreif upp rusl meðan hann reykti vindil sinn með ánægju. En þrátt fyrir stóryrði og stundum hranalegt viðmót var ekki langt í mýkri hliðina en hann var ekki að flíka því mikið við fólk, það átti bara að vita að honum væri annt um það.

Þorvaldur var dugnaðarforkur og var ánægðastur þegar hann hafði eitthvað fyrir stafni, það átti ekki við hann að sitja auðum höndum. Hann var líka mikill dýravinur og var alltaf glaður þegar Valdi kom með hundinn með í heimsókn.

Þorvaldur var mér góður og vildi allt fyrir mig gera en eitt var hann alltaf óánægður með og það var það að ég nýtti bílskúrinn hans Valda til að geyma allskonar drasl (jólaskraut og fleira) svo ómögulegt var að finna nokkurn hlut! Þorvaldur hafði þann vana að ná í hluti, verkfæri og annað sem hann vantaði og vandaði mér ekki kveðjurnar ef hann fann ekki það sem hann leitaði að. En svona var hann bara og við vöndumst þessu og höfðum lúmskt gaman af.

Við Valdi fórum með þeim hjónum í nokkrar sumarferðir, m.a. til Vestmanneyja þar sem bróðir Svönu bjó, og ætíð talaði hann um ljótt og leiðinlegt landslag á leiðinni í Landeyjahöfn, ef hann hefði getað hefði hann breytt því.

Þorvaldi var mjög annt um fjölskyldu sína þó hann tilkynnti það ekki með berum orðum, hann flíkaði ekki tilfinningum sínum en hann átti sínar góðu stundir. Meðan þau hjónin Þorvaldur og Svana höfðu heilsu fóru þau á hverju sumri norður í Vík í bústaðinn og eyddu þar lunganum úr sumrinu og svo var farið til berja er haustaði því bestu bláberin uxu auðvitað á Ströndum. Strandirnar höfðu allt sem aðrir staðir höfðu ekki, meira segja var rigningin eiginlega þurr!

Já, margs er að minnast úr Strandaferðum en síðasta ferð Þorvaldar var norður á Drangsnes til að vera við jarðarför systur sinnar Sóleyjar. Hann var þá orðinn ansi lasburða en vildi fara svo það varð úr, það var hans hans vilji og hans ákvörðun og hún stóð.

Ég kveð nú tengdaföður minn sem reyndist mér og börnunum vel, ekki með blíðuorðum heldur styrk og umhyggju sem nálgaðist afskiptasemi. En þetta var Þorvaldur, hann kom til dyranna eins og hann var klæddur.

Síðustu ár sem hann var til heimilis á Höfða leið honum mjög vel og var mjög ánægður og eiga starfsmenn þar stærstan þátt í því. Ég er viss um að draumalandið tekur vel á móti honum því hann var einstakur.

Kveðja,

Oddný og fjölskylda.