Þjálfun Ásdís Kristjánsdóttir á þrekhjóli. Að baki henni, til vinstri, Ingibjörg Bjarnadóttir iðjuþjálfi og Jónína Sigurgeirsdóttir endurhæfingarhjúkrunarfræðingur.
Þjálfun Ásdís Kristjánsdóttir á þrekhjóli. Að baki henni, til vinstri, Ingibjörg Bjarnadóttir iðjuþjálfi og Jónína Sigurgeirsdóttir endurhæfingarhjúkrunarfræðingur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Á dögunum var því fagnað á Reykjalundi í Mosfellsbæ að 40 ár eru liðin frá því þar var stofnuð deild lungnaendurhæfingar. Á ári hverju sækja um 200 manns slíka þjónustu hjá stofnuninni – meðferð sem er gagnreynd og byggist á góðri sögu. Í flestum tilvikum er þetta fólk með langvinna lungnateppu en slíkt er samheiti yfir lungnaþembu og langvinna berkjubólgu. Á Vesturlöndum eru lungnasjúkdómar algeng dánarorsök og á Íslandi leiða þeir oft til örorku. Helsta orsök þessa eru reykingar, þótt fleira geti komið til.

Byggt á bestu þekkingu

„Í meðferð sjúklinga, hver sem veikindin eru, þarf öll vinna að vera vel skipulögð og byggjast á bestu þekkingu þar sem stöðugt bætist við. Þegar fólk kemur hingað í leit að hjálp er jafnan byrjað á endurhæfingarmati. Þar er styrkur og staða viðkomandi metin og þannig greint hvernig megi hjálpa. Oftast finnast leiðir til slíks, en mikilvægast er þó að koma sjúklingnum á þann stað að hann geti sjálfur tekið völdin og lifað með sjúkdómnum,“ segir Jónína Sigurgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur í endurhæfingarteymi lungnasjúkdóma.

Þess má geta að í september síðastliðnum varði Jónína doktorsritgerð sína við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Ritgerðin heitir Sjálfstjórnun í langvinnri lungnateppu: Reynsla sjúklinga, fjölskyldna og meðferðarlækna. Þar fjallar Jónína um reynslu sjúklinga með lungnasjúkdóma og þeirra nánustu fjölskyldu – svo og lækna – af því að efla sjálfstjórnun til að ná tökum á veikindunum. Slíkt getur tekið á, ekki síst fyrir fólk sem stendur hinum veiku næst.

Gefandi að styðja

Sú sem lagði grunninn að lungnaendurhæfingu á Reykjalundi var Steinunn Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur. Hún sinnti þessari starfsemi í um tuttugu ár og var í afmælisfögnuði á dögunum heiðruð fyrir störf sín. Nú er annað fólk, sem byggir á frumkvöðlastarfi Steinunnar, tekið við keflinu og allt er í föstum skorðum. Þau sem koma á Reykjalund í lungnaendurhæfingu, þá eftir tilvísun frá lækni, eru þar flest í 4-6 vikur í senn. Rúmlega 20 manns eru í endurhæfingu á hverjum tíma og biðlistar stundum langir. Sjúklingarnir eru um 60% konur, fólk með skerta getu og minnkuð lífsgæði einkum og helst vegna mæði og þrekleysis. Endurhæfing er einnig fyrir lungnasjúklinga sem þurfa stuðning til að breyta skaðlegum lífsháttum, svo sem að losa sig við reykingar, bæta hreyfingu eða ná tökum á mataræði sínu.

„Inntak meðferðar er að auka þol og vöðvastyrk, rjúfa vítahring mæði og hreyfingarleysis og breyta lífsstíl til lengri tíma. Árangurinn felst svo í meiri lífsgæðum, meðal annars reykleysi, þjálfun, góðum neysluvenjum, betri svefni, efldri starfsgetu og meira sjálfstrausti. Að geta stutt fólk í þessum efnum er gefandi,“ segir Jónína.

„Þau sem eru með lungnasjúkdóma til langs tíma geta oft náð styrk til að lifa með veikindum sínum. Hins vegar geta skyndileg veikindi valdið því að fólk þarf í endurhæfingu. Vetrarflensa, hálsbólga, lungnabólga og slíkt getur leitt til bakslags, auk þess sem fólk með viðkvæm öndunarfæri er útsett fyrir ýmsum umhverfisþáttum eins og svifryki eða mengunarmistri,“ segir Jónína.

Nýta orkuna sem best

Aðferðir í lungnaendurhæfingu eru þjálfun á styrk, þoli og öndun. Mælingar á súrefnismettun eru oft teknar og eru þekktar. Einnig fá sjúklingar stundum þjálfun í öndun með því að spila á munnhörpu: draga andann inn og út og búa til hljóð. Inn í endurhæfingu kemur einnig fræðsla, reykleysi, rannsóknir, ráðgjöf og stuðningur. Fjölbreyttur hópur fagfólks úr heilbrigðisstéttum myndar teymi sem heldur utan um hvern og einn sjúkling. Læknir, hjúkrunarfræðingur, sjúkraþjálfari, sálfræðingur, íþróttafræðingur og iðjuþjálfi og eftir atvikum fleiri, eru í teymi – en átta slík eru á Reykjalundi, hvert fyrir ákveðna flokka veikinda.

„Hlutverk iðjuþjálfa í meðferðinni er að efla færni sjúklinga við daglegar athafnir. Að fara á fætur á morgnana og hafa sig til út í daginn getur verið krefjandi fyrir lungnasjúklinga. Liður í því er að veita fræðslu og kennslu í orkusparandi vinnuaðferðum sem ganga meðal annars út á vinnulag, að nota hjálpartæki og hvernig viðkomandi getur nýtt orkuna sína sem best við dagleg störf, segir Ingibjörg Bjarnadóttir iðjuþjálfi sem er formaður lungnateymisins. Hún segir að lokum:

„Það er algengt að lungnasjúklingar dragi úr félagslegri þátttöku sinni. Mikilvægt er að efla fólk að því leyti. Iðjuþjálfar vinna oft með þennan þátt í meðferðinni og nýta til þess hópastarf á Reykjalundi þar sem er í boði skapandi iðja og fólk tengt við félagsstarf.“

Steinunn Ólafsdóttir var heiðruð fyrir störf sín

Frumkvæði og framlag

Í tengslum við afmæli lungnaendurhæfingar á dögunum var Steinunn Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur heiðruð fyrir framlag sitt til Reykjalundar og endurhæfingar lungnasjúkra. Steinunn var frumkvöðull í endurhæfingarstarfi og einbeitti sér að starfi í þágu lungnasjúkra. Hún hóf störf á Reykjalundi árið 1984 og starfaði í 20 ár.

Steinunn var sannkallaður frumkvöðull innan endurhæfingarhjúkrunar og kom af stað þverfaglegri endurhæfingu, í nánu samstarfi við Björn Magnússon, þáverandi yfirlækni. Var leiðtogi innan lungnateymisins alls en þar nutu sín vel hæfileikar hennar við skipulag og yfirsýn. Steinunn var ætíð fagleg og hvetjandi, lagði metnað sinn í að sjúklingar fengju góða þjónustu og að starfsfólkið fengi símenntun við hæfi, eins og Pétur Magnússon framkvæmdastjóri Reykjalundar lýsir málum.