Breytingar Starfsemi Póstsins hefur verið niðurgreidd síðustu ár.
Breytingar Starfsemi Póstsins hefur verið niðurgreidd síðustu ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), segir erfitt að meta áhrif fyrirhugaðra breytinga á virkum og óvirkum markaðssvæðum hjá Íslandspósti.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), segir erfitt að meta áhrif fyrirhugaðra breytinga á virkum og óvirkum markaðssvæðum hjá Íslandspósti.

Núverandi markaðssvæði Póstsins voru skilgreind í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar árið 2020. Nánar tiltekið vegna útnefningar á Íslandspósti sem alþjónustuveitanda á sviði póstþjónustu um land allt 2021 til 2030. Með ákvörðuninni fékk Pósturinn árlega fjárframlög vegna kostnaðar á óvirkum markaðssvæðum.

Samkvæmt nýrri ákvörðun Byggðastofnunar (14/2023) verður óvirka markaðssvæðið fyrir almenn bréf að tveimur kg stækkað mikið. Til dæmis fjölgar heimilum á því svæði úr 19 í 48 þúsund. Af því leiðir að framlög ríkisins vegna almennra bréfa kunna að hækka. Hátt hlutfall pantana á netinu – fatnaður, bækur og fleira – er undir tveimur kg. Það getur því haft áhrif á netverslun ef verð slíkra póstsendinga breytist.

Á hinn bóginn minnkar óvirka markaðssvæðið fyrir pakka að 10 kg og mun það fyrst og fremst ná til sveitabæja.

Erfitt að meta hækkunarþörf

Spurður hvaða áhrif breyting á óvirkum markaðssvæðum Íslandspósts fyrir pakka undir 10 kg kunni að hafa á verð slíkra sendinga vitnar Benedikt í þriðju málsgrein 17. greinar laga um póstþjónustu. Þar segir að gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar á meðal gjaldskrár vegna erlendra póstsendinga, skuli „taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði“.

„Sú breyting að skilgreina sem virk markaðssvæði svæði sem hafa verið skilgreind sem óvirk markaðssvæði leiðir til þess að alþjónustuveitandi á þá ekki rétt til alþjónustuframlags vegna póstþjónustu á svæðinu,“ segir Benedikt.

„Samkvæmt orðalagi ákvörðunar Byggðastofnunar fellur alþjónustuskyldan hins vegar einnig niður á þessum svæðum. Því verður verðlagningin ekki lengur háð því að verð teljist viðráðanlegt og endurspegli raunkostnað að viðbættum hæfilegum hagnaði. Erfitt er hins vegar að segja til um hvort einhvers konar hækkunarþörf liggi fyrir á þessum svæðum sem kallar á verðbreytingar. Ekki liggur fyrir ákvörðun um alþjónustuframlag vegna líðandi árs. Nýjasti árshlutareikningur Íslandspósts ohf. gefur þá mynd að tap hafi myndast í heildarrekstrinum á fyrri helmingi ársins sem þó er töluvert lægra en rekstrartap sama tímabils síðasta árs en engin leið er að segja til um í hvaða þáttum starfseminnar tapið hefur myndast,“ segir Benedikt.

Ef tap þá hækkar verð

Óvíst sé hvernig alþjónustuframlag ríkisins hafi dreifst á sendingar hjá Íslandspósti.

„Í ákvörðun Byggðastofnunar um alþjónustuframlag vegna ársins 2022 kemur meðal annars fram að hreinn kostnaður vegna dreifingar á óvirkum markaðssvæðum hafi numið tæpum 220 milljónum króna en þar undir fellur samkvæmt mínum skilningi bæði kostnaður vegna dreifingar bréfa og pakka á slíkum svæðum án sundurgreiningar á milli flokka óvirkra markaðssvæða. Afkoma starfsþátta Íslandspósts ohf. um þessar mundir er mér ekki kunnug. Með öðrum orðum fæ ég ekki séð að fyrir liggi hve stór hluti alþjónustuframlags hefur runnið til að bæta fyrir hreinan kostnað af pakkasendingum á óvirkum markaðssvæðum að undanförnu og því síður hvernig hann hefur dreifst á óvirk markaðssvæði. Hafi svæðin verið rekin með tapi má gera ráð fyrir að verð muni hækka en þá munu e.t.v. skapast forsendur fyrir keppinauta til að stíga inn. Hafi svæðin ekki verið rekin með tapi eru vart líkur á að hækkanir komi fram, einkum ef samkeppni ríkir um veitingu pakkaþjónustu á svæðinu.“

– Hvaða áhrif mun breyting á óvirkum markaðssvæðum Íslandspósts fyrir almenn bréf hafa á verð slíkra sendinga?

Ríkari réttur til framlags

„Samkvæmt lögum um póstþjónustu er smásölugjaldskrá fyrir bréf allt að 50 g innan alþjónustu sú sama um allt land, [og skal] vera viðráðanleg og miðast við raunkostnað að viðbættum hæfilegum hagnaði. Verðlagning á almennum bréfum frá 51-2000 g þarf hins vegar ekki að vera hin sama um allt land. Eins og áður segir er mér ekki kunnugt um hver afkoma starfsþátta Íslandspósts ohf. er um þessar mundir. Útvíkkun óvirkra markaðssvæða ætti þó í raun ekki að hafa í för með sér breytingu á verðlagningu bréfasendinga þar sem sömu verðlagningarforsendur munu gilda og áður. Afleiðing breytingarinnar er líkleg til að verða sú að ríkari réttur myndist til alþjónustuframlags.“

– Vitnað er til þess mats Póstsins að samkeppni með pakkasendingar hafi aukist mikið síðustu ár. Taka SVÞ undir það? Eða er það tylliástæða til að skerða óvirkt markaðssvæði pakkasendinga?

„Ég tel miklar líkur á að samkeppni á sviði pakkasendinga hafi aukist. Slík samkeppni hefur aukist erlendis og hér hafa verið sett á fót sérstök fyrirtæki eða deildir fyrirtækja sem sérhæfa sig í slíkum sendingum, m.a. samhliða vexti í netverslun. Ég á hins vegar erfitt með að átta mig á hvernig núgildandi skipting milli virkra og óvirkra markaðssvæða endurspeglar þá samkeppni sem nú ríkir.“

Höf.: Baldur Arnarson