Gústaf Adolf Skúlason
Vitnisburður Birgis
Þórarinssonar alþingismanns, sem fór og kynnti sér sjálfur hina hrottafengnu illmennskuárás vígamanna Hamas á saklausa borgara Ísraels þ. 7. október, lætur engan ósnortinn. Morgunblaðið hefur gert þessari ólýsanlegu grimmd sem þar birtist góð skil í fréttum, leiðurum og Reykjavíkurbréfi og á þakkir skildar fyrir. Um er að ræða hryllilegustu aðför að gyðingum eftir Helförina, þegar nasistar drápu gyðinga milljónum saman. Stríð Hamas og Ísraels hefur í einni vendingu svipt hulunni af því gríðarmikla gyðingahatri sem enn finnst í heiminum. Jafnframt hefur stríðið sýnt, hverjir það eru sem standa með gyðingum og fordæma hina ólýsanlegu illmennsku Hamas.
Breski blaðamaðurinn Douglas Murray sagði nýlega, að nasistar hefðu ekki verið jafn sálarlausir og Hamas. Eftir dagsverkið að aflífa gyðinga með hnakkaskoti eða eiturgasi, þá þurftu sumir þeirra að slá á samviskukvalirnar með áfengisdrykkju á kvöldin. Nasistar voru ekki að monta sig af Helförinni eins og vígamenn Hamas gerðu eftir hryðjuverkin í Ísrael. Sem dæmi má nefna, að þegar líkinu af Shani Louk, 23 ára þýsk-ísraelskri konu, var ekið um Gasa á opnum pallbíl eftir að hafa verið ítrekað nauðgað og síðan afhöfðuð, þá fögnuðu íbúarnir böðlunum sem hetjum, börðu og hræktu á líkið.
Það var því hárrétt afstaða ríkisstjórnar Íslands að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna um vopnahlé á Gasa, þegar fulltrúar Sameinuðu þjóðanna neituðu að fordæma hryðjuverkaárás Hamas. Verður sú afstaða SÞ til ævarandi skammar og sýnir hversu afvegaleidd sú stofnun er orðin miðað við sinn upprunalega tilgang. Með hryðjuverkaárásinni braut Hamas það vopnahlé sem var í gangi. Öll vopnahlé sem Ísrael hefur samþykkt hafa verið rofin af hatursfullum andstæðingi sem hefur það yfirlýsta markmið að afmá Ísrael af yfirborði jarðar og drepa alla gyðinga.
Það er dapurlegt að sjá fylgismenn Hamas á Íslandi og Vesturlöndum fagna hryðjuverkum Hamas á gyðingum. Í mörgum ESB-ríkjum þustu Hamasliðar út á götur og þeyttu horn á bílum sínum að kveldi 7. október. Í Svíþjóð var þetta áberandi í Malmö, Gautaborg og Stokkhólmi. Öldungurinn Kissinger varaði við eftir „sigurför“ Hamasliða í Berlín, að „sams konar viðhorf gætu brotist út gagnvart Evrópu“. (Die Welt 11. okt.) Sagði hann það vera „alvarleg mistök að hleypa svona mörgum inn með allt aðra menningu, trúarbrögð og hugsun“.
Fyrir þá sem búa í Svíþjóð og öðrum ríkjum ESB á meginlandinu er skilningur á hryðjuverkum nærtækari en hjá eyjarskeggjum lítillar eldfjallaþjóðar í norðri. Svíar eru réttdræpir hvar sem er samkvæmt íslömskum heilagastríðsmönnum
eftir brennur á Kóraninum. Tveir misstu nýlega lífið í Brussel fyrir það eitt að vera í landsliðsbol sænska fótboltaliðsins. Svíar óttast að sýna þjóðleg einkenni, jafnvel að mæla á tungu sinni erlendis. Útsendarar hryðjuverkasveita Isis, Al-qaeda, Hamas, Hezbollah, Fatah o.fl. á meginlandi Evrópu og á Norðurlöndum geta allir gerst virkir með einfaldri herkvaðningu í því heilaga stríði gegn trúlausum sem íslamistar boða. 11. október héldu stuðningsmenn Hamas og Palestínumanna útifund á Sergel-torgi í Stokkhólmi. Nýnasistar mættu þar í fullri múnderingu og saman kyrjuðu þeir slagorð um að útrýma gyðingum.
Vinstrimenn á Íslandi ættu að íhuga það, hvers vegna Hamas og nýnasistar eru svona samtaka í vilja sínum að slátra gyðingum. Það er hryllilegt að vitna, að börn og óbreyttir deyja í Gaza í réttlátri árás Ísraelsmanna gegn hryðjuverkamönnum Hamas. Sökin er samt ekki Ísraelsmanna heldur Hamas, sem notar óbreytta og börn sem skjöld í hernaði og bannar þeim að yfirgefa svæðið. Slíkt er stríðsglæpur á sama hátt og að byggja herstöðvar og vopnabúr undir eða við sjúkrahús og barnaskóla.
Einnig ættu stuðningsmenn Hamas á Íslandi að íhuga dómsniðurstöðu Nürnberg-réttarhaldanna eftir seinni heimsstyrjöldina. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu, að á meðan öll mannslíf eru jafnrétthá, þá gildir ekki það sama um hvernig fólk týnir lífinu. Stormsveitir SS voru dæmdar fyrir stríðsglæpi fyrir að smala saman saklausum, vopnlausum borgurum og aflífa þá. Hins vegar var það ekki talið stríðsglæpur, hversu margir saklausir borgarar týndu lífinu í sprengjuárásum bandamanna t.d. á hina þýsku Dresden. Á meðan hið fyrrnefnda var talið hryðjuverk, þá var hið síðara talið „eftirsjáanlegur en óumflýjanlegur hluti stríðsins“.
Að afneita sögunni frá því fyrir tíma frelsarans er engin lausn á vanda gyðingahatursins sem ríkir í dag. Rómverjar fundu upp nafnið Palestína eftir að hafa gefið mannfjöldanum „frelsið“ að velja hvorum þeir vildu gefa líf: Jesú eða hinum alræmda Barrabas. Gyðingar hafa alltaf búið í Palestínu allar götur síðan, þótt tekist hafi að tvístra þeim út um heiminn. Ísrael var og er alltaf fyrirheitna landið og gyðingar hvar sem er beina alltaf bænum sínum þangað: „Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, megi hægri hönd mín lamast og tunga mín hætta að tala.“
Valið í dag er það sama og fyrr: Hverjum viljið þér gefa líf, Jesú eða Barrabas? Ísrael eða Hamas?
Höfundur er smáfyrirtækjarekandi á eftirlaunum.